Inga Valborg Einarsdóttir fæddist í Menntaskólanum í Reykjavík 29. nóvember 1928. Hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans í Reykjavík 1. júlí sl. Foreldrar hennar voru Einar Ástráðsson, héraðslæknir á Eskifirði, f. 6.2. 1902, d. 6.8. 1967, og Guðrún Guðmundsdóttir (Dadda), f. 12.4. 1906, d. 2.10. 1971. Systir Ingu var Brynhildur Björk, f. 1930, d. 2003. Bróðir Ingu var Auðun Hlíðar, f. 1941, d. 2009. Uppeldissystir Ingu var Gunnhildur Eiríksdóttir, f. 1922, d. 2005. Inga giftist 27.5. 1950, Sveini Kjartani Sveinssyni, f. 1.6. 1924, d. 11.9. 2008. Foreldrar hans voru hjónin Sveinn M. Sveinsson, forstjóri Völundar og Soffía Emelía Haraldsdóttir. Ingu og Sveini varð sjö barna auðið: 1) Guðrún, f. 8.10. 1950, d. 2.3.1987, maki Ásmundur Gíslason. Börn þeirra eru a) Guðrún Dadda, f. 1972, maki Brynjólfur Hermannsson, börn þeirra eru Guðrún, Kolbeinn og Kjartan, b) Arna, f. 1975, maki Borgþór Egilsson. Synir þeirra eru Óskar og Heiðar Egill, c) Matthildur f. 1977, maki Hjálmar Sigurðsson. Börn þeirra eru Tómas Orri og Elín Ása, d) Kjartan, f. 1979. 2) Soffía Emelía, f. 25.10. 1951, fyrrverandi maki Ólafur Örn Jónsson, þeirra börn: a) Inga Valborg, f. 1967, maki Einar Eyjólfsson. Synir Einars úr fyrra sambandi eru Steinar og Grétar. Dóttir Ingu með Gunnari Jónassyni er Edda Rún, sambýlismaður Gylfi Björnsson, dóttir þeirra er Júlía Dís b) Freyja Margrét, f. 1975, dóttir hennar er Soffía Líf Freyjudóttir, c) Baldvin Örn, f. 1981, d) Ólafur Örn, f. 1986, sambýliskona Heiðrún Sigurðardóttir. 3) Sveinn Magnús, f. 15.10. 1953, sambýliskona Auður Elísabet Guðmundsdóttir, þeirra dætur eru: Elsa Valborg, f. 1984, Guðrún Tara, f. 1987 og Elísabet Birta, f. 1991. Sonur Sveins og Modestu Gonzales Cano er Ivan Kári, f. 1978, maki Amelia Samuel. 4) Guðmundur Gestur, f. 30.3.1955. Sonur hans og Ásrúnar Ásgeirsdóttur er a) Rúnar Geir, f. 1976, b) sonur hans og Ingu Þóru Stefánsdóttur er Stefán Freyr, f. 1977, sambýliskona Eygló J. Guðjónsdóttur, sonur þeirra er Hlynur Freyr, c) dóttir Guðmundar og Margrétar Ástu Guðjónsdóttur er Halldóra Rannveig, f. 1987, d) sonur hans og Eddu Waage er Steindór Gestur, f. 1998. 5) Einar, f. 3.10. 1956, sambýliskona Arnhild Mölnvik. Börn Einars og Katrínar Theódórsdóttur eru a) Sveinn Kjartan, f. 1982, sambýliskona Dong Huimin, b) Júlíana, f. 1986. Uppeldisdætur Einars, dætur Katrínar Theódórsdóttur af fyrra sambandi, eru Harpa og Ásta Sif Gísladætur, c) sonur Einars og Margrétar Garðars er Daníel, f. 1982. 6) Sigurður Valur, f. 5.3.1959, maki Sigríður Héðinsdóttir, börn þeirra eru: a) Auður, f. 1986, sambýlismaður Helgi P. Ásgeirsson, b) Styrmir f. 1991. 7) Þórlaug, f. 9.12. 1962, maki Guðmundur Vignir Friðjónsson, dætur þeirra eru: a) Salka, f. 1997 og b) Fanney, f. 1998. Sonur Þórlaugar og Júlíusar Hjörleifssonar er c) Jökull, f. 1990, unnusta Aldís Mjöll Helgadóttir. Inga ólst upp á Eskifirði á mjög erilsömu heimili. Hún hélt til Reykjavíkur til náms 1943 og bjó hjá móðurafa sínum og -ömmu. Hún varð stúdent frá MR 1949 og stundaði nám í læknisfræði í HÍ 1949-1950. Inga fór í leiðsögumannanám, m.a. til að svala ferðaáhuga og fróðleiksþorsta. Hún stundaði nám í Röntgentæknaskóla Íslands 1973-1976 og vann við fagið til 1998 og starfaði síðan í 10 ár hjá Krabbameinsfélaginu. Inga verður jarðsungin frá Langholtskirkju í dag, 10. júlí og hefst athöfnin kl. 13.

