LIVERPOOL gerði sér lítið fyrir og lagði nífalda Evrópumeistara Real Madrid, 1:0, í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar en liðin áttust við á Santiago Bernabeu-vellinum í Madríd í gær. Chelsea vann nauman sigur á Juventus og Bayern München minnti heldur betur á sig en Bæjarar unnu 5:0 útisigur á Sporting Lissabon.
Ísraelsmaðurinn Yossi Benayoun tryggði fimmföldum Evrópumeisturum Liverpool frækinn sigur í Madríd með skallamarki eftir aukaspyrnu Fabio Aurelio tíu mínútum fyrir leikslok. Liverpool lék allan tímann af mikilli skynsemi. Leikur liðsins var mjög agaður og það gaf fá færi á sér og möguleikar liðsins á að komast í átta liða úrslitin verða að teljast mjög góðir. Fernando Torres lék fyrsta klukkutímann fyrir Liverpool en fyrirliðinn Steven Gerrard lét sér nægja að spila fimm síðustu mínúturnar.
Mörk á útvelli gulls ígildi
,,Mörk á útivelli eru gulls ígildi í Evrópukeppninni og þessi úrslit þýða að Real Madrid verður að skora gegn okkur á Anfield. Við höfum gert vel í Evrópukeppninni með að því að vera vel skipulagðir og ég er á því að við séum með eitt best skipulagða liðið í keppninni. Þess vegna höfum við gert það gott í Evrópukeppninni undanfarin ár og gerðum í þessum leik,“ sagði Jamie Carragher, sem var fyrirliði Liverpool, í fjarveru Steven Gerrrads.,,Við vissum að þetta gæti orðið mjög erfiður leikur því það er mikið sjálfstraust í liði Real Madrid. Við þurfum því að leggja mikið á okkur og það gerðu mínir menn svo sannarlega. Okkur tókst að skora dýrmætt mark og það án þess að Torres og Gerrard væru til staðar,“ sagði Rafael Benítez, stjóri Liverpool.
Drogba hetja Chelsea
Didier Drogba var hetja Chelsea í leiknum gegn Juventus á Stamford Bridge en Fílabeinsstrendingurinn skoraði eina mark leiksins á 12. mínútu eftir sendingu frá Salomon Kalou. Juventus veitti Chelsea-mönnum harða keppni í leiknum og þurfti Petr Cech, markvörður Chelsea, að taka á honum stóra sínum nokkrum sinnum í leiknum. Minnstu munaði undir lokin að Pavel Nedved tækist að jafna en skot hans frá vítateigslínu smaug stöngina.
Áttum að skora fleiri mörk
,,Við náðum að skapa okkur nægilega mörg færi til að skora fleiri mörk en það var mjög mikilvægt að halda markinu,“ sagði Frank Lampard, miðjumaðurinn sterki í liði Chelsea við Sky Sports eftir leikinn.,,Juventus er virkilega gott lið og við þurfum svo sannarlega að hafa fyrir sigrinum. Við byrjuðum mjög vel en á kafla vorum við með lið okkar of aftarlega á vellinum,“ sagði Lampard.
,,Auðvitað hefði verið betra að skora á útivelli en engu að síður gekk leikskipulag okkar upp. Ég var ánægður með leik liðsins en ég hefði þó kosið að skora mark og spila þá ekki eins vel og við gerðum,“ sagði Claudio Ranieri, þjálfari Juventus og fyrrum stjóri Chelsea.
Bæjarar komnir áfram
Bayern München getur farið að spá í væntanlega mótherja í átta liða úrslitunum en eftir ótrúlegan 5:0 útisigur á Sporting Lissabon eru Bæjarar komnir áfram. Franck Ribery og Luca Toni gerðu tvö mörk hvor fyrir Bayern og Miroslav Klose eitt.,,Það var fyndið að horfa á leikinn eftir að annað markið leit dagsins ljós. Það var frábært að sjá hversu vel mínir menn stigu upp eftir tapið á móti Köln um síðustu helgi. Leikurinn þróaðist á þann veg að við fundum svæði til að sækja hratt á þá og það gekk flest upp hjá okkur,“ sagði Jürgen Klinsmann, þjálfari Bayern München.
gummih@mbl.is
Í hnotskurn
» Albert Riera spænski vængmaðurinn í liði Liverpool fékk að líta gula spjaldið gegn Real Madrid í gær sem þýðir að hann verður í leikbanni þegar liðin mætast á Anfield hinn 10. mars.» Bayern Müncen setti met í Meistaradeildinni en 14. leikinn í röð náði liðið að skora á útivelli.