Kristján Marteinsson píanó, Pétur Sigurðsson bassa og Magnús Trygvason Elíassen trommur. Fimmtudagskvöldið 29.1.2009/diskurinn K-tríó tekinn upp í okt. 2008.

Á JAZZHÁTÍÐ Reykjavíkur í fyrra lék K-tríóið og hljóðritaði Ríkisútvarpið tónleikana. Hvorugt heyrði ég þá, en er tríóið vann Norrænu ungliðadjasskeppnina í Kaupmannahöfn var ég sannfærður um að eitthvað væri í þá félaga spunnið því síðustu tíu árin hafa engir aukvisar unnið þessa keppni og kannski ekki að undra að við kæmumst ekki fyrr á blað í keppni við milljónaþjóðirnar. Það kann að vera satt að lítt sé að marka keppni í listum, en ég upplifði það, er þessi keppni fór fram hérlendis 2006, að ekki hafði finnska hljómsveitin leikið marga takta þegar ljóst var að hún bæri sigur úr býtum.

K-tríóið er fullburða tríó og tónleikar þess í FÍH voru flottir. Kristján Marteinsson, píanisti, samdi flest lögin er það spilaði og má finna þau á nýja diskinum „K-tríó“. Leikur tríósins var þó enn afslappaðri en á diskinum og mátti greinilega heyra hversu samband þeirra er náið; hversu vel þeir hlusta hver á annan og leika sem einn maður eða eins og Mads Vinding orðaði það: „Sex hendur, þrjú hjörtu, ein sál.“ Það hefur verið einkenni allra bestu píanótríóa djassins frá því Bill Evans leiddi sampilið og impressjónismann til hásætis sem mótvægi við hið klassíska djasspíanótríó, sem var á expressjónískari nótum og náði fullkomnun í leik Oscar Peterson tríósins.

Lög Kristjáns bera margvíslegt svipmót; sænskt minni skýtur upp kollinum í „Gamalt“, barnagæla í „Kátt í höllinni“, Blúnót sándið í „Á grúfu“ og frjálslegur módernismi í „Prog“. Í „Heima“ er impressjónisminn tær eins og í lagi Péturs Sigurðssonar „No Opposite“. Þeir þremenningar eru allir skrifaðir fyrir blúsuðum „Perranum“ og einnig nýjum seiðandi rýþmískum ópus „Daruva“, sem leikinn var á tónleikunum, en er ekki að finna á disknum.

Sitthvað í leik tríósins má rekja til áhrifamesta píanótríós veraldar, tríós Keith Jarretts, og ýmissa lærsveina hans s.s. Brad Mehldaus. Í harðsoðinni dýnamíkinni má heyra áhrif frá Esbjørn Svensson eða jafnvel The Bad Plus. Kristján er harðhentur píanisti og Magnús bombarderar trommurnar oft í anda Han Benninks; Pétur nokkuð þungur bassaleikari en samt ljóðrænn.

Ég hef heyrt þessa stráka leika með ýmsum, en aldrei líkt því eins vel og þetta kvöld eða á þessum diski. Í fyrra kom út diskur með tríói Ómars Guðjónssonar sem mér fannst marka viss tímamót í íslenskum djassi – það sama má segja um disk K-tríósins. Vonandi bera þeir félagar gæfu til að leika sem lengst saman. Það væri íslensku djasslífi styrkur.

Vernharður Linnet