Eftir Pétur Blöndal: "Konungsbók Arnaldar Indriðasonar er áminning um hvaða verðmæti eru Íslendingum dýrust – skrifuð þegar lífsgæðakapphlaupið stóð sem hæst. Lífið er lagt að veði fyrir nokkrar rifur úr Konungsbók; pappíra sem ekki missa verðgildi sitt á þúsund árum."

Konungsbók Arnaldar Indriðasonar er áminning um hvaða verðmæti eru Íslendingum dýrust – skrifuð þegar lífsgæðakapphlaupið stóð sem hæst. Lífið er lagt að veði fyrir nokkrar rifur úr Konungsbók; pappíra sem ekki missa verðgildi sitt á þúsund árum.

„Það er allt saman satt,“ segir langamma Stefanía Ósk Júlíusdóttir um Íslendingasögurnar. „Það þýddi ekkert fyrir kennarann að berja ofan í mig að þetta væri hugarburður gamalla munka í klaustrum. Ég sagðist trúa hverju einasta orði, las þær sem krakki – þetta voru mínir reyfarar.“

Orð hennar koma upp í hugann þegar rústir bæjarins á Stöng eru skoðaðar. Nú geyma veggirnir minningu Gauks Trandilssonar, ekki Þjórsdæla sem talið er að hafi verið til á bókfelli fram á 14. öld. Um miðja 19. öld sagðist Vígfús „víðförli“ reyndar hafa eignast skræðu af henni og týnt, en ekki lögðu allir trúnað á frásögn hans.

Í Njálssögu er Gaukur sagður sá sem „fræknastur maður hefur verið og best að sér görr“. Illa hafi orðið með þeim Ásgeiri Elliða Grímssyni fóstbróður hans, því Ásgrímur hafi orðið banamaður Gauks.

Af lýsingunni má ráða að litið hafi verið á Gauk sem hetju sambærilega við Gunnar á Hlíðarenda. Uppi eru sögusagnir um að Gaukur hafi verið drepinn við Gaukshöfða, en Brynjólfur frá Minna-Núpi hefur greint frá því að á öndverðri 19. öld hafi fundist þar bein og spjótsoddur. „Það er allt saman satt,“ segir langamma.

Fyrir neðan Stöng eru steinar í Rauðá svo stikla má yfir þegar lítið er í ánni. Er þaðan örstutt til Steinastaða, eins og vísan segir:

Önnur var þá öldin er Gaukur bjó í Stöng;

þá var ei til Steinastaða leiðin löng.

Vart leikur vafi á því að Gauki hafi orðið tíðförult til Steinastaða og gefið er í skyn í vísunni af hverju. Vigfús „víðförli“ sagðist hafa lesið í Þjórsdælu að Gaukur hefði fíflað Þuríði húsfreyju á Steinólfsstöðum og hún verið skyld Ásgeiri, „þar af óx óþokkinn milli þeirra er dró til þess að Ásgeir drap Gauk.“

Og Matthías Þórðarson dregur sömu ályktun: „En sennilegast er að töfrar Þuríðar á Steinólfsstöðum hafi ekki verið annars eða verra eðlis en nöfnu hennar á Fróðá og margra annarra kynsystra þeirra fyrr og síðar, andans atgjörvi, ástúðlegt viðmót og heillandi fegurð, hæfileikar, sem nutu sín því betur og höfðu því sterkari áhrif, því meiri maður og því betur „at sér görr“ sem sá var, sem reyndi.“

Annarri ástar- og harmsögu lauk með eiðrofum fóstbræðra. „Þeim var ég verst er ég unni mest,“ mælti Guðrún Ósvífursdóttur í Laxdælu. Stefanía langamma kom nýlega að leiði Guðrúnar, sem hefur verið gert upp norðan við gaflinn á kirkjunni að Helgafelli. Ef til vill býr þar svarið við spurningunni sem vaknar við ummæli hennar, því þessi tvö standast á, Guðrún og Kjartan, horfast í augu yfir fjöll og firnindi, annað fyrir norðan og hitt fyrir sunnan. Annars snúa ýtar austur og vestur.

Þannig togast á ástir og harmur í menningararfi þjóðarinnar. „Það er allt saman satt.“

Eftir Pétur Blöndal