Hrafn Franklin Friðbjörnsson fæddist í Vestmannaeyjum 8. febrúar 1965. Hann lést á heimili sínu, Bylgjubyggð 61 í Ólafsfirði, 28. júní 2009. Foreldrar hans eru Kristín Ósk Óskarsdóttir, f. í Vestmannaeyjum 14. október 1940, og Friðbjörn Kristjánsson, f. í Reykjavík 27. september 1939. Hrafn var yngstur 4 systkina. Systkini hans eru: 1) Anna, f. 2. desember 1957, d. 12. maí 1990, dóttir hennar Anna Kristín Magnúsdóttir, f. 30. mars 1975, var Hrafni sem systir. 2) Kristjana, f. 20. ágúst 1959, gift Páli Garðari Andrésyni, f. 22. desember 1958, d. 9. mars 1997, og Óskar, f. 23 janúar 1962, kvæntur Sigurbáru Sigurðardóttir, f. 1. apríl 1963. Hrafn kvæntist 29. ágúst 1991 Ágústu Þóru Johnson, leiðir þeirra skildu 1999. Börn þeirra eru Anna Ýr Johnson, f. 19. október 1991, og Rafn Franklin Johnson, f. 17. september 1994. Hrafn Franklin gekk hefðbundna skólagöngu, barna-, gagnfræði- og framhaldskóla. Hann lauk stúdentsprófi við Menntaskólann í Kópavogi árið 1985. Eftir það átti hann eftir að bæta við sig meiri menntun, bæði hérlendis og erlendis. Þar ber helst að nefna meistaraprófsnám í sálfræði sem Hrafn lagði stund á við virtan háskóla í Fort Lauderdale í Flórída. Hrafn Franklin stundaði kennslu og skipulagningu líkamsræktar og síðar sálfræðistörf á Ólafsfirði að loknu námi. Útför Hrafns hefur farið fram.

Mig langar að minnast frænda míns, Hrafns Franklíns Friðbjörnssonar.

Þegar  ég fékk fréttir af andláti þínu, elsku Hrabbi minn, leituðu margar minningar í huga minn, minningar allt aftur til þess að ég hélt á þér undir skírn á fermingardaginn minn.  Margs er að minnast og munu þær góðu minningar geymast vel hjá mér elsku frændi.

Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir.)

Elsku Anna Ýr, Rafn, Lillagó, Bjössi og fjölskylda, megi Guð gefa ykkur styrk og vaka yfir ykkur.

Hrefna Óskarsdóttir og fjölskylda.

Drottinn minn faðir lífsins ljós
lát náð þína skína svo blíða.
Minn styrkur þú ert mín lífsins rós
tak burt minn myrka kvíða.
Þú vekur hann með sól að morgni.
Þú vekur hann með sól að morgni.

Faðir minn láttu lífsins sól
lýsa upp sorgmætt hjarta.
Hjá þér ég finn frið og skjól.
Láttu svo ljósið þitt bjarta
vekja hann með sól að morgni
vekja hann með sól að morgni.

Drottinn minn réttu sorgmæddri sál
svala líknarhönd
og slökk þú hjartans harmabál
slít sundur dauðans bönd.
Svo vaknar hann með sól að morgni.
Svo vaknar hann með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
svefnsins draumar koma fljót.
Svo vöknum við með sól að morgni
svo vöknum við með sól að morgni.
(Bubbi Morthens.)

Kær kveðja til þín elsku frændi.

Elsku Anna Ýr, Rafn,Lillagó, Bjössi og fjölskylda, Guð gefi ykkur styrk á þessum erfiðu tímum.

Kveðja

Eygló Svava.

