Grétar H. Óskarsson
Grétar H. Óskarsson
Eftir Grétar H. Óskarsson: "Kjörnir forystumenn Sjálfstæðisflokksins síðustu fjölmörg ár: Þér hafið brugðist vonum vorum."

STEFNA Sjálfstæðisflokksins hefur alltaf verið skýr, en hin síðari ár hafa misvitrir leiðtogar okkar rústað fylgi flokksins stórlega og brugðist í að framfylgja þeim stefnumiðum sem hann hefur alla tíð staðið fyrir. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, orðar þetta nokkuð skýrt: „Það er hins vegar ljóst að vinnubrögðin og aðferðafræði síðustu ára við að útfæra stefnuna var röng. Okkur bar af leið. Það er því frekar þannig að við höfum brugðist hugmyndafræðinni! – Það má segja að við höfum sofnað á verðinum og ræktuðum ekki þau grunngildi sem við ætluðum okkur að byggja á. Við fjarlægðumst grunninn okkar og gleymdum okkur í látunum.“

Eins og málin koma mér fyrir sjónir þá eru helstu ávirðingar forystumanna Sjálfstæðisflokksins þessar: Algert siðleysi, jafnvel glæpsamlegt atferli, að lýsa yfir stuðningi Íslands við innrás í Írak að þingi og þjóð forspurðum.

Algert siðleysi að gefa fáum útvöldum útgerðarmönnum auðlindir þjóðarinnar í sjónum og auk þess mannréttindabrot samkvæmt úrskurði Mannréttindadómstólsins. Algert siðleysi og atlaga að fjárhagslegu sjálfstæði landsins að nota stöðu seðlabankastjóra til þess að umbuna uppgjafa stjórnmála-mönnum, í stað þess að velja hæfasta umsækjandann hverju sinni eftir skýrum reglum um þekkingu, menntun og færni.

Algert siðleysi að skipa ráðherra út frá pólitískum sjónarmiðum en ekki með tilliti til hæfni og kunnáttu á þeim sérsviðum sem þeir bera ábyrgð á. Nýlegt dæmi er dýralæknir í stöðu fjármálaráðherra.

Algert siðleysi var að skipa son forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins í dómaraembætti þótt hann væri alls ekki sá hæfasti eða sá sem sérstaklega tilskipuð valnefnd mælti með.

Algert siðleysi að taka við 30 milljóna króna styrk af FL Group og Landsbankanum á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn hafði staðið fyrir lögum um hámarksframlög til stjórnmálaflokka og þau höfðu þá þegar verið samþykkt á Alþingi.

Siðlaus metnaðargirni, fáviska og mikill fjáraustur við að reyna að komast í Öryggisráð SÞ.

Einkavæðing bankanna var með endemum og algert klúður og leiddi að lokum til hruns þeirra allra á kostnað þjóðarinnar. Ráðaleysi, ákvarðanafælni, andvaraleysi, getuleysi og skortur á manndómi til þess að takast á við vandamálin þegar bankarnir hrundu.

Kjörnir forystumenn Sjálfstæðisflokksins síðustu fjölmörg ár: Þér hafið brugðist vonum vorum.

Höfundur er verkfræðingur og hefur verið flokksbundinn í Sjálfstæðisflokknum í hálfa öld.