Inga Valborg. Inga Valborg Einarsdóttir móðir mín var víðförul ævintýrakona sem lifði fjölbreyttu lífi og átti mjög marga vini á öllum aldri. Á Eskifirði þar sem hún ólst upp var hún þekkt sem Inga læknisins, en faðir hennar var læknir þar til marga ára. Inga var honum ætíð innan handar og kunni snemma ýmislegt fyrir sér í læknisfræði og hjúkrun. Sagt er að þegar mikð lá við og langt var að fara lét hann mömmu keyra Villisinn og var hún ætíð þekkt fyrir að vera góður bílstjóri sem fór yfirleitt nokkuð hratt yfir. Hvenær sem við  systkynin áttum leið um Austurland stóð okkur yfirleitt allar dyr opnar þegar við nefndum nafn hennar.  Inga var góð við alla og hvar sem hún kom var hún óðara farin að spjalla við bláókunnugt fólk af einglægni og meðfæddum léttleika og jákvæðni.  Mamma hafði þann eiginleika að vera ekki að velta hlutunum of mikið fyrir sér heldur fylgdi hjartanu og lenti oft í skondnum og skemmtilegum uppákomum. Eitt sinn fór hún í stuttan sunnudagsbíltúr með Sveini manni sínum og var hún á inniskónum. Ferðin endaði á Seyðisfirði um 10 tímum síðar. Í annað skipti bankaði hún upp á hjá Guðrúnu dóttur sinni á Hornafirði á hagkaupssloppnum, en þá hafði hún skutlað manni austur fyrir  fjall og datt í hug að halda bara áfram austur. Guðmundur afi hennar var húsvörður í Menntaskólanum í Reykjavík og þar fæddist mamma 1929. Þetta varð til þess að ég varð  stúdent þaðan eins og hún, því ekki kom annað til greina þó áhuginn hafi oft verið af skornum skammti.  Mamma var þekkt sem Inga af Íslandi í Færeyjum þar sem þau hjónin áttu marga vini og það var sama sagan ef ættmenni komu þar og nefndu nafn þeirra var ekki möguleiki að fá að greiða hvort sem var fyrir mat, drykki eða gistingu eftir  það. Hún fór síðustu ferð sína til Færeyja í tilefni af áttræðisafmæli sínu í fyrra sumar þar sem hún var borin á höndum um víðan völl.  Heimili hennar í Sigluvoginum var líka oft yfirfullt af færeyingum sem og sumarbústaðurinn  Sveinsstaðir við Elliðavatn.  Eins komu margir bændur við í Sigluvoginum þegar þeir voru í kaupstaðaferð og vikum við börnin oft úr rúmum fyrir þeim,  sem sumir hverjir voru afar sérstakir og miklir persónuleikar, og allir elskuðu þeir Ingu. Hvar sem hún  fór var kátt á hjalla. Hún hafði gaman af lífinu og sérstaklega gaman af fólki, allskonar fólki sem leið vel í návist hennar.  Hún eignaðist 7 börn á 11 árum.  Í fyrstu tvö skiptin ákvað hún að fara á fæðingardeildina og átti þá stúlkur. Í næstu fjögur  ákvað hún að eiga heima i Sigluvogi og komu þar fjórir drengir og að síðustu skellti hún sér svo aftur á deildina og síðasta barnið varð stúlka. Í þá tíð var ekkert hægt að fá að vita fyrirfram, en hún hafði einhverja sérstaka gáfu þegar koma að læknisfræði og hjúkrun.  Hún greindi yfirleitt alla sjúkdóma sem herjuðu á hennar fólk rétt og oft skipti það sköpum þegar læknar höfðu haldið öðru fram.Inga Sveins í Völundi stóð sig einnig vel í forstjórakonu hlutverkinu og fylgdi manni sínum víða um heim í viðskiptaerindum sem um fjöll og fyrnindi á hestum, en þau voru mikið hestafólk.  1963 þegar yngsta barnið  var rúmlega háfs árs og það elsta 12 ára reið hún ásamt Sveini og Þorláki Ottesen vini þeirra þvert yfir landið frá Suðvestri til Austurlands á 25 dögum. Þá var allt trúss og farangur  borin á hestunum og lítið um brúaðar ár.  Börnin voru í góðu yfirlæti heima  í Sigló hjá norskum barnapíum á meðan.  Svona var Inga, lét bara vaða eins og sagt er. Það var alltaf mikið líf og fjör í Sigluvoginum  og vinir barnanna urðu yfirleitt miklir vinir mömmu og stóð heimili hennar ætíð opið fyrir þeim.  