SVEITARSTJÓRN Skeiða- og Gnúpverjahrepps telur ekki að fram hafi komið neinar upplýsingar á íbúafundi sem leiði til þess að taka þurfi upp ákvarðanir um breytingar á aðalskipulagi.
Skipulaginu var breytt til að koma fyrir virkjunum í Þjórsá. Umhverfisráðuneytið treysti sér ekki til að staðfesta breytinguna þar sem láðst hefði að kynna málið á íbúafundi. Á fundinum sem boðað var til fyrr í mánuðinum og í kjölfar hans komu fram nokkrar athugasemdir. Meirihluti sveitarstjórnar taldi ekki ástæðu til að taka málið upp en samþykkti að óska eftir staðfestingu ráðuneytisins á skipulaginu. Tveir fulltrúar vildu fresta afgreiðslu. „Við teljum okkur hafa gert það sem ráðuneytið fór fram á og málið sé nú í höndum stjórnvalda,“ segir Gunnar Örn Marteinsson oddviti.
helgi@mbl.is