Kjartan I. Jónsson fæddist á Sauðárkróki 21. september 1936. Hann lést 23. október síðastliðinn. Foreldrar hans voru Margrét Jóhannsdóttir húsfreyja, f. 19. janúar 1899, d. 1994, og Jón Stefánsson verkamaður, f. 18. mars 1897, d. 1994. Bræður Kjartans eru Árni Magnús, f. 15. júlí 1922, og Jóhann, f. 15. október 1928, d. 1946. Kjartan var uppalinn á Sauðárkróki til 16 ára aldurs er hann fór suður til Keflavíkur. Kjartan kvæntist árið 1962 Ingibjörgu Ámundadóttur, f. 31. janúar 1936. Foreldrar hennar voru Kristín Guðmundsdóttir, f. 24. júlí 1910, d. 2. febrúar 1963, og Ámundi Guðmundsson, f. 12. október 1902, d. 25. ágúst 1948. Börn Kjartans og Ingibjargar eru: 1) Jóhann Berg, f. 1963, dætur hans eru Sif, f. 1992, Selma, f. 1994, og Freyja, f. 1999. 2) Margrét Björk, f. 1966, gift Stefáni H. Birkissyni, f. 1965, börn þeirra eru Dagný Björk, f. 1988, Aron Birkir, f. 1990, Símon Berg, f. 1996, d. 1998, og Hanna Björt, f. 2000. Fóstursonur Kjartans er Árni Hrafnsson, f. 1958, kvæntur Birnu Guðjónsdóttur, f. 1957, börn þeirra eru Kjartan Ingi, f. 1986, Rósa Linda, f. 1988, og Ásdís Eva, f. 1992. Kjartan hóf störf hjá Íslenskum aðalverktökum á Keflavíkurflugvelli 1952. Árið 1954 hóf hann störf hjá bandaríska flughernum og frá árinu 1962 til starfsloka 2005 vann hann hjá bandaríska sjóhernum á Keflavíkurflugvelli. Kjartan vann við ýmis stjórnunarstörf hjá hernum og var frá árinu 1986 framkvæmdastjóri viðhaldsdeildar flotastöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Árið 1989 var Kjartan sæmdur æðstu viðurkenningu sem flotastöðin gat veitt borgaralegum starfsmanni, „The Navy Meritorious Civilian Service Award“, fyrir vel unnin störf. Útför Kjartans fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 30. október, kl. 13.

Fallinn er frá fyrrum samstarfsmaður og vinur. Við Kjartan áttum saman frábært samstarf frá árinu 1986 þegar hann réði undirritaðan sem yfirverkstjóra hjá Viðhaldsdeild Varnarliðsins en þar gegndi Kjartan starfi framkvæmdastjóra og áður verksjóra í nærri 50 ár. Kjartan var stjórnandi sem gætti hagsmuna beggja aðila í hvívetna, þ.e. vinnuveitandans og starfsmanna, og var hann hátt metinn af þeim sem til hans þekktu eða störfuðu með honum, og skiptir þá engu hvort um var að ræða bandaríska yfirmenn flotans eða íslenska samstarfsmenn, til vitnis um það, þá hafði Kjartani verið veitt æðsta viðurkenning sem Bandaríski flotinn veitir borgaralegum starfsmönnum sínum og var hann þar í fámennum hópi manna. Það var mikil gæfa að hafa fengið að starfa undir hans stjórn og síðar að taka við af honum og halda áfram því góða starfi sem hafði verið svo vel skipulagt undir hans stjórn.
Kjartan og Inga kona hans höfðu yndi af því að ferðast og voru iðulega farnar ferðir ár hvert, oft til Bandaríkjanna en þangað var hann oft sendur vegna starfs síns og var þá tækifærið gjarnan nýtt og farið í sólina í framhaldinu, já eða jafnvel siglingu um Karabíska hafið. Nú síðari ár hafa svo ferðir til Danmerkur og Kanaríeyja verið á dagskránni en þar búa synir þeirra með fjölskyldum sínum. Oft áttum við Kjartan skemmtilegar samræður um þessi ferðalög og skiptumst á upplýsingum um hvað stæði til boða á þeim stöðum sem við höfðum ferðast til.
Það eru góðar minningar sem reika um hugann þegar maður rifjar upp allar samverustundirnar okkar sem eru ansi margar á 20 ára samstarfstíma, og erfitt er að vita að nú heyrumst við ekki eða sjáumst aftur á þessari jarðnesku dvöl, en við hringdum oft í hvorn annan til að fylgjast með og fá fréttir, oft hringdi Kjartan til að gá hvernig okkur gengi eftir að Varnarliðið fór og við urðum að hasla okkur nýjan starfsvettvang og kannaði hann þá iðulega hvort eitthvað nýtt væri að frétta af öðrum fyrrum samstarfsmönnum sem hann hafði taugar til.
Ég vil að leiðarlokum þakka fyrir þann einstaka vinskap, það traust og þá trú á mér sem ég hef í gegnum okkar samstarf og vináttu fundið frá Kjartani í minn garð.
Farðu í friði kæri vinur.
Eiginkonu Kjartans henni Ingu sem og öllum afkomendum þeirra sóma hjóna sendi ég innilegar samúðarkveðjur því missir þeirra er mikill og vona að góður guð styrki þau í þeirri sorg sem þau upplifa nú.

