Einbeitt Signý Arnórsdóttir úr Keili var mjög einbeitt á lokasprettinum. Hér horfir hún á eftir teighöggi sínu á 10. brautinni.
Einbeitt Signý Arnórsdóttir úr Keili var mjög einbeitt á lokasprettinum. Hér horfir hún á eftir teighöggi sínu á 10. brautinni. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SIGNÝ Arnórsdóttir, kylfingur úr Keili í Hafnarfirði, sigraði með eins höggs mun á þriðja mótinu á íslensku mótaröðinni í golfi sem fram fór á Urriðavelli um helgina. Signý lék holurnar 36 á einu höggi undir pari en Ragnhildur Sigurðardóttir úr GR lék á parinu, 142 höggum.

Eftir Skúla Unnar Sveinsson

skuli@mbl.is

Signý sigraði einnig á öðru stigamóti Golfsambandsins, sem haldið var fyrir tveimur vikum á Akranesi, þannig að hún er orðin vön þessu. „Já, það væri auðvitað bara frábært ef maður gæti gert þetta að einhverri venju að sigra á þessum mótum,“ sagði Signý mjög kát með árangurinn.

„Ég er auðvitað mjög ánægð með að hafa sigrað á tveimur mótum í röð og þetta gæti ekki verið betra. Ég byrjaði ekkert sérlega vel í dag, var einn yfir eftir níu holur og fékk síðan tvo „skítaskolla“ á tíundu og þrettándu,“ segir Signý.

Þegar þar var komið sögu hafði Ragnhildur, sem fékk fugl á tólftu og þrettándu, náð tveggja högga forystu á Signýju og aðeins fimm holur voru eftir.

„Þetta var ekki alveg nógu gott, ég vissi hvernig staðan var, en það þýddi ekkert að vera fúl yfir þessu. Ég kveikti aðeins á keppnisskapinu, breytti aðeins hugarfarinu og þá fóru púttin að detta. Ég hafði verið að gera óþarfa mistök og ákvað að hætta því og ég róaði mig aðeins niður og fór að spila af skynsemi og hugsa vel um hvað ég var að gera. Það varð til þess að ég fékk þrjá fugla á þeim fimm holum sem eftir voru,“ sagði Signý, sem verður nítján ára í byrjun september.

Signý sagði eftir sigurinn á Akranesi að völlurinn þar hentaði henni mjög vel. Urriðavöllur virðist henta henni ágætlega líka. „Ég held nú að hvaða völlur sem er henti mér núna því ég er að slá það vel. Annars var völlurinn í frábæru ástandi og góður í alla staði. Veðrið spillti heldur ekki fyrir enda held ég að ég hafi aldrei spilað í svona frábæru veðri á móti hér á landi, í það minnsta ekki tvo daga í röð. Þetta var alveg frábært,“ sagði Signý.

Það er ekki á hverjum degi sem kvennaflokkurinn vinnst með því að leikið sé undir pari vallar, en Signý gerði það, lék fyrri hringinn á laugardeginum á einu höggi undir pari og var síðan á parinu á síðari hringnum. „Ég er alveg sátt við að ljúka tveggja daga móti undir pari enda held ég að það sé dálítið síðan kvennaflokkurinn vannst með því að leikið væri undir pari,“ segir Signý.

Slóvenía næst á dagskrá

Hún sagðist hafa leikið átakalítið golf báða dagana, enda sést það á skorkortinu hennar að þar eru bara skollar, pör og fuglar. Næsta mót í mótaröðinni verður Íslandsmótið í höggleik á Grafarholtsvelli GR-inga og stefnir Signý að sjálfsögðu að því að vera í baráttu þeirra bestu þar.

„Ég fer með landsliðinu til Slóveníu eftir viku og svo kemur maður heim og þá verða um tvær vikur í Íslandsmótið. Vonandi heldur maður bara áfram á sigurbraut,“ sagði Signý.

Á fyrsta stigamótinu í Leirunni varð Signý í níunda sæti, enda var hún þá með splunkunýjar kylfur og var ekki alveg búin að finna sig með þær. „Við erum orðnir góðir vinir,“ segir hún hlæjandi.

GOLF Mótaröð GSÍ

Þriðja stigamótið á Urriðavatnsvelli:

KARLAR:

Einar H. Óskarss., GOB (65/69) 134 (-8)

Björgvin Sigurbergsson, GK (68/69) (-5)

Haraldur Franklín Magnús, GR (70/72) par

Andri Þór Björnsson, GR (69/73) par

Hjörtur Levi Péturss., GHR (73/70) +1

Alfreð Brynjar Kristinss., GKG (74/69) +1

Tryggvi Pétursson, GR (74/70) +2

Arnar Snær Hákonarson, GR (75/70) +2

Birgir Guðjónsson, GR (73/72) +3

Ólafur Hreinn Jóhannesson, GK (72/73) +3

Þórður Rafn Gissurarson, GR (70/75) +3

Björn Þór Hilmarsson, GR (72/74) +4

Starkaður Sigurðarson, GKG /75/72) +5

Tryggvi Traustason, GSE (74/73) +5

Guðjón H. Hilmarsson, GKG (71/76) +5

Árni Páll Hansson, GR (76/72) +6

Sturla Ómarsson, GR (75/73) +6

Helgi B. Þórisson, GSE (76/72) +6

Björgvin S. Kristjánsson, GKG (78/71) +7

Guðmundur Á. Kristjánss., GR (78/71) +7

Hafþór I. Valgeirsson, GA (74/75) +7

Nökkvi Gunnarsson, NK (75/74) +7

Sigurjón Arnarsson, GR (76/74) +8

Helgi Runólfsson, GK (76/74) +8

Kjartan Einarsson, GK (76/75) +9

KONUR:

Signý Arnórsdóttir, GK (70/71) 141 (-1)

Ragnhildur Sigurðard., GR (72/70) par

Eygló Myrra Óskarsd., GO (75/69) +2

Valdís Þóra Jónsdóttir, GL (76/70) +4

Áta Birna Magnúsd., GK (75/71) +4

Ragna B. Ólafsdóttir, GK (73/77) +8

Ingunn Gunnarsd., GKG (72/79) +9

Tinna Jóhannsdóttir, GK (79/73) +10

Heiða Guðnadóttir, GKj (76/77) +11

Nína Björk Geirsd., GKj (83/73) +14

Þórdís Geirsdóttir, GK (82/80) +20

Ásgerður Sverrisd., GR (78/84) +20

Helena Árnadóttir, GR (83/79) +20