KRÍSTÍN ANNA BALDVINSDÓTTIR F. 20-08-1938 D. 26-08-2009 Krístin Anna fæddist á Týsgötu í Reykjavík. Dóttir Guðfinnu Jónasdóttur og Baldvins Þórðarssonar. Kristín ólst ein upp hjá móðir sinni sem vann víða sem ráðskona m.a. í Keflavík og Vestmannaeyjum . Kristín Anna missti móður sína ung og þurfti að fara sem kaupakona aðeins 13 ára gömul í Grænhól í Ölfusi til þeirra heiðurshjóna Guðbjargar Gunnarsdóttur og Steindórs Ísleifssonar sem reyndust henni vel. Þar var hún í nokkur ár. Flutti hún síðan til Reykjavíkur þar sem hún m.a. vann sem ráðskona hjá Árna Björnssyni lýtalækni.1957 kynntist hún eftirlifandi eiginmanni sínum Geir Grétari Péturssyni. Þau byrjuðu búskap sinn í Reykjavík en fluttust til Vestmannaeyja árið 1963. Þar bjuggu þau fram að gosi. Þau bjuggu á Stokkseyri í tvö ár, en fluttust aftur til Vestmannaeyja . Árið 1980 fluttu þau á Selfoss að undanskyldum nokkrum árum í Þorláksshöfn. Kristín Anna vann lengst af við fiskvinnslu en einnig vann hún hjá Kaupfélagi Vestmannaeyja og var þar yfir kjövinnslunni . Síðasta starf Kristínar Önnu var sem dagmamma. Kristin eignaðist sjö börn. Þau eru: 1.Sveinn Guðfinnur Ragnarsson f. 04-01-1956 d.25-02-2003. Börn Sveins eru a) Sigrún f. 1981, móðir hennar er Jóhanna Ósk Kristjánsdóttir b) Steindór Smári f. 1986, móðir hans er Sjöfn Garðarsdóttir c) Davíð f. 1994 d),Eydís f.1995, móðir þeirra heitir Bergdís. 2. Valur Smári Geirsson f.18-09-1957 d.11-03-1984 Börn Vals Smára og Lindu Aðalbjörnsdóttur eru a) Aðalbjörn Þorgeir f. 1977 b) Anna Dóra f.1981 Sonur hennar er Örnólfur Smári f.2000. 3. Grétar Pétur Geirsson f. 24-09-1958 Barn Grétars Péturs og Guðrúnar Guðfinnsdóttur er Guðríður f.1981 Börn hennar eru Hörður Frans Pétursson f.1999 og Guðfinnur Flóki Guðmundsson f. 2006 Börn Grétars Péturs og Laufeyjar Þ. Ólafsdóttur eru a) Eva f.1986 b) Kristín f.1989 c)Geir Grétar f.1992 d) Dagný f.1992 e) Díana f.1992. Grétar og Laufey slitu samvistum. Núverandi unnusta er Brynhildur Fjölnisdóttir. 4: Heimir Freyr Geirsson f. 01-06-1963 Börn Heimis og Eyglóar Guðmundsdóttur a)Valur Smári f.1988 b).Sæþór Freyr f.1991. Erling Adolf Ágústsson f.1974 fósturbarn Heimis, og Halldóra Kristín Ágústsdóttir f. 1978 fósturdóttir Heimis. Heimir og Eygló slitu samvistum. Núverandi unnusta Heimis er Margrét Þ. Sverrisdóttir. 5. Sævar Helgi Geirsson f.18-10-1966 Barn Sævars Helga og Jóhönnu B. Halldórsdóttur er Sonja Rut f.1996 Sævar og Jóhanna slitu samvistum. 6. Anna Lea Geirsdóttir f.13-02-1980 Barn Önnu Leu er Linda Sjöfn f.1998. Barnsfaðir hennar er Alex Þorsteinsson.