Þannig var að oft voru vinirnir í góðu yfirlæti inn á kontór með mömmu þegar maður kom heim úr skóla eða vinnu.Gestrisni hennar gekk stundum fram af sumum og sem dæmi var hún eitt sinn sem oftar á leið að austan ásamt vinkonu á gamla fólksvagninum með  6 börn,  4  í aftursætinu og 2 í hólfinu þar  fyrir aftan og hlaðna toppgrind. Hún ók fram á puttaling með stóran bakpoka sem bætt var á grindina og honum troðið inn, ekki málið. Alltaf til að rétta hjálparhönd.  Pabbi Sveinn kunni vel að meta hvatvísi konu sinnar og ævintýraeðli,  en nóg fannst honum um þegar þau voru á ferð í Mexíkó og hún heimtaði að prófa að fara upp í fallhlíf sem dregin var af hraðbát. Það var eingu tauti við hana komandi og þótt hún væri frekar í þyngra lagi þá stundina og komin yfir sextugt lét hún vaða, hljóp af stað á ströndnni,  fleytti nokkrar kerlingar á haffletinum og sveif svo yfir vötnum Kyrrahafsins í fallhlíf og sá ekki eftir því.  Þegar Inga var 43 ára datt henni í hug að fara aftur í skóla og kláraði Röntgentækniskólann með næst hæstu einkunn nokkru síðar.  Hún passaði vel inn í nemendahópinn þó talsverður aldursmunur væri á milli þeirra, en ein bekkjarsystir hennar sagði frá því síðar að þegar þessi miðaldra kona gekk fyrst inn í skólastofuna í bleikum terlínbuxum og með hárkollu, datt þeim ekki í hug að heimili hennar ætti eftir að verða aðal samkomustaðurinn og hún sem mamma þeirra allra og félagi, en þannig varð það.  Mamma las og las á meðan kartöflurnar og fiskurinn voru að sjóða á eldavélinni.  Inga  hafði tækfifæri til að kynnast landi sínu, sem hún virti og dáði, bæði í hestaferðum  og  í starfi sínu þegar hún fór um landið í 10 ár og myndaði fyrir Krabbameinsfélagið og eignaðist fjölda vina. Það var eftirsókanrvert fyrir samstarfsfólk  að fara í þessar vinnuferðir með henni því allstaðar var þeim boðið að búa frítt og spöruðust þá dagpeningarnir.  Þær eru margar góðar sögurnar af Ingu Valborgu  og er ég glaður og þakklátur yfir að hafa átt svona lifandi og skemmtilega móður. Hún hafði einskakt lag á að sjá skondnu hliðarnar í lífinu og hafði mikinn húmor fyrir sjálfum sér og hló mikið og dátt.  Nú síðast í vetur fór hún í 30 ára afmæli hjá einu af fjölmörgum barnabörnum sínum og var haft á orði hvað hún var  skvísulega klædd. Þegar hún kom heim hringdi hún óðara í börnin sín og kom varla upp orði fyrir hlátri, en það var út af því að þegar hún kom heim úr veislunni blasti pilsið sem hún hafði ætlað að vera  í við henni á stólbaki í stofunni.   Maður gat  alltaf  leitað til mömmu til að spyrja út í ættfræði, bókmenntir, landafræði eða heilsufarsmál, alltaf var hún með svörin.  Hún  tók ekki aðeins röntgenmyndir á ferli sínum heldur var mikil áhugamanneskja um ljósmyndun og skilur eftir ómetanlegar minningar í yfir 100 ljósmyndaalbúmum og 5000 skyggnum.     Sveinn og  Inga.  Í margra huga hljóma þessi nöfn sem eitt. Sveinn lést í september síðastliðnum og  nú eru þau saman á ný ásamt elstu dóttur sinnisem lést löngu fyrir aldur fram.  Það var yndisleg upplifun að verða vitni að því rétt áður en hún lagði í sína hinstu ferð þegar hún sagði að þau hefður birst henni og  væru að bíða eftir sér.  Og svipurinn og faðmlagið sem fylgdi á eftir gaf svo sterkt til kynna að hún væri sátt og hlakkaði til ferðarinnar og endurfundanna framundan.  Góða ferð kæra móðir og takk innilega fyrir mig. Glaður og reifurskyli gumna hver,uns sinn bíður bana.                     Hávamál.    Sveinn M. Sveinsson og fjölskylda.

