Dröfn Þórisdóttir starfar sem markaðsráðgjafi hjá Hvíta húsinu. Hún segir starfið margbreytilegt og gaman sé að vinna með skapandi fólki. Sem markaðsráðgjafi er hún milliliður við viðskiptavininn og reynir að koma því í framkvæmd sem hann óskar eftir.
Dröfn Þórisdóttir starfar sem markaðsráðgjafi hjá Hvíta húsinu. Hún segir starfið margbreytilegt og gaman sé að vinna með skapandi fólki. Sem markaðsráðgjafi er hún milliliður við viðskiptavininn og reynir að koma því í framkvæmd sem hann óskar eftir. Ákveðin teymi fólks úr mismunandi deildum fyrirtækisins eru mynduð í kringum hvern viðskiptavin og starfsfólkið vinnur þannig náið saman.
Bjartsýni er nauðsynleg
„Ég held að í þessu umhverfi verði maður að taka einn dag í einu og það þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn því þá gengur allt betur. Við svona aðstæður hefur það oft á tíðum sýnt sig að fólk fær bestu hugmyndirnar, það hefur alla vega ekki verið nein andleg kreppa hér hjá okkur. Það er meiri áskorun að vera skapandi á þessum tíma til að nýta markaðsfjármunina eins og best verður á kosið á sem hugmyndaríkastan hátt,“ segir Dröfn. Hún kom nýverið að herferðinni Veljum íslenskt fyrir Samtök iðnaðarins sem var ætlað að sýna að íslensk framleiðsla og iðnaður skapi verðmæti. „Með herferðinni vildum við hvetja landann til að velja íslenskt og styðja þannig við íslenskan efnahag sem hefur jákvæð áhrif inn í þjóðarbúið,“ segir Dröfn.