ÞEGAR þetta er skrifað hinn 12. febrúar er Þorgerður Katrín að deila við Steingrím J. um hvort arðsemi álvera sé lítil eða mikil. Í gær var hins vegar mest tekist á um hvalveiðar eða ekki hvalveiðar.

ÞEGAR þetta er skrifað hinn 12. febrúar er Þorgerður Katrín að deila við Steingrím J. um hvort arðsemi álvera sé lítil eða mikil. Í gær var hins vegar mest tekist á um hvalveiðar eða ekki hvalveiðar. Daginn á undan var helsta áhyggjuefni þingmanna meint einelti í garð Davíðs Oddssonar. Hvað skyldi morgundagurinn bera í skauti sér? Blaðrið í forsetanum kannski? Ég get varla verið sá eini sem fyllist skelfingu við að horfa á forgangsröðun þingmannanna okkar. Talið er að skuldir heimilanna í landinu nemi 2.000 milljörðum. Skuldir fyrirtækjanna kunna að vera 8.000 milljarðar. Sveitarfélögin eru skuldsett upp fyrir haus og ríkissjóður kann að skulda allt að 2.000 milljarða.

Efnahagsmálum þjóðarinnar er nú stjórnað af sænskum sérfræðingi annars vegar og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hins vegar. Meirihluti fyrirtækja í landinu er í raun gjaldþrota og heimilin eru skammt undan. Atvinnuleysi nálgast tveggja stafa tölu. Það gilda neyðarlög á Íslandi. En hvað hvílir þyngst á þingmönnum okkar? Jú eins og venjulega er það Davíð Oddsson, hvalveiðar og álver. Þetta er ekki boðlegt þjóðinni. Veit einhver um þjóð sem vill kaupa nokkur þúsund tonn af hvalkjöti? Veit einhver um álfyrirtæki sem er að fara að reisa álver á Íslandi? Er ekki búið að rífast nóg um Davíð Oddsson?

Það er til svokölluð Pareto-regla en hún hljóðar svona: Um 80% afleiðinganna má rekja til 20% orsakanna. Með því að einbeita kröftum okkar að því fáa sem veldur hinu mikla náum við hámarksárangri í störfum okkar. Þingmenn allra flokka – hættið kjaftæðinu! Það er kominn tími til að þið forgangsraðið verkefnum ykkar á þann hátt að þjóðin hafi sem mest gagn af störfum ykkar á erfiðum tímum. Snúið ykkur öll að stóru málunum sem varða heimilin og fyrirtækin í landinu. Það er skylda ykkar við þjóðina.

Þórður Víkingur Friðgeirsson, verkfræðingur og lektor við tækni- og verkfræðideild HR.