Elsku besti vinur, það er ótrúlega sárt að sjá á eftir þér, kveðja þig, þú sem varst svo góður drengur, svo glæsilegur og barst af hvar sem þú komst. Allur sá tími sem við eyddum saman í dansinum. Æfingar langt fram á nætur og ýmislegt brallað. Þetta eru ógleymanlegir tímar sem ég mun ávallt varðveita.
Mér þótti svo vænt um öll bréfi sem þú varst svo duglegur að skrifa mér þau ár sem ég var erlendis. Eftir að ég kem heim vorum við eins og samlokur, alltaf saman, nánast uppá hvern dag. Nú svo ef við vorum of þreytt og nenntum ekki að rífa okkur úr sófanum þá gistum við bara hjá hvort öðru. Hver getur óskað sér betri vin? Það var alltaf jafn yndislegt að koma heim til foreldra þinna, og finna hvað ég var velkomin þangað.
Við áttum margt sameiginlegt, höfðum bæði misst ástvin allt of snemma og skildum hvort annað vel. Við gátum spjallað um allt milli himins og jarðar, ástir, sorgir eða bara eitthvað sem skipti ekki máli. Mér er minnisstætt allar kassetturnar sem þú tókst upp með fullt að Motown tónlist. Við hlustuðum endalaust á þær á rúntinum. Svo tókstu ástfóstri við eitt lagið og spilaðir það aftur og aftur og aftur. Þá var ekkert replay þurfti að spóla til baka og finna staðinn sem gat tekið tíma. Það góða við það var að þú hafðir góðan tólistarsmekk.
Þú kunnir svo sannarlega að segja brandara hlóst alltaf jafn mikið og manna mest, gast varla sagt þá fyrir hlátri. Mér fannst alltaf jafn gaman að heyra þig segja þá, jafnvel þá sömu aftur. Þú hafðir svo smitandi og skemmtilegan hlátur og gast alltaf fengið mig til að hlægja. Þú áttir marga kunningja, allir vildu vera vinir þínir en þú hleyptir ekki mörgum að þér. Þú varst mikil tilfinningarvera og varst sannarlega vinur vina þinna. Alveg sama hvað leið langt á milli þess að við hittumst, var það alltaf eins og það hafi verið í gær. Vorum einmitt nýbúin að mæla okkur mót og var orðin svo spennt að hitta þig. Við fórum ósjaldan á dansstaði bæjarins og skemmtum okkur alltaf konunglega. Man ég þegar sameiginleg vinkona okkar kom og kynnti mig fyrir manni sem var vinur hennar, þá mátti ég ekkert vera að því að tala við hann því ég var að fara að dansa við þig. Þessi maður varð seinna maðurinn minn og vissi hann alltaf frá upphafi hve mikils virði þú varst mér.
Mér er minnisstætt þegar við fórum eitt sinn til stjörnuspekings sem spáði fyrir okkur nánast því sama. Við hlógum mikið Þar sem mátti skiljast að við myndum eyða ævinni saman. Bæði áttum að fara að kynnast okkar mökum, myndum eignast fyrirtæki, fara í skóla og eignast börn, stelpu og strák. Svo kom á daginn að þetta rættist allt saman, þú í Reykjavík og ég í Keflavík. Við töluðum oft um börnin okkar þar sem við eignuðumst þau sömu ár. Skvísurnar okkar jafngamlar og litlu töffararnir jafngamlir. Þú varst svo stoltur af þeim og þótti svo óendanlega vænt um þau og talaðir líka alltaf svo fallega um fjölskyldu þína. Ég er þakklát fyrir okkar vinskap og bið algóðan guð að gefa fjölskyldu þinni styrk á þessum erfiðu tímum.
Þinn vinur

Emilía.

Elsku Hrabbi minn, tárin renna niður kinnarnar og minningar streyma í gegnum huga minn. Þú varst mér yndislegur bróðir, góður við mig, skemmtilegur og  góð fyrirmynd.

Þú varst alltaf svo góður að hjálpa öðrum, koma fólki til að hlæja  og líða vel.

Þú hefur alltaf passað upp á mig alla tíð og reyndist mér svo vel þegar mamma dó.  Ég vona að ég geti gert það sama fyrir Önnu Ýr og Rafni, englana þína.

