Sigurþór Ísleiksson - æviágrip Sigurþór Ísleiksson var fæddur í Reykjavík 31. mars 1927. Hann lést á hjúkrunarheimili aldraðra í Víðinesi 12. júní sl. Foreldrar hans voru Ísleikur Þorsteinsson, fæddur 18. júní 1878, dáinn 28. nóvember 1967 og Fanný Þórarinsdóttir, fædd 7. maí 1891, dáin 23. ágúst 1973. Hálfsystkini Sigurþórs voru: Torfhildur Hólm Þorsteinsdóttir, fædd 3. júní 1911, dáin 14. september 1917, Berghildur Hólm Þorsteinsdóttir, fædd 24. maí 1912, dáin 8. febrúar 1981, Gunnhildur Þorsteinsdóttir, fædd 11. júlí 1913, dáin 11. febrúar 1974, Aðalsteinn Hólm Þorsteinsson, fæddur 22. ágúst 1914, dáinn 6. maí 1961, Matthildur Þorsteinsdóttir, fædd 5. október 1915, dáin í desember 1935, Þorleifur Þorsteinsson, fæddur 6. september 1917, dáinn 1919, Ásthildur Þorsteinsdóttir, fædd 26. október 1918, Haukur Þorsteinsson, fæddur 10. desember 1921, dáinn 29. janúar 2002. Sigurþór átti tvær alsystur, þær eru Sesselja Júlíana, fædd 13. október 1928 og Ólöf, fædd 2. júlí 1931. Sigurþór kvæntist Ólafíu Kristínu Sigurðardóttur 26. desember 1954. Hún er fædd 27. október 1935. Þau slitu samvistum. Börn þeirra eru 1) Ásdís, fædd 23. febrúar 1954. Maki hennar var Flóki Kristinsson, þau slitu samvistum. Börn þeirra eru Birta, fædd 29. febrúar 1976, og Hekla fædd 8. apríl 1988. 2) Svanfríður, fædd 5. desember 1955. Barn hennar er Jónas Örn Jónasson, fæddur 13. apríl 1972. Maki Svanfríðar er Grétar Indriðason og börn þeirra eru Huginn Þór, fæddur 13. desember 1978, Kristín Ólöf, fædd 25. mars 1983, og Birkir, fæddur 22. júní 1994. 3) Þóra, fædd 7. ágúst 1958. Maki hennar er Bjarki Bjarnason og börn þeirra eru eru Bjarni, fæddur 3. júní 1982, Vilborg, fædd 21. mars 1984 og Guðmundur, fæddur 18. júní 1989. Sambýliskona Sigurþórs var Ólína Kristín Guðjónsdóttir, fædd 29. október 1934, dáin 23. febrúar 2009. Þau slitu samvistum. Dóttir þeirra er Fanný, fædd 7. júlí 1975. Barn hennar er Harpa Hrund Harðardóttir, fædd 16. apríl 1996. Maki Fannýjar er Ívar Bergmundsson, sonur þeirra er Bergþór, fæddur 17. júlí 2008. Sigurþór lauk námi í húsgagnasmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík og varð síðar húsgagnasmíðameistari. Hann starfaði alla ævi við húsgagna- og húsasmíði hjá ýmsum fyrirtækjum. Útför Sigurþórs fer fram í dag frá kirkju Óháða safnaðarins og hefst athöfnin kl. 15.

Nú er síðasti móðurbróðir minn, Sigurþór Ísleiksson, gengin á vit forfeðra sinna. Þó að dauðinn sé jafn sjálfsagður og fæðingin, þá valda lok lífsins þeim sem eftir eru sökknuð og eftirsjá. Það minnir á að lífsklukka okkar allra tifar. Við kveðjum, við heilsum og að endingu erum við kvödd.

Doddi, eins og hann var kallaður, er í mínum huga fallegur frændi, partur af æsku minni. Hann er samofin minningum frá Lokastígnum  þar sem hann bjó í húsi móður sinnar, ömmu minnar. Við höfum hist af og til í gegnum árin, alltaf var jafn gaman að spjalla við hann og stutt í fallega brosið hans. Ekki má ég láta undir höfðuð leggjast að minnast á höfðinglega fermingargjöf sem hann færði mér á sínum tíma, fallegt sófaborð úr tekki  sem hann smíðaði sjálfur enda húsgagnasmiður, það var ekki lítið að fá þessa gjöf árið 1960.

Glatt var á hjalla þegar frændi kom í heimsókn á æskuheimili mitt, hann gat gantast við systir sína, móður mína, mikið var hlegið og mikið fannst okkur krökkunum gaman. Hin seinni ár höfum við hist af og til í bænum, hann alltaf jafn herralegur og vildi bjóða frænku sinni á kaffihús. Miðbær Reykjavíkur var hans staður enda alinn upp þar. Ég hef saknað þess allra seinustu ár að sjá hann ekki þegar sól er í borg og allir að spóka sig úti. En heilsan var farin að bila enda maðurinn orðin roskinn og gekk ekki heill til skógar. Ég vil þakka fyrir þær samverustundir sem við höfum átt. Ég og fjölskylda mín vottum fjölskyldu hans okkar dýpstur samúð. Hvíl í friði frændi.

Fanný Bjarnadóttir