Ómar Stefánsson
Ómar Stefánsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Halldór Armand Ásgeirsson haa@mbl.

Eftir Halldór Armand Ásgeirsson

haa@mbl.is

HVORKI Flosi Eiríksson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi og stjórnarmaður í LSK, né Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Kópavogi og jafnframt stjórnarmaður í Lífeyrissjóði Kópavogs, LSK, vildu í gær tjá sig um tölvupóstsamskipti milli stjórnarmanna LSK sem Morgunblaðið fjallaði um á laugardag.

Í frétt Morgunblaðsins á laugardag kom fram að tölvupóstur sem Sigrún Bragadóttir, framkvæmdastjóri LSK, sendi Sigrúnu Guðmundsdóttur, stjórnarmanni í LSK, hefði verið sendur öllum stjórnarmönnum. Í honum stóð: „Ég hitti Hjalta endurskoðanda hér niðri áðan og sagði honum frá þessu. Hann er hræddur um að þeir birtist og heimti að skoða bókhaldið á þessu ári og þá erum við í vanda.“ Pósturinn var eingöngu sendur til Sigrúnar Guðmundsdóttur en ekki til annarra stjórnarmanna og biðst Morgunblaðið velvirðingar á þessum mistökum.

Á hinn bóginn sendi Sigrún framkvæmdastjóri annan tölvupóst, þennan sama dag, til allra stjórnarmanna LSK með drögum að greinargerð til FME um hvort fjárfestingar sjóðsins samræmdust lögum.

Í póstinn skráði framkvæmdastjórinn jafnframt „vangaveltur“ í fjórum liðum og fjórði töluliðurinn var svohljóðandi: „Ég er pínulítið hrædd um að þeir birtist óvænt og heimti að skoða bókhaldið. Það er allt rétt sem kemur fram í bréfinu nema að þann 6. janúar síðastliðinn lánuðum við bænum aftur 330 milljónir. Heildarskuld bæjarins er því 580 milljónir.“

Flosi sagði í yfirlýsingu frá 21. júní að gögn hefðu verið „matreidd“ sérstaklega fyrir stjórn sjóðsins en aðrar upplýsingar síðan kynntar Fjármálaeftirlitinu. Ómar Stefánsson tók undir þá gagnrýni.

Úr pósti til stjórnar

„Vangaveltur:

1. Hvers vegna þessi skammi frestur?

2. Góður punktur hjá Ómari, af hverju er þetta svo óformlegt? Það koma alltaf svo formleg bréf frá þeim og tveir starfsmenn undirrita.

3. Eigum við Gunnar að fara aftur og hitta þá?

4. Ég pínulítið hrædd um að þeir birtist óvænt og heimti að skoða bókhaldið. Það er allt rétt sem kemur fram í bréfinu nema að þann 6. janúar 2009 lánuðum við bænum aftur 330 milljónir. Heildarskuld bæjarins er því 580 milljónir.“