Yfirvegaður Einar Haukur var pollrólegur á seinni hring og hélt sínum hlut.
Yfirvegaður Einar Haukur var pollrólegur á seinni hring og hélt sínum hlut. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞAÐ má með sanni segja að vallarstjórinn á Bakkakotsvelli hafi kunnað vel við sig á Urriðavelli um helgina.

ÞAÐ má með sanni segja að vallarstjórinn á Bakkakotsvelli hafi kunnað vel við sig á Urriðavelli um helgina. Einar Haukur Óskarsson gerði sér lítið fyrir og sigraði þar á þriðja mótinu á íslensku mótaröðinni, setti vallarmet fyrri daginn er hann lék á sex höggum undir pari og lauk leik á átta höggum undir pari, þremur höggum á undan Björgvini Sigurbergssyni úr Keili. Einar Haukur segist vera eins og ungu krakkarnir, hann sé á golfvellinum allan liðlangan daginn, fyrst að vinna og síðan að æfa. „Fyrst var það mamma sem vissi hvar maður var og nú er það konan,“ sagði sigurvegarinn.

Eftir Skúla Unnar Sveinsson

skuli@mbl.is

„Þetta var bara frábært og ég verð að segja að þetta er það besta sem ég hef gert, sérstaklega svona tvo hringi í röð,“ sagði sigurvegarinn kampakátur í samtali við Morgunblaðið eftir sigurinn.

Hann sagðist hafa verið nokkuð rólegur yfir þessu öllu saman, en hann hafði þriggja högga forystu á Björgvin Sigurbergsson úr Keili eftir fyrri hring og sá munur hélst til loka.

Var merkilega rólegur

Þar sem Einar Haukur hefur ekki verið daglegur gestur í toppbaráttunni í stærri mótum undanfarin ár þá hefði mátt búast við að hann yrði dálítið taugaveiklaður á síðari hringnum þar sem hann atti kappi við hinn margreynda Björgvin Sigurbergsson.

„Ég var merkilega rólegur og það kom mér sjálfum á óvart hvað ég var rólegur yfir þessu. Ég var reyndar að slá mjög vel og leið virkilega vel þegar ég stóð yfir boltanum þannig að það var engin ástæða til að stressa sig eitthvað,“ sagði Einar Haukur ánægður með hringina hjá sér, þótt hann segi að miðað við hvernig hann spilaði hefði hann getað skorað betur.

Maður getur gert betur

„Þetta var mjög fínt en maður getur alltaf bætt sig. Ég missti til dæmis fullt af púttum og var ekkert að koma mér allt of nálægt holu af stuttu færi. Ég missti einnig flatir klaufalega og missti til dæmis þrjú stutt pútt í röð í dag. Það má því alveg segja að ef allt saman smellur hjá manni einhvern tímann þá geti maður gert betur,“ sagði Einar Haukur, sem verður 27 ára í nóvember, en hefur keppt í golfi í nokkuð mörg ár eins og hann segir sjálfur.

„Ég er búinn að vera að í nokkuð mörg ár, en hef ekki verið svona ofarlega áður. Ég varð í sjöunda sæti í Leirunni í fyrra en annars var það þegar ég var unglingur sem ég varð í öðru sæti einu sinni á Íslandsmótinu.“

Af stað eftir bakmeiðsli

„Ég hef átt í bakmeiðslum síðustu ár og er að koma mér aftur af stað eftir það,“ segir Einar Haukur.

Hann er vallarstjóri í klúbbnum sínum, Bakkakoti í Mosfellsdal, og segir það ekki fara sérlega vel saman að vinna á vellinum og leika golf, en reyndar segja kylfingar oft í gamni að það sé erfitt að vinna mikið með golfinu, vinnan taki tíma frá íþróttinni.

„Það þarf oft aga til að koma sér aftur á völlinn eftir að hafa unnið þar allan daginn, en það hefur tekist ágætlega í sumar og Einar Lyng hefur kennt mér aðeins,“ segir vallarstjórinn.

Gott að æfa stutta spilið

Hann segir að Urriðavöllur hafi verið í fínu standi um helgina og það sama megi segja um völlinn hans. Oft er sagt að Bakkakotsvöllurinn sé stuttur og auðveldur fyrir bestu kylfingana. „Ég tel að maður hafi nú gott af því að æfa sig á 50-60 metra höggunum líka,“ segir hann og rifjar upp að stutta spilið vegi oft þungt í heildarskori kylfinga.

Um fyrri hringinn, þar sem hann setti vallarmet, segir hann: „Ég var oftast á braut og hitti fimmtán flatir á hringnum og ég nýtti mér þau tækifæri sem ég fékk. Eins og kylfingar vita þá er golf ekki flókin íþrótt!“ sagði Einar réttilega.

Hann sagðist að sjálfsögðu stefna ótrauður að því að halda áfram á sömu braut enda sé gaman að vera í toppbaráttunni.