Dýralæknar deila við yfirdýralæknisembætti um greiðslu ferðakostnaðar Héraðsdýralæknar mættu ekki á boðaðan fræðslufund HÉRAÐSDÝRALÆKNAR mættu ekki á fræðslufund sem yfirdýralæknir, Brynjólfur Sandholt, boðaði til í febrúar um heilbrigðismál í sláturhúsum...

Dýralæknar deila við yfirdýralæknisembætti um greiðslu ferðakostnaðar Héraðsdýralæknar mættu ekki á boðaðan fræðslufund

HÉRAÐSDÝRALÆKNAR mættu ekki á fræðslufund sem yfirdýralæknir, Brynjólfur Sandholt, boðaði til í febrúar um heilbrigðismál í sláturhúsum á Evrópsku efnahagssvæði og haldinn var í fyrradag, 18. mars. Héraðsdýralæknar fengu ekki greiddan ferðakostnað og dagpeninga sem þeir telja sig eiga rétt á skv. kjarasamningi. Í fundarboði yfirdýralæknis sagði að æskilegt væri að sem flestir dýralæknar sem starfa við kjötskoðun sæju sér fært að mæta á fundinn.

Kjaramálahópur héraðsdýralækna tók málið til umfjöllunar og fór fram á við stjórn Dýralæknafélags Íslands, með bréfi sem barst stjórninni 8. mars sl., að hún gerði fyrirspurn til yfirdýralæknis vegna fundarins hvort um fundarboð væri að ræða þar sem ætlast væri til að héraðsdýralæknar mættu.

Stjórnin sendi yfirdýralækni símbréf 10. mars og bað um svör við spurningum kjaramálaráðs og hvort embætti hans myndi greiða dagpeninga og kostnað vegna fundarins.

Í svari yfirdýralæknis, sem barst stjórn D.Í. 12. mars, segir að um almennan fræðslufund fyrir alla dýralækna landsins væri að ræða og þeir sem áhuga hefðu á efni hans væru velkomnir. Yfirdýralæknir myndi ekki greiða umræddan kostnað.

Í kjölfarið gerði kjaramálahópurinn stjórn D.Í. grein fyrir því með símbréfi 15. mars að héraðsdýralæknar teldu sér ekki fært að mæta á fundinn nema greiðsla fengist fyrir útlögðum kostnaði skv. kjarasamningi. Óskaði hópurinn jafnframt eftir því að stjórn D.Í. leitaði allra leiða til að leysa þann hnút sem málið væri komið í. Með bréfinu fylgdu nöfn 24 héraðsdýralækna en þeir eru 25 alls á landinu.

Rögnvaldur Ingólfsson formaður Dýralæknafélags Íslands sendi Brynjólfi símbréf og afrit af bréfi kjaramálahópsins og bað hann að endurskoða afstöðu sína varðandi greiðslu ferðakostnaðar og dagpeninga.

Svar Brynjólfs barst 16. mars og var það efnislega samhljóða fyrra bréfi hans.

Mjög brýnt að fá fræðslu

Fundurinn var haldinn í fyrradag að héraðsdýralæknunum 24 fjarstöddum. Rögnvaldur átti að flytja erindi á fundinum en að beiðni félaga sinna gerði hann það ekki. Hann mætti á fundarstað áður en fundurinn hófst og gerði grein fyrir afstöðu héraðsdýralækna í málinu.

Rögnvaldur segir að samkvæmt kjarasamningi beri ótvírætt að greiða kostnað og dagpeninga vegna fundarsóknar ef ætlast sé til að mætt sé. Hann sagði um mjög mikilvægt mál að ræða, m.a. vegna þess að nú væru auknar líkur á því að útflutningur á íslenskum landbúnaðarvörum væri að færast í betra horf og að betra verð fengist en áður.

Eiga ekki allir heimangengt

Rögnvaldur er ósáttur við fundartímann vegna þess að í fyrradag var slátrað í 5 sláturhúsum á landinu en fundurinn var einkum ætlaður kjötskoðunarlæknum. Þeir læknar sem starfa í þessum húsum áttu því ekki heimangengt. Hann segir að ekki sé hægt að ná til allra héraðsdýralækna nema halda tvo fundi og hann sagðist treysta því að boðað yrði til annarra funda þar sem tryggt væri að allir héraðsdýralæknar gætu mætt og að farið yrði eftir ákvæðum kjarasamnings um greiðslu ferðakostnaðar og dagpeninga. Hann sagði að héraðsdýralæknar væru starfsmenn ráðuneytisins og þegar teknar væru upp nýjar verklagsreglur yrðu þeir að fá fræðslu um þær.

Ekki boðað til annars fundar

Halldór Blöndal landbúnaðarráðherra segir varla brot á kjarasamningum að bjóða upp á fund til kynningar á EES-reglum, með því væri þvert á móti verið að koma til móts við dýralækna. "En ef þeir telja sig ekki hafa þörf á því að mæta þá hljóta þeir að meta það þannig að þeir þekki þessi mál," sagði Halldór.

Hann sagði að engin kvöð hefði verið á héraðsdýralæknum að mæta á fundinn og sagðist ekki gera ráð fyrir því að boðað yrði til annars fundar.