[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sjóvá seldi íslensk hlutabréf og hóf að fjárfesta í fasteignum um víða veröld. Nokkur óvissa er um þróunarverkefni en leigueignir eru í góðri útleigu.

Eftir Helga Vífil Júlíusson

helgivifill@mbl.is

TRYGGINGAFÉLAGIÐ Sjóvá fjárfesti í fasteignaverkefnum í níu löndum en seldi alfarið í Bretlandi og er nú með verkefni í átta löndum. Um 60% fjárfestinganna, sé litið til eiginfjárframlags, eru í þróunarverkefnum en 40% í fasteignum til útleigu, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Sjóvá og fjárfestingastarfsemi þess verður skipt í tvö félög í eigu skilanefndar Glitnis. Sjóvá var áður í eigu Milestone.

Fjölmiðlar sögðu frá því í liðinni viku að Sjóvá hefði dregið sig úr fasteignaverkefni í Macau með tapi. Heimildir herma að tapið, eiginfjárframlagið mínus það fé sem fékkst við sölu, nemi 1,5 milljörðum króna, sem er fyrsta tapið sem fasteignasafn Sjóvár innleysir. Yrðu ýmis önnur verkefni seld í dag er fyrirséð að innleysa tap, en unnið er að því halda eignunum áfram.

Vandræði í Bandaríkjunum

Vandræði eru með verkefni í Milwaukee í Bandaríkjunum, líkt og fram hefur komið í fjölmiðlum. Óskað hefur verið eftir gjaldþrotaskiptum á félaginu þar, og er Sjóvá að reyna að tryggja sér óskorað vald yfir því, en fjárfestar eru reiðubúnir að leggja verkefninu fjármuni, samkvæmt heimildum. Fari Sjóvá frá verkefninu núna innleysist tap.

Stundum gengur vel

Unnið hefur verið að því að losa um eigið fé úr verkefnunum og fara fjármunirnir til eigenda. Ekki hefur alltaf verið jafn sársaukafullt að endurheimta fé og í Macau: 1,7 milljóna punda hagnaður myndaðist þegar selt var í Bretlandi síðastliðið haust, til viðbótar tókst að endurheimta þrjár milljónir punda í Bretlandi sem telst 45% hagnaður. Auk þess var lóð seld í Tyrklandi með 40% hagnaði í dollurum talið, herma heimildir.

Alþjóðleg fasteignaverkefni Sjóvár voru 13 þegar best lét, en eru nú tíu. Að því sögðu hefur eitt verkefni til viðbótar verið selt að hluta; lóð var seld í Tyrklandi en tvær eru óseldar. Af tíu verkefnum eru sjö þróunarverkefni, sem flest hafa verið lögð í salt í ljósi markaðsaðstæðna, en um þessar mundir er erfitt að selja fasteignir. Þrjú þróunarverkefni voru skuldlaus en skuldsetning hinna fjögurra þróunarverkefnanna var allt að 50%.

Í fullri leigu

Leigufasteignir Sjóvár eru í Belgíu, Frakklandi og Þýskalandi, og útleiguhlutfallið er 97-100% , samkvæmt heimildum. Leigutakar eru m.a. belgíska ríkið, þýskir bankar og fjöldi verslana í verslunarmiðstöð í París.

Hefðbundinn rekstur íslensku tryggingafélaganna hefur ekki skilað hagnaði síðustu ár. Þau hafa hinsvegar úr töluverðum fjárhæðum að spila í sjóðum og hafa fjárfest í annarri starfsemi til þess að vera arðbær.

Nýir vindar 2006

Fjárfestingastefna Sjóvár breyttist þegar Milestone, fjárfestingafélag sem Karl Wernersson leiddi, yfirtók tryggingafélagið 2006. Íslensk hlutabréf voru seld og hafist var handa við að fjárfesta í fasteignum um víða veröld. Verkefnin voru fundin m.a. með aðstoð fjárfestingabankans Bear Sterns, JP Morgan og Askar Capital, sem var einnig í eigu Milestone.

Skuldir lendi á öðrum

Sjóvá lagði upp fasteignakapalinn þannig að ef verkefni færi á versta veg myndi einungis eiginfjárframlagið tapast. Skuldir myndu ekki flytjast á móðurfélag Sjóvár, því það var kirfilega varið með fjölda eignarhaldsfélaga. Yfirleitt var tekið lán til þess að fjármagna verkefnin.