Sveinn Magnús Sveinsson

Inga Valborg Einarsdóttir móðir mín var víðförul ævintýrakona sem lifði fjölbreyttu lífi og átti  marga vini á öllum aldri. Á Eskifirði þar sem hún ólst upp var hún þekkt semI nga læknisins", en faðir hennar starfaði þar til marga ára. Inga var honum ætíð innan handar og  þegar mikið lá við og langt var að fara lét hann mömmu keyra, en hún ar góður bílstjóri og fór nokkuð hratt yfir.  Hvenær sem við  systkinin eigum  leið um Austurland standa okkur yfirleitt allar dyr opnar ef við nefnum nafn hennar.  Inga var góð við alla og hvar sem hún kom var hún óðara farin að spjalla við bláókunnugt fólk af einlægni og meðfæddum léttleika og jákvæðni.  Hún var yfirleitt  ekki að velta hlutunum of mikið fyrir sér heldur fylgdi hjartanu og lenti oft í skondnum og skemmtilegum uppákomum. Eitt sinn fór hún í stuttan sunnudagsbíltúr í Reykjavík með Sveini manni sínum og var hún á inniskónum. Ferðin endaði hjá frænku hennar á Seyðisfirði um 10 tímum síðar. Í annað skipti bankaði hún upp á hjá Guðrúnu dóttur sinni á Hornafirði á hagkaupssloppnum, en þá hafði hún skutlað manni austur fyrir  fjall og datt í hug að halda bara áfram. Mamma var þekkt sem Inga af Íslandi í Færeyjum þar sem þau hjónin áttu marga vini. Hún fór síðustu ferð sína til Færeyja í tilefni af áttræðisafmæli sínu í fyrra sumar þar sem hún var borin á höndum um víðan völl.  Heimili hennar í Sigluvoginum stóð öllum opið  sem og sumarbústaðurinn  Sveinsstaðir við Elliðavatn  og vikum við börnin oft úr rúmum fyrir erlendum gestum eða bændum í kaupstaðaferð, sem margir  hverjir voru sérstakir og  miklir persónuleikar sem allir elskuðu  Ingu.  Hún hafði gaman af lífinu og   fólki  leið vel í návist hennar. Inga var orðin 7 barna móðir 33 ára.  Hún  hafði  sérstaka gáfu og greindi yfirleitt alla sjúkdóma sem herjuðu á hennar fólk rétt og oft skipti það sköpum þegar læknar höfðu haldið öðru fram.

