Tvö mörk Sævar Þór Gíslason skoraði tvívegis í sigurleik Selfyssinga á móti Fjarðabyggð á laugardaginn og reynir hér að leika á Andra Þór Magnússon, varnarmann Austfjarðaliðsins.
Tvö mörk Sævar Þór Gíslason skoraði tvívegis í sigurleik Selfyssinga á móti Fjarðabyggð á laugardaginn og reynir hér að leika á Andra Þór Magnússon, varnarmann Austfjarðaliðsins. — Ljósmynd/Jóhanna SH
„ÞETTA var gríðarlega mikilvægur sigur hjá okkur og ég er ánægður með að við skyldum ná að sýna styrk eftir magalendingu í Breiðholtinu í síðustu umferð,“ sagði Gunnlaugur Jónsson, þjálfari Selfyssinga, eftir að lið hans hafði lagt...

„ÞETTA var gríðarlega mikilvægur sigur hjá okkur og ég er ánægður með að við skyldum ná að sýna styrk eftir magalendingu í Breiðholtinu í síðustu umferð,“ sagði Gunnlaugur Jónsson, þjálfari Selfyssinga, eftir að lið hans hafði lagt Fjarðabyggð 2:1 í 1. deild karla í knattspyrnu á laugardaginn.

Með sigrinum fóru Selfyssingar í efsta sætið og eru þremur stigum á undan Haukum, sem koma í öðru sæti. Selfoss byrjaði ekki vel á laugardaginn því miðvörðurinn Stefán Ragnar Guðlaugsson var rekinn af velli á 25. mínútu og Jóhann R. Benediktsson skoraði fyrir gestina að austan úr vítaspyrnu sem þeir fengu við það tækifæri. Tíu Selfyssingar knúðu samt fram sigur og Sævar Þór Gíslason skoraði bæði mörk þeirra.

„Þetta var dálítið dramatík því við lentum undir og misstum mann útaf eftir tæpan hálftíma. En strákarnir sýndu mikinn styrk að ná að sigra í leiknum og við áttum hættulegri færi ef eitthvað var til að skora meira. Eftir magalendingu í Breiðholtinu um daginn og upphafið á þessum leik þá sér maður að það er virkilegur vilji hjá þessum strákum að gera góða hluti,“ sagði Gunnlaugur.

Hann sagðist ágætlega ánægður með stöðu liðsins í deildinni enda í efsta sæti. „Það í sjálfu sér hlaut að koma að því að við myndum tapa enda held ég að ekkert lið fari í gegnum þessa deild án þess. Staðan hjá okkur núna er í rauninni framar okkar vonum. Tapið um daginn var ágætis áminning til okkar. Menn verða að mæta með fulla einbeitingu til leiks annars fá menn að kenna á því og við vorum minntir á það í Breiðholtinu,“ sagði Gunnlaugur.

Disztl skoraði tvívegis í Ólafsvík

KA heldur þriðja sætinu með 3:0 sigri á Víkingum í Ólafsvík. Norðanmenn eru með 14 stig líkt og HK, og eru KA-menn þeir einu sem ekki hafa tapað leik í deildinni til þessa og eru jafntefliskóngarnir fram til þessa með fimm jafntefli. Ungverjinn David Disztl skoraði fyrir KA strax á annarri mínútu í Ólafsvík og gaf þannig tóninn, en hann og landi hans Sandor Zoltán Forizs bættu við mörkum í seinni hálfleik. KA lagaði markatöluna hjá sér því liðið hafði aðeins gert fimm mörk í fyrstu sjö leikjum sínum, en hafa nú gert átta og leikur greinilega sterka vörn því mótherjarnir hafa aðeins skorað tvívegis hjá KA.

skuli@mbl.is