Áslaug Jóna Ólsen Jóhannsdóttir fæddist í Bolungarvík 29. september 1929. Hún lést á heimili sínu sunnudaginn 29. mars 2009. Foreldrar hennar voru Lína Dalrós Gísladóttir, f. í Bolungarvík 22.9. 1904, d. 14.12. 1997 og Jóhann Sigurðsson, f. 5.8. 1891, d. 27.8. 1932. Seinni maður Línu var Jón Ásgeir Jónsson, f. 9.7. 1911, d. 1.10. 1996. Systkini Áslaugar eru; Guðmunda, f. 20.3. 1922, d. 12.3. 2005, Gísli, f. 29.8. 1923, d. 9.9. 1989, Guðbjörg Kristín, f. 3.12. 1925, d. 3.6. 1926, Guðbjörg, f. 29.4. 1927, Guðmundur Óskar, f. 25.5. 1928, Jóhann Líndal, f. 25.11. 1930, Alda, f. 9.3. 1935, Herbert, f. 29.8. 1936, d. 5.11. 1985, Sigurvin, f. 13.8. 1937, og Sveinn Viðar, f. 5.12. 1939. Áslaug giftist 24. desember 1949 Jóhannesi Guðjónssyni sölumanni og iðnrekanda, f. 21.7. 1918, d. 28.6. 1985. Foreldrar hans voru Guðjón Bjarnason, f. 12.1. 1885, d. 10.5. 1942 og Ólafía Margrét Helga Arnórsdóttir, f. 4.6. 1896, d. 28.8. 1923. Börn Áslaugar og Jóhannesar eru: 1) Gréta Björk, f. 14.5. 1949, maki Þórhallur Frímannsson, f. 23.10. 1942, börn þeirra Margrét, f. 16.4. 1975, í sambúð með Adrian Long, f. 21.5. 1975, og Jóhannes, f. 20.4. 1979, í sambúð með Hönnu Björg Konráðsdóttur, f. 20.5. 1983. Gréta á tvo stjúpsyni, Frímann Þór og Viðar Þórhallssyni. 2) Edda Ösp, f. 7.4. 1951, börn hennar Einar Björnsson, f. 17.9. 1967, í sambúð með Halldóru Eldon Sigurðardóttur, f. 20.8. 1970, og Áslaug Björk, f. 28.3. 1972, maki Ragnar Haraldsson, f. 26.6. 1970. 3) Guðjón Reynir, f. 9.8. 1952, maki Gyða Halldórsdóttir, f. 22.8. 1948. Börn Guðjóns og Ásdísar Jónsdóttur, f. 2.9. 1952 eru Jón Rúnar, f. 12.1. 1976, maki Aviaq Geisler, f. 14.4. 1980, Agnes, f. 13.6. 1979, í sambúð með Gunnari Sigurðssyni, f. 23.2. 1973, og Óskar Ingi, f. 17.7. 1983, í sambúð með Völu Jónsdóttur, f. 14.11. 1983. Guðjón á tvær stjúpdætur, Erlu Dögg og Láru Kristínu Ragnarsdætur. 4) Kristján, f. 4.10. 1957, maki Eyrún Jónsdóttir, f. 27.4. 1960. Börn þeirra Ásbjörg Elín, f. 3.12. 1979, Signý Rut, f. 9.10. 1995, Sigurbjörg María, f. 6.11. 1998, og Jóhannes Karl, f. 6.11. 1998. 5) Drengur Jóhannesson, f. 5.9. 1960, d. 6.9. 1960. 6) Helga, f. 23.7. 1965, maki Örn Jónasson, f. 16.2. 1962. Börn þeirra Franz Jónas Arnar, f. 11.7. 1993, og María Ísabella, f. 13.4. 1996. Barnabarnabörnin eru 10. Áslaug ólst upp í Bolungarvík, hún lauk námi frá Húsmæðraskólanum á Ísafirði árið 1951. Fyrstu búskaparár sín bjuggu Áslaug og Jóhannes í Bolungarvík en árið 1951 fluttu þau til Reykjavíkur. Þau byggðu sér hús að Hlégerði 11 í Kópavogi árið 1958 og bjó Áslaug þar í nær 50 ár uns hún flutti að Kópavogsbraut 1A í júlí 2008. Meðfram heimilisstörfum vann Áslaug við ýmis þjónustustörf uns þau hjónin keyptu Regnfatagerðina Vopna árið 1972 og ráku til 1985 er Jóhannes lést. Eftir það starfaði hún á Hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í 14 ár eða til 70 ára aldurs. Áslaug var mikil hannyrðakona og lætur eftir sig mörg fagurlega gerð verk, var einnig garðyrkjukona og garðurinn hennar í Hlégerðinu var hennar líf og yndi og ber merki um alúð og umhyggju. Á frumbýlisárum þeirra hjóna í Kópavogi tók Áslaug virkan þátt í bæjarmálum fyrir Alþýðuflokkinn og sat um tíma í nefndum bæjarins fyrir flokkinn. Útför Áslaugar fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 3. apríl, og hefst athöfnin kl. 13.