Ég sakna þín rosalega mikið og trú ekki að ég fái ekki að setjast og tala við þig, faðma né kyssa þig einu sinni enn.

Litla systir þín

Anna Kristín.

Hrafn vinur minn er fallinn frá.

Það eru 13 ár síðan ég kynntist Hrafni og ég vissi strax að við yrðum vinir að eilífu. Ljúfari, heiðarlegri, hreinskilnari og yndislegri mann er varla hægt að þekkja. Þó að við hefðum ekki verið í miklu sambandi í gegnum árin, þá á einhvern óskiljanlegan hátt kom alltaf sá tími að við fengum fréttir af hvort öðru eða höfðum samband.  Við mynduðum sterkt vinasamband sem aldrei slitnaði. Síðustu samskipti okkar, 28. desember síðastliðinn eru mér minnisstæð. Hann minntist á að hann langaði að fara aftur út til Bandaríkjanna í meira nám en hafði líka á orði hvað honum líkaði vel í því starfi sem hann var í. Hann var jákvæður og mér fannst hann vera á góðum stað. Svo lukum við þessu samtali okkar á að við skyldum heyrast síðar og ræða betur málin og það skulum við gera einn góðan dag elsku vinur.

Ég er þakklát fyrir að hafa kynnst Hrafni. Hann hafði mikil áhrif á mitt líf þegar við kynntumst og ég mun aldrei gleyma honum.

Hvíldu í friði kæri vinur.

Greta Lind.

Mig langar að minnast í örfáum orð-
um vinar míns Hrafns. Eins og oft
hefur komið fyrir síðan ég fluttist er-
lendis þá vissi ég ekki um andlát
hans fyrr en ég fletti því upp á
mbl.is. Það hryggir mig ósegjanlega
að vita að þessi yndislegi maður er
farinn á vit feðra sinna. Allt of
snemma.
Hrafn var skemmtilegur og svo
fullur af lífi. Ég kynntist honum
fyrst þegar hann kenndi dóttur
minni jazzballett. Ef ég rakst á hann
á förnum vegi kom hann jafnvel
hlaupandi til mín til að segja mér
hversu vel henni gengi. Þar sem hún
átti við þroskaseinkun að stríða vissi
Hrafn að hvert skref sem hún steig í
átt að þroska var mér mikils virði.
Og þvílíkt hvað hann hvatti hana.
Seinna hitti ég Hrafn aftur þegar
hann rak aerobic stúdíó með þáver-
andi eiginkonu. Þar sem ég sjálf
kenndi aerobic á þessum tíma mætti
ég oft á námskeið sem haldin voru
þar og í tíma. Hrafn var alltaf hrókur
alls fagnaðar og ef hann kenndi ekki
þá tíma sem hann var skráður fyrir
þá voru það ávallt mikil vonbrigði hjá
þeim sem tímann sóttu. Hann var
mjög vinsæll kennari. Hrafn var op-
inn persónuleiki og það var gott að
kynnast honum. Hann var hreinn og
beinn í samskiptum sínum við fólk og
ekki var það alltaf svo að öllum lík-
aði.
Mér fannst það eiga vel við Hrafn
að læra sálfræði þar sem hann átti
mjög gott með að umgangast fólk og
tala við það. Ég bað hann um með-
mæli þegar ég fór í Háskólann og
það stóð ekki á honum að gefa þau.
Hrafn var oft mjög opinn um til-
finningar sínar. Hann minntist Önnu
systur sinnar mjög oft og var mjög
skilningsríkur og raungóður þegar
aðrir upplifðu ástvinamissi á einn
eða annan hátt. Hann hafði mikla
samúð með þeim sem hafði misst ein-
hvern sem þeim var næst.
Ég votta börnum hans, systkinum,
foreldrum og öðrum aðstandendum
samúð mína.
Blessuð sé minning Hrafns og
megi hann hvíla í friði.
Kveðja,


Drífa Jónsdóttir Foster.