Snjólaug Guðrún Eiríksdóttir Shoemaker fæddist í Reykjavík 26.nóvember 1935. Hún lést í Concord, Kaliforníu 22. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Eiríkur Jónsson, trésmíðameistari frá Klifshaga í Norður-Þingeyjarsýslu f. 18. febrúar 1896, d. 21.nóvember 1980 og Snjólaug Guðrún Jóhannesdóttir frá Laxamýri í Suður-Þingeyjarsýslu f. 13. desember 1903, d. 11. mars 1957. Systkini Snjólaugar eru Jóhannes Þórir f. 6. ágúst 1930, d. 12.nóvember 1973, Rósa Jóna f. 29. október 1931 og Sturla f. 21.október 1933. 17. ágúst 1959 giftist Snjólaug William H. Shoemaker Sgt. Major í Bandaríkjaher f.11. júní 1927. Foreldrar hans voru Winifred og Art Shoemaker. Dóttir Snjólaugar og Williams Shoemaker er Linda Susan f. 17.júní 1963. Hún er gift William Haskins fasteignasala. Snjólaug hóf ballettnám hjá Sigríði Ármann og Ellý Þorláksson, en fór síðan til Kaupmannahafnar og hélt áfram námi í ballettskóla Frú Fransen og lauk þaðan prófi. Eftir lærdómsríka dvöl í Kaupmannahöfn þar sem hún tók þátt í listviðburðum, kom hún heim á ný og stofnaði sinn eiginn ballettskóla, sem hún rak í nokkur ár. Eftir það flutti hún af landi brott, og fylgdi manni sínum í starfi hans víða um heim uns þau settust að í Concord, Californíu. Listdansinn skipaði þó alltaf stóran sess í lífi Snjólaugar og sinnti hún kennslu af og til, þegar tækifæri gafst. Minningarathöfn um Snjólaugu verður í Fossvogskapellu í dag 23. mars og hefst hún kl 13.

Mér snarbrá. Dollý frænka mín hætt að njóta tilverunnar með okkur. Þessi fjörkálfur, sem í æsku var léttust og liprust af öllum. Gat farið afturfyrir sig og þannig í gegnum sjálfa sig og horft á heiminn frá hælunum á sér! Og dansað gat hún eins og engill, enda fór hún til náms í ballet. Þar var Erik Bidsted henni innan handar eins og svo mörgum Íslendingum, sem vildu leggja stund á þá listgrein. Reyndar fengum við áhorfendur ekki að njóta listar hennar sem skyldi vegna vanheilsu, sem hún barðist við og dró úr henni þá orku sem dansinn krafðist.

Samt man ég aldrei eftir henni nema kátri og dúndrandi af húmor og hlátri.

Með þessum fátæklegu orðum en fallegum minningum sendum við Erna samúðarkveðjur okkar til Williams, Lindu og hennar fjölskyldu, sem og til eftirlifandi systkina Dollýar, Rósu og Sturlu og þeirra fjölskyldna.


Benedikt Árnason.