Inga Sveins í Völundi stóð sig einnig vel í forstjórakonu hlutverkinu og fylgdi manni sínum víða um heim  sem um íslensk fjöll og firnindi á hestum. 1963 reið hún ásamt Sveini og Þorláki Ottesen vini þeirra þvert yfir landið frá Suðvestri til Austurlands á 25 dögum. Þá var allt trúss og farangur  borin á hestunum og sá hún auðvitað um allan mat.  Börnin 7 voru í góðu yfirlæti heima  í Sigló hjá norskum barnapíum á meðan.  Svona var Inga, lét bara vaða eins og sagt er. Það var alltaf mikið líf og fjör í Sigluvoginum  og vinir okkar barnanna urðu yfirleitt miklir vinir mömmu.  Oft  voru þeir  í góðu yfirlæti inni á kontór með mömmu þegar maður kom heim úr skóla eða vinnu. Pabbi  kunni vel að meta hvatvísi konu sinnar og ævintýraeðli,  en nóg fannst honum um þegar þau voru á ferð í Mexíkó og hún komin á sjötugs aldur, er hún ákvað að prófa að láta draga sig  upp í fallhlíf sem dregin var af hraðbáti. En Inga  lét  vaða, hljóp af stað á ströndinni,  fleytti nokkrar kerlingar á haffletinum og sveif svo yfir vötnum Kyrrahafsins og ljómaði.

Þegar hún var 43 ára skellti hún sér í  Röntgentækniskólann.  Hún passaði vel inn í nemendahópinn þrátt fyrir  talsverðan aldursmun. Ein bekkjarsystir hennar minnist þess þegar mamma gekk fyrst inn í skólastofuna í bleikum terlínbuxum og með hárkollu, datt þeim ekki í hug að hún ætti eftir að verða aðal forsprakkinn í félagslífinu og heimili hennar aðal samkomustaðurinn, en þannig varð það.  Mamma las og las á meðan kartöflurnar og fiskurinn voru að sjóða  og náði næst hæstu einkunn.  Inga   var mikið náttúrubarn og kynntist landinu bæði í hestaferðum  og í starfi sínu þegar hún fór um landið í 10 ár og myndaði fyrir Krabbameinsfélagið. Eftirsóknarvert var fyrir samstarfsfólk að fara með henni í slíkar ferðir því alls staðar var þeim boðin frí gisting hjá vinum og kunningjum og var því hægt að finna betri not fyrir dagpeningana en eyða þeim í hótelkostnað. Hún  tók ekki aðeins röntgenmyndir á ferli sínum heldur var einnig mikil áhugamanneskja um ljósmyndun og skilur eftir ómetanlegar minningar í hátt í 200 ljósmyndaalbúmum og á 5000 skyggnum.  Hún hafði líka unun af garðrækt og var alltaf jafn spennt á vorin að sjá hvað kæmi upp í garðinum í Sigluvoginum af því sem hún sankaði að sér á ferðum sínum og hafði sett niður.  Hún stundaði einnig talsverða trjárækt við sumarbústað þeirra í landi Grímsstaða, Skollhól þar sem þau eyddu mörgum stundum og stórfjölskyldan kom saman.  Ingu var umhugað um öll börnin og barnabörnin sem hrifust snemma af mannlegum eiginleikum hennar og vílaði hún ekki fyrir sér að fara til Ameríku eða Þýskalands til að vera viðstödd fæðingu sumra barnabarna sinna, en alltaf tók hún þátt í slíkum stórviðburðum.

