Eftir Björn Jóhann Björnsson
bjb@mbl.is
Vísitala neysluverðs í febrúar hækkaði um 0,51% milli mánaða, samkvæmt mælingu Hagstofunnar, sem er nokkru minni hækkun en flestir höfðu spáð. Þannig hafði Greining Íslandsbanka, áður Glitnis, spáð um 1,1% hækkun í febrúar. Verðbólgan mælist nú á ársgrundvelli 17,6% sem er hjöðnun um eitt prósentustig síðan í janúar þegar ársverðbólgan var 18,6%. Síðustu þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,6% sem jafngildir 10,9% verðbólgu á ári. Síðan í desember hefur dregið verulega úr verðbólguhraðanum, en þá var þriggja mánaða verðbólgan 24%, og fór niður í 16,4% í janúar.
Samkvæmt þessari þróun virðist sem t.d. spá Seðlabankans hafi gengið eftir um að verðbólgan hafi nú náð hámarki sínu. Í síðustu Peningamálum kom fram að hratt muni draga úr verðbólgu á þessu ári og í byrjun næsta árs verði hún komin niður í 2,5%. Það er heldur jákvæðari spá en hjá greiningu Íslandsbanka, sem reiknar með 13% verðbólgu um mitt þetta ár og 5% í byrjun næsta árs.
Með lækkun verðbólgunnar hafa líkur aukist á að Seðlabankinn lækki stýrivexti sína, en næsti vaxtaákvörðunardagur er 19. mars.
Mesta íbúðalækkun í níu ár
Helsta ástæðan fyrir minni verðbólgu nú er lækkun á húsnæðisverði. Í mælingu Hagstofunnar nemur lækkunin 3,2% síðan í janúar. Er það mesta lækkun á þeim lið milli mánaða í níu ár. Á tólf mánuðum hefur húsnæðisverð lækkað að nafnverði um 6,2% en í fréttum Greiningar Íslandsbanka er bent á í gær að þetta samsvari raunlækkun húsnæðisverðs um rúm 20% á einu ári.Séu aðrir liðir í neysluvísitölunni skoðaðir þá hækkaði verð á fötum og skóm um 6,3% milli mánaða en vetrarútsölum er að mestu lokið. Verð á pakkaferðum til útlanda hækkaði um 8,6% og verð á flugfargjöldum til útlanda hækkaði um 12,8%. Minni hækkun varð á öðrum vörum, eins og mat og eldsneyti.
Guðrún R. Jónsdóttir, deildarstjóri vísitöludeildar Hagstofunnar, segir lækkun verðbólgunnar hafa verið meiri en flestir reiknuðu með. Þar hafi mestu skipt meiri lækkun húsnæðisverðs en búist var við. Sáralítil breyting hafi orðið á matvörunni og líklegt að þær verðhækkanir hafi að mestu komið fram, ásamt því að gengi krónunnar hafi styrkst.
Hjöðnun framundan
Undir þetta tekur Jón Bjarki Bentsson, sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, húsnæðisliðurinn hafi lækkað meira en þeir reiknuðu með. Áhrif af útsölum hafi einnig verið minni en spáð var. Bæði telja þau að búast megi við hraðri hjöðnun verðbólgunnar á næstu mánuðum. Benda þau á að í febrúar til maí á síðasta ári hafi gríðarlegar hækkanir orðið í hverjum mánuði, t.d. 1,5% í mars og 3,4% í apríl. Þetta geti að óbreyttu haft nokkur áhrif í mælingu vísitölunnar framundan.Jón Bjarki telur það jákvætt fyrir komu sérfræðinga frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að verðbólgan hafi minnkað. Ásamt styrkingu krónunnar og betri greiðslujöfnun bendi allt til að aðgerðaáætlun sjóðsins sé að ganga eftir í stórum dráttum.
Ýmis kennileiti í efnahagsmálum styrkja nefnilega allar spár um lækkandi verðbólgu. Gengi krónunnar hefur sem fyrr segir verið að styrkjast, húsnæðisverð lækkað töluvert, kaupmáttur launa minnkað, atvinnuleysi aukist og verulega dregið úr eftirspurn og neyslu á markaði. Á sama tíma hefur olíuverð á heimsmarkaði lækkað og fari svo að gengi krónunnar styrkist enn frekar þá „eigum við inni“ töluverða lækkun á eldsneytinu, eins og Guðrún orðaði það.
Væn hækkun á milli ára
Þegar skoðaðir eru einstakir vöru- og þjónustuliðir í vísitölu neysluverðs sést vel hve hækkunin milli ára er mikil. Verðbólgan á þessu tímabili er sem sagt 17,6% en sá vöruflokkur sem hækkað hefur mest er húsgöng, heimilisbúnaður og fleira, eða um 37,5%. Næst koma matur og drykkjarvörur, eða um nærri 29%.Minnst hafa þau útgjöld hækkað sem snúa að menntun landsmanna, eða um 1,8% síðan í febrúar á síðasta ári. Útgjöld vegna póst- og símaþjónustu hafa hækkað um rúm 6%. Nokkuð hefur dregið úr hækkun á húsnæðisliðnum, sem nú er kominn í 8%. Nánari greiningu á vísitölunni má nálgast á vef Hagstofunnar, www.hagstofa.is.