Í LEIÐARA Morgunblaðsins föstudaginn 13. febrúar sl. er fjallað um þær tillögur nefndar ríkisstjórnarinnar, sem Mats Josefsson veitir forstöðu, að styrkja þurfi eigendahlutverk ríkisins gagnvart nýjum ríkisbönkum og taka með skipulegri hætti á erfiðum skuldamálum en hingað til. Í leiðaranum kemur fram sú leiða vanahugsun að sterkt eigendahlutverk af hálfu hins opinbera hljóti einnig að fela í sér aukin afskipti pólitískra fulltrúa af viðskiptalegum ákvörðunum bankanna. Framkvæmdastjóri SA virtist á föstudag einnig höggva í sama knérunn. Fátt er hins vegar fjær sanni.
Í því efnahagshruni sem varð í kjölfar bankahrunsins er fyrirsjáanlegt að margir, ef ekki flestir, stærstu skuldunauta bankanna muni lenda í rekstrar- og eða fjárhagsörðugleikum. Óhætt er að segja að vandinn sem við stöndum frammi fyrir er því með því versta sem sést hefur í heiminum. Því er mikilvægt að læra af reynslu þeirra sem best þekkja til og best gekk að vinna sig úr áþekkum erfiðleikum. Þar eru Svíar og Finnar í sérflokki.
Það verður ekki umflúið að ríkið komi að ákvörðunum um meðferð skulda fyrirtækja. Þannig þarf að taka grundvallarákvarðanir, t.d. um hvort leita skuli sem hraðastrar fullnustu skulda eða hvort hagsmunum sé betur komið með einhvers konar þátttöku í fjárhagslegri endurskipulagningu. Spurningin er einungis hver sinni þessu verkefni fyrir hönd ríkisins og hvort tekið sé með sambærilegum hætti á sambærilegum málum í öllum bönkunum.
Það er óráð að leggja þessi mál í hendur hvers banka um sig. Margir stærstu lántakendurnir hafa vaxið bönkunum yfir höfuð. Þá eru margir stærstu lántakendanna með lán í fleiri en einum bankanna og í mörgum tilvikum í þeim öllum. Að síðustu er rétt að minna á að enn er mikil óvissa um hversu hratt og vel okkur tekst að greiða úr skuldamálum fyrirtækja. Ef nýju bankarnir halda áfram lánum með verulegri tapsáhættu í bókum sínum bjóðum við þeirri hættu heim að þeir verði veikari fyrir áföllum en ella þyrfti að vera og fái seinna en ella lánafyrirgreiðslu á erlendum mörkuðum.
Nýju bönkunum er ætlað að stefna fram á veginn og einbeita kröftum sínum að þjónustu við heimili og atvinnulíf. Uppsöfnuð þekking hjá bönkunum er góðærisþekking þar sem lítið var fengist við flókna endurskipulagningu atvinnurekstrar í kröggum. Sú lausn sem Josefsson-nefndin leggur til er byggð á bestu reynslu frá öðrum þjóðum sem gengið hafa í gegnum bankakreppur. Aðferðin felst í að sett er á fót eitt miðlægt eignasýslufyrirtæki sem takist á við stærstu og flóknustu lánamál og skuldbreytingar.
Verkefnið er viðkvæmt og því mikilvægt að skapa því traustan ramma þar sem unnið er eftir skýrum reglum. Tilgangurinn er ekki sá að koma upp nýjum ríkisfyrirtækjum heldur að tryggja að einn aðili sinni úrvinnslu stærstu og flóknustu skuldamála bankanna þar sem hægt sé að koma við endurfjármögnum og endurskipulagningu í rekstri þar sem slíkt er skynsamlegt út frá viðskiptalegum eða þjóðhagslegum forsendum. Í mörgum tilvikum kallar slíkt á tímabundið inngrip í eignarhald enda ljóst að fjármagn frá ríkinu verði til að koma til að forða tjóni. Slíkt eru hinar viðurkenndu aðferðir til að verja hagsmuni þeirra sem koma að fjárhagslegri endurskipulagningu illa staddra fyrirtækja og vandséð að aðrar leiðir séu færar á tímum þar sem flestar hefðbundnar uppsprettur fjármagns hafa þornað upp.
Í leiðaranum er því haldið fram að áherslur Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra til varnar almannahagsmunum í þessu máli séu skref í þá átt að færa bankana nær stjórnmálunum. Þessi staðhæfing byggist alfarið á þeim misskilningi að miðstýrt eignaumsýslufyrirtæki greiði fyrir pólitískum afskiptum. Fyrir því eru engin rök. Spyrja má á móti hvort þrjú pólitískt skipuð bankaráð sem taki ákvarðanir án almennra leikreglna séu betri varðmenn gegn pólitískum afskiptum en eitt eignaumsýslufyrirtæki sem tryggi jafnræði í meðferð sambærilegra mála og hámarki þau verðmæti sem verið er að verja? Ætlunin er að eignaumsýslufyrirtækið starfi á grundvelli almennra leikreglna og sú staðreynd mun auðvelda að halda viðskiptamálefnum í hæfilegri fjarlægð frá pólitískri hagsmunagæslu. Einfalt er í uppbyggingu fyrirtækisins að tryggja fagmennsku og fjarlægð frá hinu pólitíska valdi, en jafnframt að fullt gagnsæi sé í ákvörðunum fyrirtækisins.
Enginn vill afturhvarf til pólitískrar íhlutunar í viðskiptaákvarðanir banka. En almenningur á rétt á að tekið sé á sambærilegum málum með sambærilegum aðferðum og að tryggt sé að hagsmunir ríkisins séu varðir með almennum leikreglum, frekar en að tilviljun ráði ákvörðunum og þær séu allar vafðar í þoku ógagnsæis og efasemda vegna flókinna vináttu- og eignatengsla. Eitt er ljóst: Ríkisafskiptaleysi af fjármálamarkaði og stefnuleysi hins opinbera í uppbyggingu fjármálamarkaða hefur kallað hrikalegt hrun yfir íslenskt samfélag. Það er tímabært að við tileinkum okkur virk, fagleg og gagnsæ ríkisafskipti af þeirri gerð sem reynst hafa nágrannalöndum okkar afar vel.
Höfundur er alþingismaður.