Ég ætla í fáeinum orðum að minnist tengdamóður minnar, Áslaugar, og hversu vel hún reyndist okkur.

Fyrstu kynni mín af Áslaugu voru þegar ég fór að vera með Helgu dóttur hennar vorið 1985. Hún tók mér strax vel og voru samskipti okkar ætíð góð upp frá því. Smátt og smátt kynntist ég fjölskyldu Helgu og öðrum ættingjum, og alltaf var það Áslaug sem kynnti mig sérstaklega fyrir þeim, sem kærastann hennar Helgu og tók ég því sem sérstakri traustyfirlýsingu frá henni í minn garð, og að henni hlyti að líka svona vel við mig. Betri meðmæli er ekki hægt að fá frá sjálfri móður kærustu sinnar fyrir væntanlegan tengdason.

Þegar við Helga hófum sambúð haustið 1985 var Áslaug alltaf að gauka einhverju að okkur sem við gætum notað í búskap okkar og máttum alltaf leita til hennar ef okkur vanhagaði um eitthvað. Við vorum að sjálfsögðu alltaf velkomin til hennar í mat eða kaffi þegar okkur hentaði. Gestrisni hennar var mikil og alltaf mikið um gesti hjá henni.

Áslaug var dugleg að ferðast og fór oft í ýmiskonar ferðalög ýmist með ferðahópum eða eins síns liðs til að heimsækja ættingja og vini. Þegar við Helga fluttum árið 1989 austur á Eskifjörð, þar sem að við bjuggum í 3 ár, kom hún oft í heimsókn til okkar þar og dvaldi meðal annars ein jól hjá okkur þar. Henni má hafa líkað vel að heimsækja okkur, því þegar við Helgu fluttum til Danmerkur árið 1991 lét hún það ekki aftra sér að bregða sér í utanlandsferð til að heimsækja okkur þau 11 ár sem við Helga bjuggum þar við nám og síðar störf, til að dvelja hjá okkur. Alltaf fannst henni gaman að koma til okkar og við nutum að fá hana í heimsókn.

Áslaugu ferðaðist vítt og breitt með okkur Danmörku, og til nálægra landa svo sem um falleg héruð Frakklands, til Þýsklands m.a. Svartaskóg þar sem að hún dvaldi með okkur Helgu í sumarhúsi sumarið 1995. Einnig fórum við með lest  til Prag í Tékklandi sumarið 2001, svo fátt eitt sé talið.

Það var greinilegt að Áslaugu var umhugað um okkur Helgu. Hún lagði það á sig, þó svo að á efri ár væri komið, að koma út til okkar til Kaupmannahafnar sérstaklega til að aðstoða okkur og vera viðstödd fæðingu barna okkar. Slík var gæska hennar og þetta var okkur ómetanlegur styrkur. Allar götur eftir fæðingu barna okkur Helgu, Franz Jónas og Maríu Ísabellu, bar hún hag þeirra fyrir brjósti og sérstaklega eftir að við fluttum heim til Íslands haustið 2002. Oft hafði hún prjóna á lofti og prjónaði vetrarsokka og aðrar flíkur á börnin. Hún vissi að ég hafði gaman að því að lesa góðar bækur og þá sérstaklega ýmsar heimildarbækur og uppslagsverk. Ég á mörg vönduð og góð uppslagsverk sem hún gaf mér í afmælis- og jólagjafir, og það er henni að þakka að ég á myndarlegt safn af uppslagsverkunum Aldirnar svonefndu.

Áslaug var hin vænsta kona sem vildi öllum vel og bar alltaf hag annarra sér fyrir brjósti af mikilli fórnfýsi.

Ég vil þakka henni fyrir allar þær góðu stundir sem hún hefur gefið okkur Helgu og börnunum okkar tveimur þau ár sem við höfum verið saman.

Örn Jónasson.

Elsku mamma.

Með þessum fáeinu orðum vil ég þakka þér fyrir allar þær stundir sem við höfum átt saman. Þakka þér fyrir hjálpina sem þú veittir okkur, fyrir ráðleggingarnar og hugulsemi þína fyrir mér, Erni, Franz og Ísabellu. Ég þakka þér fyrir þær góðu minningar sem þú hefur gefið mér um móður, lífsglaða og félagslynda konu sem lét ekkert sér óviðkomið og bar ætíð hag annarra sér fyrir brjósti.

Ég mun sakna þín mikið þín elsku mamma en hugga mig við að pabbi tekur vel á móti þér. Ég hugga mig við að þið eruð nú saman á ný.  Ég hugga mig við að þú  kvaddir á fallegum degi sátt við lífverk þitt og hlutskipti í lífinu.

Hvíl í friði elsku mamma.

Þín dóttir,

Helga.