Framkvæmdum við sambýli fatlaðra á Húsavík miðar vel Húsavík. Á FJÁRLÖGUM sl. árs veitti Alþingi fé til að koma á fót nýju sambýli á Húsavík með það í huga að íbúum á Sólborg á Akureyri sem rætur eiga í Þingeyjarsýslu væri gefinn kostur á að flytja til...

Framkvæmdum við sambýli fatlaðra á Húsavík miðar vel Húsavík.

Á FJÁRLÖGUM sl. árs veitti Alþingi fé til að koma á fót nýju sambýli á Húsavík með það í huga að íbúum á Sólborg á Akureyri sem rætur eiga í Þingeyjarsýslu væri gefinn kostur á að flytja til Húsavíkur.

Fyrst var leitað eftir kaupum á hentugu húsnæði sem til væri á staðnum en án árangurs. Var þá farið í það að byggja nýtt hús og verkið boðið út í september, sem ekki getur talist heppilegasti árstíminn til að hefja byggingarframkvæmdir á Norðurlandi. Húsinu var valinn staður við Pálsgarð sem er miðsvæðis í bænum og stutt í alla þjónustu.

Samið var við lægstbjóðanda í verkið sem voru "Sam-verktakar" á Húsavík og hófust framkvæmdir í nóvember og hefur þeim miðað vel áfram þrátt fyrir erfitt tíðarfar.

Húsið er einnar hæðar, 272 fermetrar að grunnfleti og er það hugsað fyrir fimm einstaklinga með sameiginlegu eldhúsi, borðstofu og stofu og aðstöðu fyrir starfsfólk. Húsið er hannað af Arkitekta- og verkfræðistofu Hauks hf. á Akureyri og eftir sömu teikningum eru í byggingu samskonar hús á Sauðárkróki og Blönduósi. Áætlað er að húsið fullbúið og allt frágengið kosti um 25 millj. króna og á byggingaframkvæmdum að vera lokið í næstkomandi ágústmánuði.

Undir sömu stjórn

Á Húsavík er fyrir annað sambýli fyrir fatlaða í Sólbrekku 28, fyrsta sambýlið hér, og má segja að þar hafi farið fram brautryðjendastarf undir stjórn Lilju Sæmundsdóttur, forstöðumanns. Hefur tekist einstaklega vel að búa þeim einsktaklingum sem þar búa gott heimili í fullri sátt við umhverfið og tengja það mannlífinu í bænum. Áformað er að hið nýja sambýli verði undir sömu stjórn og þannig að nýta þá reynslu samhliða hagsýni í rekstri.

Svæðisráð Norðurlands eystra sér um þessar framkvæmdir, en formaður þess er Egill Olgeirsson, Húsavík.

Því vil ég við bæta að það hefur undanfarin ár einkennt byggingaframkvæmdir hér á vegum hins opinbera að verkin eru boðin út síðari hluta sumars og framkvæmdir hafnar að hausti og útivinna að vetri en innivinnan að sumri. Með þessum hætti verða verkin dýrari og síst betur unnin, svo hér þarf að verða breyting á.

­ Fréttaritari.

Morgunblaðið/Silli

Framkvæmdir

Framkvæmdum miðar vel við sambýli fatlaðra á Húsavík.