Þriðji áratugurinn „Góðærið er alveg að springa út, allar persónurnar eru mjög siðlausar, athyglissjúkar og gráðugar, og kreppan bíður rétt við hornið,“ segir Tómas Oddur Eiríksson, formaður Verðanda, um Chicago.
Þriðji áratugurinn „Góðærið er alveg að springa út, allar persónurnar eru mjög siðlausar, athyglissjúkar og gráðugar, og kreppan bíður rétt við hornið,“ segir Tómas Oddur Eiríksson, formaður Verðanda, um Chicago.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ingveldi Geirsdóttur ingveldur@mbl.is VERÐANDI, leikfélag Fjölbrautaskólans í Garðabæ, frumsýnir í dag revíuleikritið Chicago í sal skólans. „Verkið gerist á góðæristímum þriðja áratugarins í Bandaríkjunum.

Eftir Ingveldi Geirsdóttur

ingveldur@mbl.is

VERÐANDI, leikfélag Fjölbrautaskólans í Garðabæ, frumsýnir í dag revíuleikritið Chicago í sal skólans.

„Verkið gerist á góðæristímum þriðja áratugarins í Bandaríkjunum. Góðærið er alveg að springa út, allar persónurnar eru mjög siðlausar, athyglissjúkar og gráðugar, og kreppan bíður rétt við hornið,“ segir Tómas Oddur Eiríksson, formaður Verðanda, og bætir við að verkið hafi óneitanlega skírskotun til Íslands í dag á tímum kreppu og samfélagslegrar endurskoðunar.

Söngleikurinn segir frá Roxy Hart, ungri mey sem þráir ekkert meira en að verða kabarettstjarna en gengur lítið að láta draum sinn rætast þar til hún kemst í kast við lögin eftir að hafa myrt viðhaldið sitt. Í steininum kynnist hún fyrirmynd sinni, Velmu Kelly kabarettsöngkonu. Meðan á réttarhöldunum stendur leikur Billy Flynn, lögmaður Roxy, sér að réttarkerfinu og notfærir sér fjölmiðlana til þess að markaðssetja Roxy sem saklausa unga stúlku og fá þannig sem mestan pening út úr henni og að sjálfsögðu auglýsa sjálfan sig svolítið í leiðinni.

Tómas fer með eitt aðalhlutverkið, lögfræðinginn Billy Flynn sem Richard Gere lék í samnefndri kvikmynd sem var valin besta myndin á Óskarsverðlaununum árið 2003.

„Verkið er byggt á þýðingu Gísla Rúnars Jónssonar sem hann gerði fyrir Borgarleikhúsið á sínum tíma. En við völdum að hafa kvikmyndina sem fyrirmynd,“ segir Tómas.

Mikill listaskóli

Leiklistarhefðin í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ er mjög sterk að sögn Tómasar og koma yfir hundrað nemendur að uppsetningunni á Chicago . „Vinnan við verkið fer öll fram utan skóla og fá þeir nemendur sem taka þátt þrjár einingar fyrir þátttökuna.

FG er mikill listaskóli, með öfluga myndlistar- og textílbraut og virkt leikfélag sem verður sterkara með hverju árinu. Þetta er áttunda uppfærsla skólans í röð. Við erum búin að setja upp Hárið , Rocky Horror , Litlu hryllingsbúðina , Sister Act , Öskubusku , Moulin Rouge , en sú uppfærsla var keypt af Loftkastalanum til áframhaldandi sýningar, og í fyrra settum við upp Birdcage ,“ segir Tómas. Þau höfðu fyrst hugsað sér að að vinna spunaleikrit þetta árið en ákváðu að stórsýning eins og Chicago væri eitthvað sem þau vildu frekar ráðast í. Leikstjóri verksins er Bjarni Sæbjörnsson, danshöfundur er Lovísa Ósk Gunnarsdóttir og um tónlistarstjórn sér Hallur Ingólfsson.

Frumsýning á Chicago verður í hádeginu í dag í Urðarbrunni, hátíðarsal FG. Næstu sýningar verða svo 4. og 5. mars. Sýningum lýkur 22. mars.