Guðrún Ólafsdóttir fæddist á Hesti í Hestfirði 24. september 1917. Hún lést á Hrafnistu í Reykjavík 13. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru María Rögnvaldsdóttir, f. á Svarfhóli í Súðavíkurhreppi 13. janúar 1891, d. 19. október 1989 og Hálfdán Ólafur Hálfdánsson, f. á Hvítanesi í Ögurhreppi 4. ágúst 1898, d. 26. mars 1973. Systkin Guðrúnar eru Ósk, f. 11. mars 1916, Einar og Karitas, f. 26. mars 1919, Karitas d. á fyrsta ári, Kristín og Rögnvaldur, f. 17. október 1920, Rögnvaldur d. 3. sept. 1963. Kristín d. 25.2. 2009. Lilja og Fjóla fæddar 10. júní 1922, Jónatan, f. 24. janúar 1925, Helga Svana og Hálfdán, f. 3. ágúst 1926, Hálfdán d. 19. febrúar 1999, Halldóra og Haukur, f. 5. júní 1928, María og Ólafur Daði, f. 16. janúar 1932, og Ólafur Daði d. 16. febrúar 1992. Fóstursonur Ármann Leifsson, f. 5. október 1937 d. 5. maí 2006. Guðrún flutti til Bolungarvíkur með foreldrum sínum og systkinum um 1930. Upp úr 1940 flutti hún til Reykjavíkur og vann við saumaskap, aðallega kjólasaum þar til hún flutti aftur vestur, en þar fæddist elsti sonur hennar. Guðrún giftist 1953 Magnúsi Þórðarsyni, f. 19. apríl 1929, d. 5. apríl 2001. Þau skildu. Þau bjuggu fyrstu árin í Bolungarvík, en fluttu 1956 til Neskaupstaðar. Haustið 1959 fluttu þau suður og bjuggu lengst af í Hlíðunum í Reykjavík. Síðustu áratugina vann Guðrún við saumaskap bæði hjá versluninni Elísu og síðar á Hrafnistu. Eftir skilnað við Magnús hélt hún heimili með bróður sínum Einari þar til þau fluttust bæði að Hrafnistu í Reykjavík árið 2005. Börn Guðrúnar eru: 1) Reynir Hlíðar Jóhannsson, f. 6. nóv. 1946. Maki Þóra Pétursdóttir, f. 2. júlí 1949. Börn þeirra eru a) Jóhanna, f. 22. ágúst 1966, maki Hallur Arnarsson, f. 8. nóv. 1959. Börn þeirra eru Arnar Þór, Styrkár, Þóra Silja og Natalía. b) Guðrún Björk, f. 19. janúar 1973, maki Sigurður Jóhannesson, f. 19. nóv. 1972. Börn þeirra eru Reynir, Freyja og Þórey Hanna. c) Einar Daði, f. 22. janúar 1978. 2) Þórður Magnússon, f. 21. nóv. 1954. Maki Erla Magnúsdóttir (skilin). Börn þeirra eru Nína, f. 14. okt. 1986, d. sama dag, Hjalti, f. 18. júlí 1989, og Bjarki, f. 4. febrúar 1994. 3) Ólafur Már Magnússon, f. 20. desember 1955. Maki Erna Kristín Ágústsdóttir, f. 20. nóvember 1952. Börn Ernu eru a) Ásta Valdimarsdóttir, maki Guðmundur Sigurðsson. Börn þeirra eru Tanja Dögg, Eydís Erna og Atli Dagur. b) Jón Ágúst Valdimarsson, maki Dóra Ragnarsdóttir. Börn þeirra eru Anton Darri, Telma Dröfn og Karen Brá. 4) Gunnar Magnússon, f. 7. janúar 1959. Maki Eygló Pálsdóttir, f. 19. nóvember 1958. Dætur þeirra eru Elísa Hrund, f. 11. apríl 1986 og María Rún, f. 17. mars 1996. Útför Guðrúnar fer fram frá Garðakirkju á Álftanesi í dag og hefst athöfnin kl. 13.

Nú hefur Guðrún vinkona mín kvatt eftir stranga sjúkdómsbaráttu síðustu vikurnar. Hún var einn af þessum sterku stofnum sem komu að vestan, hún kom frá Bolungarvík. Stóð á meðan stætt var, ekki að kvarta en tók öllu með stillingu. Var næstelst af 15 systkinum. Sex sinnum komu tvíburar svo það hefur snemma þurft að taka til hendi.

