Rasmus Hansen , danski knattspyrnumaðurinn sem lék með Val síðasta sumar, er orðinn samherji Sigmundar Kristjánssonar , fráfarandi fyrirliða Þróttar, í dönsku 2. deildinni.
Rasmus Hansen , danski knattspyrnumaðurinn sem lék með Val síðasta sumar, er orðinn samherji Sigmundar Kristjánssonar , fráfarandi fyrirliða Þróttar, í dönsku 2. deildinni. Hansen fór frá Val til Fiji-eyja í Kyrrahafi í haust og lék þar um skeið en er nú kominn til Brabrand frá Árósum , sem er í þriðja sæti vesturriðils 2. deildar og er í harðri baráttu um að komast í 1. deildina.

Þá er danski framherjinn Dennis Bo Mortensen , sem hefur verið í röðum Vals undanfarin tvö ár, kominn í 1. deildina í Danmörku . Mortensen, sem sleit krossband í maí á síðasta ári og missti alveg af sumrinu með Hlíðarendaliðinu, er genginn til liðs við Lyngby sem er í fjórða sæti 1. deildar.

Forráðamenn norska úrvalsdeildarliðsins Lyn í knattspyrnu eru ekki sáttir við reksturinn. Tap félagsins á sl. rekstrarári var gríðarlegt en með liðinu leika þrír íslenskir leikmenn, Indriði Sigurðsson , Theódór Elmar Bjarnason og markvörðurinn Arnar Darri Pétursson . Heildarvelta Lyn var 1,7 milljarðar ísl. kr. en tapið var 660 milljónir kr. Rekstur norskra knattspyrnuliða í efstu deild var ekki með besta móti á sl. rekstrarári. Samkvæmt frétt Aftenposten í gær var samanlagður rekstrarhalli 14 liða í efstu deild nálægt 3,3 milljörðum kr.

Reynir Ragnarsson sem verið hefur formaður ÍþróttabandalagsReykjavíkur sl. fjórtán ár hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs á ársþingi ÍBR sem hefst í dag og lýkur á laugardag. Einn frambjóðandi hefur tilkynnt um framboð til formanns en það er Ingvar Sverrisson . Þá verður einnig nokkur breyting á stjórn ÍBR þar sem tveir aðrir stjórnarmenn hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs.

Peter Shilton fyrrum landsliðsmarkvörður Englendinga í knattspyrnu reiknar ekki með að David Beckham takist að slá landsleikjamet en það er í eigu Shiltons. Beckham jafnaði á dögunum met Bobby Moore sem leikjahæsti útispilarinn þegar hann lék sinn 108. landsleik en Shilton lék á sínum tíma 125 leiki með enska landsliðinu. ,,Ég held að honum takist ekki að slá met mitt. Nú ef hann nær því verð ég fyrstur til að óska honum til hamingju,“ sagði Shilton við BBC-útvarpið í gær.