Víkverji er himinlifandi með þjónustuna sem hann fékk í reiðhjólaversluninni Markinu í Ármúla nýlega. Víkverji keypti sér forláta hjól þar fyrir rúmu ári og hefur fengið afbragðsþjónustu upp frá því.

Víkverji er himinlifandi með þjónustuna sem hann fékk í reiðhjólaversluninni Markinu í Ármúla nýlega. Víkverji keypti sér forláta hjól þar fyrir rúmu ári og hefur fengið afbragðsþjónustu upp frá því. Um daginn bilaði svo hnakkur á reiðhjóli sonarins og það vantaði lítið stykki til að kippa málinu í liðinn.

Einn daginn átti Víkverji svo leið um Skeifuna og brá sér inn á reiðhjólaverkstæði sem þar er að finna. Svörin sem fengust þar voru að slíkir varahlutir væru ekki seldir einir og sér og því þyrfti að kaupa alla stöngina sem gengur ofan í stellið á hjólinu.

Víkverji var ósáttur við þau svör og því leið og beið og stráksi gat ekki notað hjólið á meðan. En svo ákvað Víkverji að rölta inn í Markið og athuga hvort sömu svör fengjust þar. Nú er Víkverji ekki þekktur viðskiptavinur þar á bæ og starfsmenn vita því ekkert hvort regluleg viðskipti hafa átt sér stað eða ekki.

En viðmótið var frábært! Starfsmaðurinn vippaði sér á bakvið og kom ekki aftur fyrr en eftir nokkra stund. „Ég kippti þessu af gömlu hjóli hjá okkur og þú mátt bara eiga þetta,“ sagði hann svo við Víkverja og rétti honum stykkið mikilvæga endurgjaldslaust. Svona viðmót skiptir afskaplega miklu máli og Víkverja kemur ekki til hugar að leita til annarrar reiðhjólaverslunar með vandamál sín og viðskipti.

Víkverji staldraði við sjónvarpsstöðina ÍNN á laugardagskvöldið þar sem Icesave-samningarnir voru til umræðu. Hvað sem segja má um Ingva Hrafn og hans leið til að ræða málin þá vakti þátturinn upp spurningar um af hverju engir slíkir umræðuþættir eru á RÚV nú þegar framtíð íslensku þjóðarinnar hefur aldrei verið svartari.

Er ekki þörf á að ræða málin á almennilega og ofan í kjölinn í stað þess að taka Kastljós, eina umræðuvettvang sjónvarpsins, að stórum hluta undir léttmeti og dægurmálahjal?