Valþór Hlöðversson „Við okkar vinnu nýtum við allar tegundir miðla og boðleiða sem við viljum nota hverju sinni. Í þessum efnum er enginn einn miðill öðrum fremri heldur er þetta bara spurning um hvað hentar í hverju tilviki.“
Valþór Hlöðversson „Við okkar vinnu nýtum við allar tegundir miðla og boðleiða sem við viljum nota hverju sinni. Í þessum efnum er enginn einn miðill öðrum fremri heldur er þetta bara spurning um hvað hentar í hverju tilviki.“
Starfsstétt almannatengla er frekar ung en þeir eru ekki síst mikilvægir þessa dagana þegar fyrirtæki eyða minni peningum í auglýsingar.

Eftir Svanhvíti Ljósbjörgu

svanhvit@mbl.is

Almannatengsl eru í raun enn mikilvægari nú þegar fólk eyðir minni peningum í auglýsingar,“ segir Valþór Hlöðversson, framkvæmdastjóri Athygli. „Við höfum alltaf lagt á það áherslu að þegar kreppir að mega fyrirtæki ekki gleyma því að þá er einmitt ástæða til að minna á sig. Það er ekki góð rekstrarpæling að draga saman seglin á þessu sviði ef það þrengir að í rekstrinum og erfiðara er að koma hlutum á framfæri. Þá er einmitt mikilvægt að spýta í lófana. En hins vegar hafa verkefni okkar breyst eftir bankahrunið í haust. Við sinnum meira því sem við köllum áfallastjórnun. Það eru víða vandamál sem menn eru ýmist að fást við eða að búa sig undir og þá hefur okkur frekar verið beint í slík verkefni en áður.“

Dreifing upplýsinga

Það er ýmislegt fólgið í starfi almannatengils, að sögn Valþórs. „Fyrst og fremst er þetta dreifing á upplýsingum og ráðgjöf, hvernig best er að móta sína ímynd og varðveita hana. Við vinnum fyrir fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök og í starfinu felst margvísleg ráðgjöf varðandi samskipti við fjölmiðla og síðan eru margvísleg verkefni sem lúta að dreifingu almennra upplýsinga um viðkomandi fyrirtæki eftir öðrum leiðum en í gegnum miðlana sjálfa. Það getur líka snúið að ráðgjöf um samskipti innan fyrirtækis, til dæmis gagnvart starfsfólki eða hluthöfum, sérstaklega stærri fyrirtækja, og þá er mjög algengt að menn leiti ráða hjá okkur um hvernig þeir komi upplýsingum til skila. Þetta er á mjög víðu og breiðu sviði og við okkar vinnu nýtum við allar tegundir miðla og boðleiða sem við viljum nota hverju sinni. Í þessum efnum er enginn einn miðill öðrum fremri heldur er þetta bara spurning hvað hentar í hverju tilviki.“

Ung starfsstétt

Almannatengsl á Íslandi eru ekki gömul starfsstétt en elsta fyrirtækið hér á landi var stofnað 1986. Athygli var stofnað þremur árum síðar og er því næstelsta fyrirtækið í stéttinni. Sjálfur hefur Valþór starfað sem almannatengill í 17 ár og hann segir margt hafa breyst á þeim árum. „Í dag er ekki nauðsynlegt að útskýra fyrir fólki út á hvað starfið gengur. En hins vegar er því ekki að neita að það er ekki hægt að útskýra starfssvið og verkefni almannatengils í nokkrum setningum, þetta er flókið í eðli sínu. Það er mjög víða komið við og ekkert óeðlilegt þó menn velti vöngum um hvað flokkast undir þetta og hvað flokkast undir annað sem er mjög nálægt þessu, eins og auglýsingagerð og annað slíkt. Við til dæmis lítum ekki á okkur sem auglýsingastofu og sjáum alveg skýr mörk þar á milli. En ég geri mér alveg grein fyrir því að mjög margir telja þetta tvennt vera mjög skylt.“

Góð samvinna nauðsynleg

Aðspurður hvort öll fyrirtæki þurfi ráðgjafa í almannatengslum segir Valþór að ekki sé einhlítt að svara því. Auðvitað sé meiri þörf í stærri fyrirtækjunum en síðan geta verið fyrirtæki í ákveðnum atvinnugreinum sem þurfi að stíga varlega til jarðar og huga að sínum málum, hvort sem þau eru stór eða lítil. „Til að mynda fyrirtæki sem hafa ekki yfir miklu markaðsfé að ráða til að kaupa auglýsingar í fjölmiðlum. Svoleiðis fyrirtæki getur komið talsvert miklu á framfæri fyrir talsvert minni pening ef það fer þessa leið. En með þessu er ég alls ekki að segja að auglýsingar séu óþarfar, langt í frá. Í mörgum tilvikum hentar bara betur að aðilar noti almannatengslaleiðina frekar en að fara með sín mál í gegnum auglýsingastofu en flest stærri fyrirtæki nýta hvort tveggja,“ segir Valþór og tekur fram að árangurinn af starfi almannatengils fari mjög eftir því hvað hann er með í höndunum. „Við vinnum oft með fjölmiðlafólki og mál þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði til að fá framgang í fjölmiðlum. Það er ekki hægt að senda fréttatilkynningu um hvað sem er og ætlast til að hún birtist. Góður almannatengill er sá sem nær góðu samstarfi við fjölmiðlafólk. Þar sem almannatengslafagið er mjög þróað, eins og í Bandaríkjunum og Bretlandi, þá vinna almannatengslaskrifstofur og helstu fjölmiðlar mikið saman og eiga góða samvinnu.“