Garðar Pétur Ingjaldsson fæddist á Landspítalanum í Reykjavík 10. júní 1982. Hann lést í Reykjavík 23. júlí síðastliðinn. Foreldrar hans eru Inga María Hansen Ásgeirsdóttir frá Bolungarvík og Ingjaldur Kárasson frá Blönduósi. Systur Garðars sammæðra eru Guðbjörg Hansen, f. 1991, og Rósa María Hansen, f. 1994 og systkini samfeðra eru Anton, f. 1995 og Ásta Lilja, f. 2007. Dóttir Garðars og Sóleyjar Báru Bitoni er Sigurlaug Birna, f. 8. janúar 2003. Unnusta Garðars er Freyja Ösp Burknadóttir, dóttir þeirra er Birgitta Rut, f. 22. janúar 2009. Garðar bjó fyrstu 4 æviár sín á Blönduósi en þegar foreldrar hans slitu samvistum flutti hann vestur til Bolungarvíkur með móður sinni og bjó hann þar hjá móðurforeldrum til 9 ára aldurs er hann flutti til móður sinnar og fósturföður, Sigurðar Hansen, í Mosfellsbæinn. Að loknu námi í Varmárskóla í Mosfellsbæ lá leið hans til sjós sem varð síðan hann aðalatvinna til dauðadags. Útför Garðars Péturs fór fram frá Laugarneskirkju 5. ágúst.

Mig langar að minnast þín kæri frændi í fáeinum orðum. Það var sannarlega í takt við þennan dimma morgun, er rigningin féll til jarðar að fregna andlát þitt. Ég fann til í hjartanu af sorg og spyr af hverju? Þú þessi fallegi drengur horfinn á vit feðra þinna. Ég mun aldrei gleyma þínu fallega brosi né dillandi hlátrinum. Þú varst skemmtilega uppátækjasamur sem barn, þurftir að bæta og laga, aðeins að opna hlutina og kíkja inní þá. Eftir að ég fékk bílprófið voru ófáar ferðirnar farnar á Blönduós, með ömmu þinni og afa í heimsókn. Svo fluttuð þið mæðginin vestur til okkar, er leiðir foreldra þinna skildu. Það var sko oftar en ekki fjör á Hafnargötunni hjá afa og ömmu, líka er frændsystkinin komu í heimsókn og ýmislegt brallað. Svo eins og gefur að skilja er fólk fullorðnast, vill oft teygjast á samskiptum, fólk fer í ýmsar áttir. Þú undir þér held ég, langbest á sjónum af öllu því sem þú tókst þér fyrir hendur. Hafðir ofsalegan bílaáhuga og oftar en ekki keyptirðu þér einhvern bíl, sem í raun og veru var bara bíldrusla, en þú sást einhvern sjarma í þeim og löngunin til að gera þá betri var yfirsterkari. Þú varst mikill dýravinur og áttir ófáa hunda og ketti. Sama má segja um vinina sem hópuðust í kringum þig, þú varst tryggur vinur. En við rötum ekki öll þennan gullna meðalveg í lífinu, það sama á við um þig kæri frændi. Lífið hefur sko ekki verið þér dans á rósum, stöðugur mótbyr og barátta. Þú reyndir að berjast á móti og finna þinn innri styrk margoft en gafst upp að lokum. Þú þessi fallegi ungi maður sem áttir allt lífið framundan. En sem betur fer áttir þú þína góðu stundir líka og eignaðist tvær gullfallegar stelpur sem líkjast þér mikið. Þær eru núna ljósið í myrkrinu á þessum sorgartíma. Segir ekki máltækið, þeir deyja ungir sem guðirnir elska? Það fer svo ótalmargt í gegnum hugann er ég minnist þín. Við áttum oft sama tónlistarsmekkinn og er ég búin að vera með disk í fórum mínum, sem þú áttir er þú bjóst í Danmörku, með hinni sænsku Lisu Nilssen og var að hlusta á hann í bílnum á leiðinni suður til að kveðja þig. Elskulegi frændi minn, ég vil þakka þér fyrir samfylgdina á þinni lífsleið. Það er sárt að þurfa að kveðja, en að lokum alls hittumst við á ný. Nú ertu kominn í faðm ömmu þinnar og afa sem þú ólst upp hjá í æsku. Það snart mig innilega og finnst svo fallegt, að þú hafir verið búinn að tjá þig um hvar þú myndir vilja hvíla, er sá tími kæmi, við hliðina á ömmu og afa í Bolungarvík. Þá ósk færðu uppfyllta kæri frændi minn, þú kemur heim í Víkina fögru til ömmu og afa. Hvíl í friði og megi Guðs englar vera með þér. Aðstandendum votta ég mína dýpstu samúð.

