Björn Þór Hilmarsson, kylfingur úr GR , byrjaði mjög vel á Urriðavelli í gær því hann gerði sér lítið fyrir og fékk örn á fyrstu holuna, sem er par fjórir.
Björn Þór Hilmarsson, kylfingur úr GR , byrjaði mjög vel á Urriðavelli í gær því hann gerði sér lítið fyrir og fékk örn á fyrstu holuna, sem er par fjórir. Karl faðir hans, Hilmar Björnsson , fyrrverandi landsliðsþjálfari í handknattleik, var kylfusveinn fyrir son sinn í gær og hefur örugglega verið stoltur af honum á fyrstu flöt.

Tveir kylfingar fengu örn á fimmtu braut og það er í rauninni mun eðlilegra en að fá örn á fyrstu brautinni. Það voru þeir Auðunn Einarsson úr Keili og Hrafn Guðlaugsson úr Golfklúbbi Fljótsdalshéraðs, sem fóru þessa par fimm braut á þremur höggum líkt og Starkaður Sigurðarson úr GKG gerði á fyrri hringnum á laugardaginn.

Hulda Þorsteinsdóttir stangastökkvari úr ÍR tryggði sér um helgina þátttökurétt á EM 19 ára og yngri sem fram fer í Serbíu eftir tæpan mánuð. Hulda vippaði sér yfir 3,80 metra á Gautaborgarleikunum í Svíþjóð um helgina en þeir fara fram á hinum þekkta Ullevi-leikvangi. Er þetta besti árangur Huldu í greininni.

Sandra Pétursdóttir einnig úr ÍR kastaði 52,46 metra á kastmóti í Bottnaryd í Svíþjóð í gær og hafnaði í 6. sæti. Var þetta hennar næstlengsta kast á þessu ári.

Nick Dougherty lék lokahringinn á BMW International- golfmótinu á 64 höggum í gær og dugði það honum til sigurs á mótinu. Hann lék hringina fjóra á 22 höggum undir pari en Rafa Echenque frá Argentínu varð höggi á eftir honum í öðru sæti. Hann fékk albatross á síðustu holunni er hann setti niður 300 metra högg, en það dugði ekki til þess að jafna við Dougherty.