Kynni okkar hófust er ég var nágrannakona hennar. Hitti hana stundum úti við og hún bauð mér heim. Það var notalegt að setjast niður í eldhúsinu hennar. Ekki var það kaffisopinn sem heillaði mig heldur var það persónan sjálf. Hún hafði svo góða nærveru og var alltaf svo jákvæð. Aldrei talað illt um neinn en hún sagði mér stundum frá sínum unglingsárum.

Það var alltaf margt um manninn hjá henni, enda fjölskyldan stór. Komu bæði ungir sem aldnir í heimsókn og allir velkomnir. Einn var að koma þá annar fór.

Guðrún var glæsileg kona með fallegt liðað hár, afar snyrtileg í klæðaburði og með mikla útgeislun. Hún menntaði sig í kjólasaumi og vann á saumastofunni Elísu í mörg ár. En síðustu starfsárin vann hún á saumastofunni á Hrafnistu í Reykjavík. Því var vel við hæfi að hún flytti á Hrafnistu þegar kraftar hennar dvínuðu. Bróðir hennar Einar flutti þangað einnig en þau höfðu búið saman í mörg ár. Þeim leið vel á nýja heimilinu og vel um þau hugsað. Ég heimsótti hana stundum en kannski ekki nógu oft.

Síðast þegar ég kom til hennar var töluvert af henni dregið, sagðist ætla fram í kaffi, því hún hafði göngugrindina sína og og þú kemur með. Það blundaði með henni gestrisnin þó lasin væri.

Spaugilegt atvik kemur upp í hugann er ég hugsa til Guðrúnar. Hún bað mig að fara með sér upp í Sunnubúð sem var sjálfsagt. Hún var með göngugrindina sína og við fórum á gönguljósunum því þarna var mikil umferð og hröð áður en götunni var breytt með hámarkshraða. Þegar búið var að versla stökk ég af stað að kveikja gönguljósin og kalla í hana. Nei ég fer bara hér sagði hún sem var reyndar stysta leiðin en jafnframt miklu hættulegri. Þarna brunaði hún áfram hátt á níræðisaldri en ég mörgum árum yngri rölti í humátt á eftir henni. Myndi hún muna eftir að líta til beggja hliða eða yrði hún kannski fyrir bíl? hugsaði ég. Mér fannst öll ábyrgðin hvíla á mér en hún gleymdi engu og komst yfir götuna en ég var ósköp fegin og tók gleði mína á ný. Svona var hún Guðrún mín: Ekki hika neitt eða fara krókaleiðir, enda komst hún áfram. Varð snemma einstæð móðir og þurfti snemma að axla ábyrgð. Aldrei ræddum við einkamálin en hún gladdist með mér er ég sagði henni frá nýfæddu barnabarni mínu, því þriðja í röðinni.

Fjölskylda Guðrúnar var dugleg að heimsækja hana á Hrafnistu. Ég vona að ekki sé á neinn hallað þó ég segi að elsti sonurinn hafi verið þar hlutskarpastur.

Sárt er nú fyrir Einar að sjá á eftir systur sinni þar sem þau bjuggu svo lengi saman og nú síðast á Hrafnistu. En Guðrún sagði mér að Einar ætti vin sem heimsækti hann öðru hvoru og keyrði hann um alla ganga en Einar er kominn í hjólastól. Hún blessaði mikið þennan mann, hversu góður hann væri við Einar. Svo gleymir fjölskyldan honum ekki.

Ég þakka Guðrúnu allar okkar samverustundir. Minningin lifir og brosið hennar Guðrúnar gleymist ekki. Gengin er kona sem einskis krafðist af öðrum, en þess meira af sjálfri sér. Guð blessi minningu Guðrúnar Ólafsdóttur.

Yndislega ættarjörð,
ástarkveðju heyr þú mína,
þakkarklökkva kveðjugjörð,
kveð ég líf þitt, móðir jörð.
Móðir bæði mild og hörð
mig þú tak í arma þína.
Yndislega ættarjörð,
ástarkveðju heyr þú mína.
(Sigurður Jónsson frá Arnarvatni.)

Elín Sóley Kristinsdóttir.