Þær eru margar góðar minningarnar og sögurnar af Ingu Valborgu  og er ég glaður og þakklátur yfir að hafa átt svona lifandi og skemmtilega móður. Hún hafði einstakt lag á að sjá björtu hliðarnar í lífinu og hafði mikinn húmor fyrir sjálfum sér. Í þrítugsafmæli  eins af fjölmörgum barnabörnum sínum fyrir stuttu var haft á orði hvað hún væri skvísulega klædd.  Þegar hún kom heim hringdi hún óðara í mig og kom varla upp orði fyrir hlátri,  því pilsið sem hún hafði ætlað í lá á stólbaki í stofunni.  Maður gat alltaf leitað til mömmu varðandi ættfræði, bókmenntir, landafræði eða heilsufarsmál, alltaf var hún með svörin.

Sveinn og  Inga.  Í margra huga hljóma þessi nöfn sem eitt. Sveinn lést í september  síðastliðnum og  nú eru þau saman á ný ásamt elstu dóttur sinni sem lést löngu fyrir aldur fram.  Það var yndisleg upplifun að verða vitni að því rétt áður en hún lagði í sína hinstu ferð þegar hún sagði þau hafa birst sér og  væru að bíða eftir henni.  Svipurinn og faðmlagið sem fylgdi á eftir gaf svo sterkt til kynna að hún væri sátt og hlakkaði til ferðarinnar og endurfundanna framundan.  Góða ferð kæra móðir og takk innilega fyrir mig.

Glaður og reifur skyli gumna hver,

uns sinn bíður bana.

( Hávamál.)

Sveinn M. Sveinsson og fjölskylda.

Fallin er frá mikil og merkileg kona, tengdamóðir mín Inga Valborg Einarsdóttir. Ég kynntist Ingu fyrir 16 árum þegar ég og Þórlaug dóttir hennar kynntumst. Þá  var Inga 65 ára.

Inga var ákaflega vel liðin af öllum sem þekktu hana.  Ég hef stundum velt því fyrir mér hvað það var í fari hennar sem gerði hana svona  vinsæla. Hún var einstaklega vel gefin, víðlesin og minnug á alla hluti. En umfram allt  var hún skemmtileg. Inga var mjög félagslynd og naut sín best í góðra  vina hópi. Hún ferðaðist mikið bæði innanlands og utan og fóru þau hjónin í ótal hestaferðir um landið. Hún var opin og ræðin og átti auðvelt með að kynnast nýju fólki.

Þessir eiginleikar gerðu það m.a. að verkum að hún var  alltaf að upplifa skemmtilega atburði  sem síðar urðu efni í skemmtilega frásögn.

Það var alltaf gaman að fá Ingu í heimsókn. Þá komu sögurnar hver af annarri. Inga hafði einstakt lag á fólki. Hún hrósaði mikið og sýndi  fólki mikinn áhuga. Þess vegna var svo gaman að gleðja hana. Ég hélt t.d. á tímabili að ég væri  besti kokkur í heimi.

Það var sérstaklega gaman að ferðast með Ingu til Færeyja á síðasta ári. Hún átti marga góða vini þar sem annarsstaðar og var henni  hvarvetna höfðinglega tekið. Mér leið stundum eins og hirðmanni drottningar í þeirri ferð.  Sveinn K. Sveinsson eiginmaður Ingu lést í september á síðasta ári. Blessuð sé minning þeirra hjóna.

Guðmundur V. Friðjónsson.

Hljóð og tóm er hjartans borg.
Heimsins svipur breyttur er.
Andi minn hann á ei sorg.
Alltaf lifir þú hjá mér
(Einar Benediktsson.)

Minningarnar streyma fram í huga mér. Ekki í réttri röð, en þær eru svo margar.
Mín fyrsta minning af þér er í stóra hvíta tjaldinu, sem hafði engann botn. tjaldið var fullt af hnökkum, beislum, trússtöskum og öllu því sem fylgir hestaferðalagi. Tjaldið var á Skógarhólum og þú og amma Birta þarna inni að smyrja haug af brauði fyrir öll börnin sem þið áttuð og hin sem fylgdu með.
Það var mikið fjör, ég var nú samt smá smeyk við þig því þú varst með gleraugu.
Það var aldrei nein lognmolla í kringum þig.
Ég er lánsöm að hafa átt þig að.
Ég votta aðstandendum og vinum Ingu djúpa samúð.
Takk fyrir allt.

