BÚIÐ er að selja um 80% af uppsettri flutningsgetu Farice-ljósleiðarastrengsins. Einnig hafa samningar náðst um sölu á um 80% af þeirri flutningsgetu Danice-ljósleiðarastrengsins, sem fyrirhugað er að taka í notkun í júní á þessu ári. Þetta kom fram í svari Kristjáns L. Möller samgönguráðherra við fyrirspurn Ármanns Kr. Ólafssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í gær.
Uppsett flutningsgeta Farice 1-strengsins er 100 gígabit á sekúndu en mesta mögulega flutningsgeta strengsins er 720 gígabit á sekúndu. Unnið hefur verið að lagningu Danice-strengsins og er nú áætlað að í júní verði sett upp 100 gígabit á sekúndu af þeim þeim 5.120 gígabitum sem strengurinn mun bjóða upp á.
Ármann Kr. sagði að öflug erlend fyrirtæki hefðu beðið í röðum eftir því að fá að byggja gagnaver á Íslandi.
Hann benti á að gagnaver á Suðvesturlandi sem nýtti allt að 25 MW í upphafi, gæti þurft á 30 til 60 föstum starfsmönnum að halda.
Reiknað sé með að jafnmörg störf verði til við ýmsa þjónustu í kringum hvert gagnaver, þannig myndu 60- 120 störf tengjast þessum rekstri beint og óbeint.
Hann sagði ljóst af svörum ráðherra, að það gagnamagn sem búið væri að selja, væri aðeins lítið brot af flutningsgetu strengjanna. Kvaðst Ármann Kr. geta fullyrt að þrjú eða fjögur fyrirtæki vildu koma til landsins og reisa gagnaver en verðlagið sem þeim stæði til boða inn á þessa strengi væri allt of hátt sem stæði í veginum. „Ég fullyrði að það er ekkert mál að koma tveimur gagnaverum hér af stað á næstu vikum, sem skapa 400 störf á meðan er verið að byggja þau,“ sagði hann.
Samgönguráðherra sagðist vera mjög bjartsýnn á að undirbúningur netþjónabúa kæmist aftur á fulla ferð þegar færi að rofa til í efnahagslífi heimsins. Eitt gagnaver væri þegar í höfn en í bæði iðnaðarráðuneyti og samgönguráðuneyti hafi farið fram mikil vinna vegna málsins og fjölmargir komið á fund ráðuneytanna og lýst áhuga sínum á að byggja netþjónabú á Íslandi.
Þá væri einnig til skoðunar nauðsyn þess að leggja sæstreng milli Íslands og Bandaríkjanna og fyrir 2-3 vikum hafi stór hópur fjárfesta komið í samgönguráðuneytið til að lýsa áhuga sínum á því verkefni.
omfr@mbl.is