Eftir Helga Bjarnason
og Þorbjörn Þórðarson
TEKIST hafa samningar um kaup sjö fjárfesta undir forystu Óskars Magnússonar á Árvakri hf., útgáfufélagi Morgunblaðsins. Eignast þeir fyrirtækið með yfirtöku skulda og kaupum á nýju hlutafé. Fjárfestahópurinn átti hæsta tilboð í fyrirtækið.
„Við teljum að það megi gera úr þessu góðan og arðvænlegan rekstur. Það er aðalmarkmið þeirra fjárfesta sem komið hafa til liðs við mig í þessu verkefni til þessa,“ segir Óskar Magnússon.
Kaupin fara fram undir merkjum Þórsmerkur ehf., félags í eigu Óskars. Með honum í kaupunum eru Gísli Baldur Garðarsson stjórnarformaður Olís, Guðbjörg Matthíasdóttir stjórnarmaður í Ísfélagi Vestmannaeyja, Gunnar B. Dungal fyrrverandi forstjóri Pennans, Pétur H. Pálsson framkvæmdastjóri Vísis í Grindavík, Þorgeir Baldursson forstjóri Kvosar og Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja. Óskar segir að hópurinn vilji gjarnan fá fleiri fjárfesta til liðs við sig, á síðari stigum.
Boðið var upp á að þeir sem skiluðu inn tilboðum gerðu það með og án fyrirvara. Hópur Óskars nýtti sér þennan möguleika og skilaði tveimur tilboðum. Þau voru bæði hærri en tilboð Steve Cosser að sögn Einars Arnar Ólafsson forstöðumanns fyrirtækjaráðgjafar Íslandsbanka.
Í hnotskurn
» Morgunblaðið kom fyrst út 2. nóvember 1913. Stofnendur voru Vilhjálmur Finsen og Ólafur Björnsson.» Árvakur hf. var stofnsettur í Reykjavík árið 1919. Félagið keypti Morgunblaðið fljótlega eftir stofnun.
» Fréttavefurinn mbl.is var opnaður árið 1998.
* Sjö fjárfestar kaupa | 6