Valþór S. Jónsson.

Fallinn er frá fyrrum samstarfsmaður og vinur.

Við Kjartan áttum saman frábært samstarf frá árinu 1986 þegar hann réði undirritaðan sem verkstjóra við Viðhaldsdeild Varnarliðsins en þar gengdi Kjartan starfi framkvæmdastjóra og áður verksjóra í nærri 50 ár.  Kjartan var stjórnandi sem gætti  hagsmuna beggja aðila í hvívetna, og var hann hátt metinn af þeim sem til hans þekktu eða störfuðu með honum, og skiptir þá engu hvort um var að ræða bandaríska yfirmenn flotans eða íslenska samstarfsmenn, til vitnis um það, þá hafði Kjartani verið veitt æðsta viðurkenning sem bandaríski flotinn veitir borgaralegum starfsmönnum sínum og var hann þar í fámennum hópi manna. Það var mikil gæfa að hafa fengið að starfa undir hans stjórn og síðar að taka við af honum og halda áfram því  góða starfi sem hafði verið svo vel skipulagt undir hans stjórn.

Kjartan og Inga kona hans höfðu yndi af því að ferðast og voru iðulega farnar  ferðir ár hvert, oft til Bandaríkjanna en þangað fór hann oft vegna starfsins og var þá oft farið í sólina í framhaldinu, já eða jafnvel siglt um Karabíska hafið. Nú síðari ár hafa svo ferðir til Danmerkur og Kanaríeyja verið á dagskránni en þar búa synir þeirra með fjölskyldum sínum. Oft áttum við Kjartan skemmtilegar samræður um þessi ferðalög og skiptumst á upplýsingum um hvað stæði til boða á þeim stöðum sem við höfðum ferðast til.

Það eru góðar minningar sem reika um hugann þegar maður rifjar upp allar samverustundirnar okkar á 20 ára samstarfi, og erfitt er að vita að nú heyrumst við ekki eða sjáumst aftur á þessari jarðnesku dvöl, en við hringdum oft í hvorn annan til að fylgjast með og fá fréttir.

Ég vil að leiðarlokum þakka fyrir þann einstaka vinskap, það traust og þá trú á mér sem ég hef í gegnum okkar samstarf og vináttu fundið frá Kjartani í minn garð.

Farðu í friði kæri vinur.

Eiginkonu Kjartans, henni Ingu, sem og öllum afkomendum þeirra sóma hjóna sendi ég innilegar samúðarkveðjur, því missir þeirra er mikill og vona að góður guð styrki þau í þeirri sorg sem þau upplifa nú.

Valþór Söring Jónsson

Ég vil minnast góðs samstarfsmanns hjá Varnarliðinu um margra áratuga skeið. Kjartan starfaði hjá Varnarliðinu í rúmlega fimm áratugi, frá 5. október 1954 til 30. september 2005. Mestan hluta starfsævi sinnar hjá Varnarliðinu gegndi hann starfi deildarstjóra viðhalds og viðgerða (Maintenance Division Manager) hjá Stofnun verklegara framkvæmda (Public Works Department) sem var stærsta rekstrareining innan Flugflotadeildar Varnarliðsins (U.S. Naval Air Station Keflavik). Í deild þeirri sem Kjartan stjórnaði voru 15 undirdeildir og yfir 100 íslenskir iðnaðarmenn og verkafólk auk nokkurra tuga bandarískra varnarliðsmanna.Kjartan var einstaklega hæfur og áhugasamur stjórnandi og leiðtogi. Háttvísi og virðing fyrir öllum sem hann umgengst voru eiginleikar sem aldrei brugðust. Hann var sérstaklega vakandi yfir velferð starfsmanna sinna en var ávallt á verði sem ábyrgur stjórnandi fyrir hönd vinnuveitanda síns. Hinir bandarísku yfirmenn hans virtu hann mjög mikils og leituðu álits hans og ráða í fjölmörgum málum. Íslenskir og bandarískir starfsmenn hans og aðrir samstarfsmenn hjá Varnarliðinu áttu ætíð einlæg og góð samskipti við hann. Kjartan átti oft erindi við starfsmannahald Varnarliðsins vegna ýmissa starfsmannamála eru upp komu og komu þar oft í ljós einstakir hæfileikar hans til lausnar erfiðra viðfangsefna. Kjartan lét öryggis- og aðbúnaðarmál starfsmanna mjög til sín taka og sótti reglulega fræðslu á því sviði ásamt stjórnendum Öryggissviðs Flotaflugstöðvarinnnar.Ég og eiginkona mín, Berta færum eftirlifandi eiginkonu Kjartans, Ingibjörgu og fjölskyldu þeirra, okkar innilegustu samúðarkveðjur vegna andláts Kjartans. Ég er þess fullviss að fyrrverandi samstarfsmenn hans hjá Varnarliðinu minnast hans allir með söknuði.Blessuð sé minning Kjartans JónssonarGuðni Jónsson, fyrrv. starfsmannastjóri Varnarliðsins

Guðni Jónsson