Penn og Teller Skemmtilegir.
Penn og Teller Skemmtilegir.
Á Skjá einum eru menn ekki öfundsverðir af því að hafa þurft að fylla skarðið sem myndaðist þegar Jay Leno kvaddi. Skemmtilegir náungar eru nú komnir i stað Leno, Penn og Teller, sem koma víða við í umfjöllun sinni.

Á Skjá einum eru menn ekki öfundsverðir af því að hafa þurft að fylla skarðið sem myndaðist þegar Jay Leno kvaddi. Skemmtilegir náungar eru nú komnir i stað Leno, Penn og Teller, sem koma víða við í umfjöllun sinni. Þeir hafa sérlegan áhuga á að fletta ofan af loddurum sem hafa fé af trúgjörnu fólki sem kaupir þjónustu af þeim.

Þátturinn þar sem rætt var við fólk sem telur að geimverur hafi rænt sér var sérlega tíðindamikill. Meðal viðmælenda var kona sem hélt því fram að hún hefði gifst geimveru og eignast með henni börn. Það sem henni virtist þó minnisstæðast úr þessari reynslu var hversu ömurleg brúðkaupsferðin var. Og svo var líka kúnstugur þátturinn þar sem talað var við dýramiðil og fólkið sem borgar stórfé til að láta miðilinn segja sér hvað gæludýrin þess eru raunverulega að hugsa. Og þátturinn um baráttuna gegn erfðabreyttum matvælum var merkilegur.

Eftir að hafa horft á nokkra þætti með Penn og Teller – og þetta eru skemmtilegir þættir – þá er mjög farið að reyna á trú manns á mannkynið. En því glaðari er maður að mæta í vinnu daginn eftir og hitta þar fyrir tiltölulega heilbrigt og skynsamt fólk.

Kolbrún Bergþórsdóttir