Ljón norðursins sýnir myndir og ljóð í Kaffi-Krús á Selfossi Selfossi. LJÓN norðursins, Leó Árnason frá Víkum, opnar sýningu á vatnslitamyndum og pastelmyndum í Kaffi-Krús á Selfossi á morgun, sunnudaginn 20. mars.

Ljón norðursins sýnir myndir og ljóð í Kaffi-Krús á Selfossi Selfossi.

LJÓN norðursins, Leó Árnason frá Víkum, opnar sýningu á vatnslitamyndum og pastelmyndum í Kaffi-Krús á Selfossi á morgun, sunnudaginn 20. mars. Á sýningunni verða einnig kynnt ljóð eftir Leó sem verður 82ja ára í júní á þessu ári.

Þetta leggst vel í mig og ég tel mig fyrst núna vera að vinna það sem er eftirtektarvert bæði hvað aldur og þroska snertir," sagði Leó. Hann dvelur nú um stundir á Sjúkrahúsi Suðurlands þar sem hann jafnar sig eftir áfall sem hann varð fyrir. Hann málar myndir af kappi og með frísklegum huga og skarpri hugsun fer hann með ljóð og minningar frá fyrri tíma. Ég man alla mína ævi frá því ég var eins og hálfs árs og lék mér í básnum hjá henni Huppu gömlu. Ég hef átt góð samskipti við alla á minni lífsins göngu," sagði Leó og kvaðst hlakka til sýningarinnar í Kaffi-Krús en hún verður uppi um óákveðinn tíma og skipt um myndir með jöfnu millibili.

Myndefni sitt sækir Leó í hugarheim sinn um framtíðina og lífsgátuna. Knörr sannleikans, lífsins tré, bústaður næsta lífs og lífselfan eru áberandi í nýjustu myndum hans. Fyrsta ljóðið í ljóðaheftinu sem verður á sýningunni er ljóðið Dropinn undir mynd af Auga alheimsins. Það hljóðar svo:

Dropinn

Hver dagur af öðrum fæðir dag.

Hver dregg er drukkin í botn.

Og hver dropi sem missist

af bikars barmi er bolti í hans

skapandi höfn.

Sig. Jóns.

Morgunblaðið/Sigurður Jónsson

Ljón norðursins ásamt tengdadóttur sinni, Halldóru Gunnarsdóttur, sem undirbúið hefur sýninguna ásamt honum.