[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Bjarna Ólafsson bjarni@mbl.is MJÖG misvísandi yfirlýsingar og upplýsingar hafa verið gefnar um skuldastöðu ríkisins undanfarna mánuði.

Eftir Bjarna Ólafsson

bjarni@mbl.is

MJÖG misvísandi yfirlýsingar og upplýsingar hafa verið gefnar um skuldastöðu ríkisins undanfarna mánuði. Fer það allt eftir því hvaða forsendur viðkomandi gefa sér hver skuldastaðan er og greinir aðila helst á um hvað mikið fæst fyrir eignir gömlu bankanna og hverjar heimtur verða á veðlánum til innlendra fjármálastofnana.

Skuldir ríkissjóðs voru ríflega 660 milljarðar króna í lok síðasta árs, en nákvæm tala liggur ekki fyrir enn. Var þetta aukning um tæpa 350 milljarða frá því í árslok 2007. Þá er gert ráð fyrir því að halli á rekstri ríkissjóðs á þessu ári verði um 150 milljarðar króna.

Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu stendur til að nýta 100 milljarða króna af innistæðu ríkissjóðs í Seðlabankanum til að mæta hallanum, en það sem upp á vantar verður að brúa með lántöku.

Veðlánatap

Rétt er að á móti áðurnefndri 660 milljarða króna skuldatölu koma eignir, sem eru eilítið lægri. Til eigna teljast m.a. inneignir ríkissjóðs á viðskiptareikningum og handbært fé, en einnig lánveitingar til annarra aðila. Ómögulegt er að vita eins og sakir standa hve mikið fæst greitt af þeim lánum. Við eignirnar bætist svo bókfært virði fyrirtækja í eigu ríkisins upp á 195 milljarða króna. Hins vegar skiptir sú tala minna máli, þegar reynt er að slá á skuldabyrði ríkisins, nema til standi að selja einhver þessara fyrirtækja.

Eftir hrun bankanna voru kröfur Seðlabankans á innlend fjármálafyrirtæki framseldar til ríkisins. Nafnverð krafnanna var um 345 milljarðar króna og þar af munu 300 milljarðar hafa verið á þrotabú gömlu bankanna og verður að telja stærstan hluta þessara krafna tapaðan. Ríkið keypti þessar kröfur af Seðlabankanum með skuldabréfi upp á 270 milljarða króna og verður tap vegna þeirra skráð 220 milljarðar í ríkisreikningi. Þýðir það að gert er ráð fyrir því að um 50 milljarðar fáist upp í kröfurnar.

Athyglisvert er að í spá sinni gerir Tryggvi Þór Herbertsson, hagfræðingur og fyrrverandi efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar, ráð fyrir því að 135 milljarðar fáist upp í þessar kröfur og er hann því töluvert bjartsýnni en fjármálaráðuneytið. Sama er að segja um tap vegna verðbréfalána, en þar gerir fjármálaráðuneytið ráð fyrir því að fjárhæðin öll, 35 milljarðar, sé töpuð, en Tryggvi gerir ráð fyrir því að 7% hennar verði endurheimt.

Stóra spurningin snýr, eins og margoft hefur komið fram, að því hve stór hluti endurgreiðslu innistæðna í Icesave-reikningum Landsbankans og Edge-reikningum Kaupþings lendir á íslenska ríkinu. Hefur ríkið fengið um 6-700 milljarða króna lán frá erlendum ríkjum til að standa skil á þessum greiðslum (eftir því við hvaða gengi er miðað), en á móti kemur sala eigna viðkomandi banka erlendis.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Í raun verður það ekki komið á hreint fyrr en eftir nokkur ár hve mikið fæst fyrir eignir bankanna. Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir því að eignasalan nemi 75% af ábyrgðunum, en Tryggvi telur hana munu nema um 60%. Samkvæmt því munu á bilinu 150-300 milljarðar króna lenda á ríkissjóði vegna reikninganna.

Hvað varðar lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og vinaþjóðum Íslendinga, einnig að fjárhæð um 6-700 milljarðar króna, þá mun sú fjárhæð ekki lenda á íslenskum skattborgurum nema þetta fé verði notað að einhverju ráði. Fénu er ætlað að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans, en svo getur farið að bankinn verði að nýta féð til að styðja við gengi krónunnar. Lánið verður þó að greiða til baka, hvort sem féð verður notað eða ekki.

Ef tekin eru saman gjöld, sem örugglega falla á ríkissjóð á þessu ári, þ.e. fjárlagahallinn og tap vegna veð- og verðbréfalána, aukast skuldir ríkisins um ríflega 400 milljarða króna á þessu ári. Er þá ekki tekið tillit til þess hve háa fjárhæð ríkið mun þurfa að greiða vegna erlendra innistæðureikninga bankanna eða hugsanlegrar notkunar á fé Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Fara skuldir ríkisins þá í tæpa 1.100 milljarða króna. Í spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er gert ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs verði greiddar niður smám saman, en ljóst má vera að langt er þangað til skuldir ríkissjóðs verða aftur svipaðar og þær voru fyrir bankahrunið.

Endurfjármögnun bankanna

Í ÖLLUM opinberum áætlunum er gert ráð fyrir því að endurfjármögnun viðskiptabankanna, þ.e. nýju bankanna sem stofnaðir voru eftir hrun þeirra gömlu, muni kosta um 385 milljarða króna. Reyndar hafa komið fram athugasemdir við þessa tölu og vilja sumir meina að raunveruleg endurfjármögnunarþörf bankanna sé meiri en sem þessu nemur.

Burtséð frá þeim athugasemdum er rétt að staldra örstutt við þessa endurfjármögnun og athuga hvað ríkið fær í raun í staðinn. Í útreikningum sínum færir Tryggvi Þór Herbertsson 385 milljarða króna eign á móti fjárframlagi ríkisins og vissulega má færa fyrir því gild rök. Ríkið eignast hlutafé í nýju bönkunum við fjárframlagið og er rétt að færa það eignamegin í efnahagsreikning.

Verðmat eigin fjár

Hins vegar verður að athuga verðlagningu á eigin fé fjármálastofnana sem standa höllum fæti, en sú skilgreining á óneitanlega við um íslensku bankana. Fjármálasérfræðingar, sem Morgunblaðið hefur rætt við, segja eigið fé slíkra stofnana verðlagt á bilinu 0,4-0,6. Þetta þýðir að fyrir hverja krónu hlutafjár séu fjárfestar tilbúnir að greiða hálfa krónu. Miðað við þetta má verðleggja 385 milljarða króna hlutafjáreign ríkisins á 154-231 milljarð króna, en ekki 385 milljarða, eins og Tryggvi gerir.