Samfylking og Vinstri hreyfingin grænt framboð hafa komið sér saman um að Alþingiskosningar fari fram laugardaginn 25. apríl næstkomandi. Morgunblaðið mun daglega birta fréttir sem tengjast framboðum, prófkjörum, kosningafundum o.fl.
Árni Haraldsson vill 2.-4. sæti fyrir VG
ÁRNI Haraldsson gefur kost á sér í 2.-4. sæti í forvali Vinstri grænna í Reykjavík sem fram fer 7. mars nk. Árni er 38 ára gamall og rafmagnsiðnfræðingur að mennt. Hann skráði sig í VG þann 1. febrúar sl. en hafði þar áður ekki verið flokksbundinn. Árni vill að opnað verði á umræður um Evrópumál og metið hvort fara skuli til viðræðna um inngöngu í ESB sem og myntsamstarf um evru.Kolbrún sækist eftir endurkjöri
KOLBRÚN Halldórsdóttir alþingismaður gefur kost á sér í forvali Vinstri grænna í Reykjavík þann 7. mars nk. Í tilkynningu segist Kolbrún tilbúin að vera áfram í forustusveit flokksins og starfa að þeim málefnum sem flokkurinn stendur fyrir, þ.e. vernd náttúru og umhverfis, kvenfrelsi, jöfnuði og samábyrgð.Þórdís gefur kost á sér í 6.-7. sæti
ÞÓRDÍS Kolbrún R. Gylfadóttir gefur kost á sér í 6.-7. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi sem fram fer þann 21. mars næstkomandi.Þórdís Kolbrún er 21 árs gömul. Hún útskrifaðist frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og stundar nú háskólanám.
Kristján Ketill sækist eftir 3.-5. sæti
KRISTJÁN Ketill Stefánsson gefur kost á sér í 3.-5. sæti í forvali Vinstri grænna í Reykjavík.Kristján er með meistaragráðu í kennslufræði raungreina frá Háskólanum í Osló. Hann er nú aðjúnkt við menntavísindasvið HÍ og hefur tekið virkan þátt í flokksstarfi VG undanfarin ár.
Sveinn Halldórsson vill 2. sæti
SVEINN Halldórsson gefur kost á sér í 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í SV-kjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar.Sveinn er húsasmíðameistari að mennt. Hann er formaður Framsóknarfélags Hafnarfjarðar og hefur tekið mikinn þátt í málefnavinnu flokksins, m.a. í tengslum við nýliðið flokksþing.
Hann telur að með stefnu Framsóknarflokksins sé hægt að tryggja siðbót í íslensku samfélagi.
Ingunn sækist eftir 4.-5. sæti fyrir VG
INGUNN Snædal gefur kost á sér í 4.-5. sæti í forvali Vinstri grænna í NA-kjördæmi sem fram fer 28. febrúar næstkomandi.Ingunn er grunnskólakennari að mennt og er nú komin vel á veg með meistaranám í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands. Hún hefur reynslu af ýmsum störfum, m.a. sveitastörfum, fiskvinnslu og þýðingum. Einnig hefur hún sinnt ýmsum þjónustu- og umönnunarstörfum.