Rósa Sigr. Ásgeirsdóttir móðursystir.

Elsku Garðar minn, ég man svo vel eftir þegar ég hitti þig fyrst, þú varst svo feiminn og mér fannst þú svo sætur.

Við vorum búin að þekkja hvort annað í viku og við vorum strax byrjuð saman. Við vorum búin að vera saman í mánuð og þá sagði ég þér frá því að ég væri ólétt. Ég man svo vel eftir svipnum á þér og hvað þú varðst ánægður, þér langaði svo í barn með mér. Enda eignuðumst við gullfallega og heilbrigða stelpu. Ég man alla meðgönguna hvað þú passaðir mig mikið, þú vildir ekki að neitt myndi koma fyrir mig og litla krílið. Þú straukst bumbunni á hverjum degi og talaðir við hana. Þig hlakkaði svo til, þú varst búinn að ákveða að þetta yrði algjör pabbastelpa. Þú ætlaðir alltaf að vera til staðar fyrir hana og gera allt fyrir hana. Þú varst svo góður. Það eru svo margar minningar sem ég á með þér og langar að láta flakka, ég bara veit ekki hvað ég á að segja.

Ég trúi ekki enn í dag að þú sért farinn frá okkur, það líður ekki einn dagur án þess að ég hugsi um þig, ég hugsa stöðugt um þig og sakna þín svo sárt.

Ég man eftir 17 ára afmælisdeginum mínum, þú vildir gera hann svo fullkominn, enda var hann það. Þetta var besti afmælisdagur sem ég get hugsað mér. Ég man t.d. líka eftir því að þú vildir alltaf vera að bjóða stelpunum í mat og þú gerðir það mjög oft, þú varst alltaf svo hræddur um að þeim fyndist þetta vont hjá þér, en það var bara alls ekki rétt, þú varst svo rosalega góður kokkur, stelpunum fannst þetta alltaf ljúffengt hjá þér.

Þegar við vorum að vinna á Fernandoz þá voru allir ánægðir með matinn sem þú eldaðir ofan í þau. Stundum var ég beðin að fara spes ferð upp í eldhús bara til þess að segja þér hvað þetta var frábært hjá þér eða biðja þig að koma niður.

Þú hafðir hæfileika sem þú vildir ekki viðurkenna. Þú vildir t.d. alltaf verða arkitekt en sagðist ekki geta það, þú hefðir víst getað það ástin mín. Þú varst alltaf að gera eitthvað nýtt heima hjá okkur. Enda fannst þér það líka gaman.

Ég man eftir þegar þú baðst mig að trúlofast þér, þú sagðist ekki geta lifað án mín og sagðist elska mig svo heitt. Ég man hvað þessir hringar skiptu þig miklu máli. Þú ætlaðir aldrei að taka hann af, ætlaðir aldrei að fara frá mér og Birgittu. Ég vildi að það hefði orðið þannig.

Það er samt svo margt sem þú hefur gefið mér sem þú vildir ekki trúa.

Þú gafst mér alvöru ást, umhyggju og hamingju.

Þú varst unnusti minn en þrátt fyrir það besti vinur minn, ég gat alltaf talað við þig. Enda þekkjum við hvort annað inn og út. Mér finnst allt rosalega tómlegt núna, hef engan að tala við. Það er allt svo breytt og allt svo skrýtið, allt hérna á heimilinu minnir mig á þig. Það er erfitt að vera hérna heima. Ilmvötnin þín eru inná baði eins og venjulega og alltaf fyrir svefn þá finn ég lyktina af uppáhaldslyktinni þinni, hún minnir mig svo á þig.