Birta.


Það er primusmótor i þessum bekk þrumaði skólastjóri Röntgentæknaskóla Íslands yfir okkur nemendum haustið 1973. Við vissum ekki alveg hvað hann var að fara alveg strax en við áttuðum okkur fljótt á því. Inga Valborg var primusmótorinn okkar frá fyrsta degi. Hún var ein þeirra kvenna sem braut blað með því að setjast á skólabekk 45 ára gömul þegar yngsta barnið hennar af sjö var 12 ára. Inga var eldklár, ótrúlega hress og hláturmild. Hún var mamma okkar, amma okkar, systir, sálusorgari og allt þar á milli. Hún hafði endalausa orku og lífskraft. Sigluvogurinn varð annað heimili okkar allra. Eitthvert okkar virtist alltaf vera í heimsókn og oft var allur hópurinn saman kominn þar. Trúlega var oft lítið eftir í ísskápnum þegar heimilisfólk kom heim eftir hópheimsóknir okkar.

Á sólríkum sumardegi var allur hópurinn í sundlauginni og liðið var á daginn þegar Sveinn, maður Ingu, kom heim með viðskiptafélaga og spurði Ingu hvort hún væri ekki tilbúin. Hún átti að fara með honum út að borða með erlendum viðskiptavinum. Inga fullvissaði hann um að hún hefði ekki gleymt neinu, snaraði sér í kjól, setti á sig varalit, kom út að sundlaug og sagðist aldrei hafa lært að vera forstjórafrú. Hún fór og bað okkur að loka húsinu þegar við færum. Viðskiptavinirnir fengu sögu yfir kvöldverði um prófessora á Íslandi sem kenndu gjarnan í görðum á góðviðrisdögum. Þeir væru svo frjálslyndir og þennan dag hefðu þeir komið heim til hennar og kennt í sundlauginni. Hláturinn ískraði í Ingu þegar hún sagði okkur að þeir hefðu trúað þessu.

Inga var af þeirri kynslóð sem lærði aldrei hvað orðið erfitt þýðir. Ekki heldur leiðinlegt eða að vera þreytt. Hún var komin á fætur fyrir allar aldir og fór síðust i rúmið. Þegar eitthvert okkar þurfti á félagsskap að halda eða einhvern sem nennti að hlutsta var farið til Ingu. Hún fór á fætur, þess vegna um miðja nótt, gaf kaffi, hlustaði og viðkomandi gisti gjarnan.

Inga virtist geta gert allt í einu. Hún elskaði börnin sín út af lífinu og var stolt af þeim og barnabörnum. Hún átti fósturbörn af ýmsum gerðum og stærðum, hún sinnti öldruðum ættingjum og vinum um allt land. Hún fór í hestaferðir, ferðaðist til útlanda, tók slátur, úrbeinaði kjöt, eldaði og bakaði. Húsið var alltaf fullt af fólki, gestum og gangandi.

Við vorum mjög lánsöm að fá Ingu Valborgu í bekkinn okkar og fá að eiga hana að því það eru ekki til mörg eintök af slíku fólki. Hún hélt að sjálfsögðu útskriftarveislu fyrir bekkinn og fylgdist alltaf með okkur öllum eftir að skólanum lauk. Það voru okkar forréttindi að kynnast Ingu; hún gerði okkur að betri einstaklingum og betri vinum.

Að leiðarlokum kveðjum við Ingu Valborgu með ást, virðingu og þakklæti fyrir allt sem hún gaf okkur.

Ástvinum hennar öllum vottum við okkar dýpstu samúð.

Bekkjarfélagar frá Röntgentæknaskóla Íslands 1973-1976.