Sólríkt og fallegt sumar er að kveðja. Söknuður og eftirsjá fylla hugann. Eins er sárt að sjá á eftir góðri vinkonu sem var mér svo kær en er nú horfin á braut. Snöggt og óvænt fylgdi hún sumrinu þangað sem ávallt er sól og birta. Eins hljótt og henni var líkt, hvarf hún eins og fuglarnir sem nú eru að kveðja hver af öðrum. Hún lét aldrei hafa mikið fyrir sér, reyndi ætíð að vera sjálfri sér næg. Anna kom til að vinna í fiski þegar ég kynntist henni fyrst. Hún hafði góða nærveru og það var auðvelt að kynnast henni, róleg, gamansöm og hamhleypa til verka það var eins og hún þyrfti aldrei að hafa neitt fyrir hlutunum. Það var oft langur og erfiður dagur þegar unnið var í bónus og standa upp á endann í marga klukkutíma, svo beið heimavinnan. En hún Anna tókst á við þetta kannski oftar af vilja en mætti. Er kom að því að við vorum búnar með kvótann okkar í fiskinum þá tók við barnapössun. Við vildum sko leggja okkar af mörkum tilsamfélagsins.

Alltaf var jafn notalegt að vera henni samferða, hún var skemmtileg í orðsins fyllstu merkingu. Aldrei heyrði maður hana argast út í almættið, sem þó úthlutaði henni svo mikið af erfiðleikum, missi og sorg sem enginn ætti að þurfa að upplifa. Eyjarnar voru henni einkar kærar, þar hafði hún átt mörg góð ár og líka erfið. Oft var komið við hjá þeim hjónum þegar fólk var að ferðast á milli lands og eyja, voru þau skemmtileg heim að sækja og gleymdust ekki þeim sem einhvern tíma höfðu þeim kynnst. Margt leitar á hugann þegar litið er tilbaka, þó stendur eitt sérstaklega uppúr. Það var sumar og við þreyttar konur vorum báðar í fríi en það gerðist nú ekki oft á þeim tíma. Ákveðnar í að njóta sumarsins og hlaða batteríin. Sólin skein á okkur allt sumarfríið, við fórum í sund flesta daga, lágum steiktar á bakkanum og létum okkur dreyma um að við værum staddar á suðrænni sólarströnd. Löbbuðum við heil ósköp og áttum yndislegar stundir saman. Oft seinna þegar að við rifjuðum upp þennan tíma kölluðum við hann alltaf Spánarfríið okkar.
En svo kom að því að þau hjónin fluttu burtu og mikil ósköp saknaði ég hennar Önnu, hún fór þó ekki langt en samverustundunum fækkaði. Við héldum samt alltaf þræðinum og hittumst af og til en þó alltof sjaldan. Síðustu árin voru henni erfið, veikindi gerðu henni ekki kleift að ferðast mikið. En í sumar birtust þau hjá okkur í sveitinni. Mér fannst hún vera aðeins hressari en áður. Þetta var fallegur dagur og veðrið gott, dagur sem leið alltof fljótt eins og góðir dagar gera oftast. Það var hægt að sitja úti og sól lék um vanga. Rifjaðar voru upp liðnar stundir og spjallað um menn og málefni. Ef ég hefði aðeins fengið hugboð um að stundarglasið þitt væri að tæmast hefði ég ekki dregið það svona að launa þér þessa góðu heimsókn. Það kennir okkur að bíða ekki með til morguns sem hægt er að gera í dag.

Vinátta er ekki metin til fjár og hún telst  ekki  í magni heldur í gæðum. Anna átti góða fjölskyldu sem hún umvafði ást og kærleika, hún fékk það líka goldið tilbaka. Það var hennar ríkidæmi. Þetta er aðeins fátækleg orð sem ég set á blað, hitt geymi ég með sjálfri mér. Ég er heldur ekki  viss um að þú kærðir þig um eitthvað væmið. Og ef þú nú fengir leyfi til að líta hérna niður til mín, myndir þú setja upp bros og hugsa sem svo: Ég held að hún ætli ekki að hafa það að böggla þessu saman á blað. Takk fyrir allar góðu stundirnar, þær hefðu mátt vera miklu fleiri.  Nú ert þú vonandi laus við allar þrautir og vel hefur verið tekið á móti þér, þar sem sólin skín á sundum og sigla himins fley.
Grétar  minn og allir sem sakna, megi minningin milda og sefa
Hjartans kveðjur frá mínu fólki.


Auður Helga Jónsdóttir