Þegar Birgitta Rut fæddist varst þú sá fyrsti til að halda á henni, ég sá hamingjuna í augunum á þér, þú varst svo stoltur af litla kraftaverkinu okkar, hún var svo falleg og heilbrigð. Þú vildir ekki sleppa henni. Þú hélst á henni við skírn og þér fannst það svo æðislegt.

Þú elskaðir okkur svo heitt, og vildir allt fyrir okkur gera.

Ég man fyrstu jólin okkar saman, þér leið svo vel og þú sagðir mér að þetta væru bestu jól sem þú hafðir upplifað.

Það er svo sárt að hugsa til þess að svona tímar komi ekki aftur.

Þú munt alltaf eiga stærsta staðinn í hjarta mér og minningarnar okkar saman lifa alltaf. Birgitta fær að vita hvað pabbi var góður.

Ég veit nú samt elskan mín að nú líður þér mikið betur, ég sé þig fyrir mér brosandi, þótt það sé sárt að hugsa til þess.

En ég veit að þú varst mjög veikur, og þú fékkst ekki þá hjálp sem þú þurftir hér, en nú færðu hana. Þú færð ást, umhyggju og hamingju.

Ég veit þér verður hjúkrað, þú ert orkulaus núna, en eftir einhvern tíma þá færðu heilmikinn kraft, og þegar sá kraftur kemur, þá veit ég að þú vakir yfir mér og dætrum þínum. Ég veit þú leiðir okkur í gegnum lífið.

Ég er samt ekki enn búin að ná því að þú sért farinn, mér finnst alltaf eins og þú sért bara að fara að hringja í mig eða fara að koma heim.

Elsku fallegi engillinn minn ég sakna þín svo sárt og vildi bara að þetta hefði verið vondur draumur sem ég væri að vakna af.

Ég mun alltaf elska þig og þú verður alltaf sá rétti.

Þín unnusta og barnsmóðir,

Freyja Ösp Burknadóttir.

Mig langar með örfáum orðum að kveðja son minn, Garðar Pétur, sem kvaddi þetta líf þann 23. júlí sl. Minningarnar eru margar og fjölbreyttar og þannig er líka sársaukinn þegar hann er farinn. Við vorum bestu vinir. Fyrst og síðast vorum við vinir allan tímann og ég þekkti lífið hans eins og það var. Garðar Pétur hafði fallega sál og var eins hrekklaus og nokkur maður getur verið. Ég man að þegar hann var lítill drengur gat hann oft verið smeykur við hluti, hann vogaði sér t.d. ekki að kveikja á rakettum og margt fleira í lífinu ögraði honum. Þess vegna bjó hann sér til skel og hleypti fáum að sér í raun. Það gerði hann bara til þess að lifa af. Í landi hafði hann bílana sína, og þeir urðu margir og flottir í gegnum tíðina. En best leið honum að vinna á sjó utan við allan skarkala. Ég man líka hve ástfanginn Garðar Pétur varð og hve einlæglega hann elskaði kærusturnar sínar. Þegar Gæi átti heimili þá lagði hann allt á sig til þess að hafa snyrtilegt og heimilislegt í kringum sig og sína. Var þá gaman að heimsækja hann, stoltan heimilisföður.

Það hryggir mig að yndislegu dæturnar hans tvær, Sigurlaug Birna sem nú er orðin sex ára og Birgitta Rut sem enn er bara nokkurra mánaða munu alast upp án þess að eiga pabba sinn. Ég bið engla himins að gæta þeirra og gefa þeim góða framtíð.

Fyrir hönd yngri barna minna, Antons Arnar og Ástu Lilju ásamt sambýliskonu minni, Elínu Berg Sigmarsdóttur, þakka ég liðinn tíma með Garðari Pétri. Minning hans mun alltaf lifa í hjörtum okkar.

Ingjaldur Kárason.