Lítið þorna krókódílatárin Ásmundi U. Guðmundssyni: Ekki hafði ég hugsað mér að blanda mér í umræðuna um Ríkisútvarp/sjónvarp sem af og til hafa verið í umfjöllun fjölmiðla nú um skeið og allt á einn veg.

Lítið þorna krókódílatárin Ásmundi U. Guðmundssyni: Ekki hafði ég hugsað mér að blanda mér í umræðuna um Ríkisútvarp/sjónvarp sem af og til hafa verið í umfjöllun fjölmiðla nú um skeið og allt á einn veg. Eftir lestur á klausu frá Samtökunum "Frjálst val", sem birtist þann 17. feb. sl., fannst mér tímabært að pára nokkrar línur, ef vera mætti til varnar ríkisfjölmiðlunum.

Það er mikill munur á afnotagjöldum RÚV fyrir 3 rásir annarsvegar og rásum Íslenska útvarpsfélagsins hinsvegar, kr. 2.000 til handa RÚV á mánuði eru smáir á móti gjaldtöku hinna á mánuði. Fyrir utan það, að efni RÚV hefur verið menningarfyllra í alla staði á móti því æsingarefni sem flutt er á öðrum stöðvum.

Það hefur hingað til verið stór varasamt að stara í blindri trú á óheft frjálsræði, eins og æði margir gera í dag. Eftir að landið var svo gott sem gefið EES tapaði stór hópur landsmanna glórunni, og það svo rækilega, að Ingjaldsundrið í Gísla sögu Súrssonar er stórgáfað í öllum sínum ömurleik, á móti þeim ósköpum sem geysast nú um stræti staflaust.

Það er tiltölulega einfalt að losa þessar óánægðu sálir, sem umræddan fund sóttu, plús þá sem undirrituðu áskorunarlistana, um að rugla ríkisfjölmiðilinn sem í gangi var síðastliðið haust, við afnotagjald RÚV. Til þess þarf ríkisvaldið að sýna rögg og festu og framkvæma aðgerð, sem miðar að því að loka ríkisrásunum 3, jafnvel að taka þær úr hjá þessu fólki sem óánægt er með afnotagjaldið. Nöfnin eru á undirskriftarblöðunum og vitað er hverjir sóttu fundinn 27. feb. sl.

Ef þeim óánægðu finnst að sér vegið, geta þeir sjálfum sér um kennt. Þeir vilja og ætla sér að meðtaka efni sem flutt er á ríkisrásunum, án þess að greiða fyrir það til RÚV.

Eftirleikurinn ætti að vera auðveldur, er kemur að viðtækjaverslunum. Þær afhenda engin viðtæki fyrr en búið er að loka ríkisrásunum, er andstæðingar RÚV eiga í hlut.

Það er staðreynd að gamla gufan hefur staðið sig með ágætum í tímans rás við að fræða og miðla menningarefni til landsmanna bæði til sjós og lands frá upphafi útvarpsútsendinga fyrir röskri hálfri öld gagnstætt glaumorðafroðu þeirra sem sjá einkavæðingarfrjálshyggjustjörnur í hverju horni.

Með fyrirfram þökk fyrir birtinguna.

ÁSMUNDUR U.

GUÐMUNDSSON,

Suðurgötu 124,

Akranesi.