Jón Arason Valdimarsson fæddist í Vestmannaeyjum 5. febrúar 1922. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Garðvangi í Garði 30. júní síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Valdimar Gíslason múrarameistari, f. 6.7. 1895, d. 17.7. 1968, og Helga Jónsdóttir húsmóðir, f. 23.4. 1894, d. 18.8. 1965. Þau bjuggu á Faxabraut 32 í Keflavík. Systur Jóns voru: Guðrún Kristín, f. 22.5. 1915, d. 11.3. 1983, Gíslína Valdís, f. 21.2. 1928, d. 29.12. 1966 og Kolbrún, f. 5. 12. 1935, d. 19.10. 2007. Jón kvæntist 1.6. 1945, Guðrúnu Sigurðardóttur, Dúru, f. 28.4. 1925, d. 18.6. 2004. Börn: 1) Helgi Valdimar, f. 1.3. 1946, d. 13.6. 1968, maki Dröfn Pétursdóttir, f. 1.9. 1946. Þau eiga tvö börn. 2) Sigurbjörg, f. 9.8. 1950, maki Viðar Már Pétursson, f. 11.1. 1944. Vogum. Þau eiga þrjú börn. 3) Ásdís, f. 26.3. 1955, maki Donald Schultz, f. 9.6. 1951, Michigan, Bandaríkjunum, hún á tvö börn með fyrri manni. 4) Guðbjörg, f. 9.3. 1958, maki Þórður Ragnarsson, f. 22.1. 1955, Keflavík. Þau eiga þrjú börn. Fóstursonur Bjarni Valtýsson, f. 25.6. 1943, maki Esther Ólafsdóttir, f. 10.5. 1945, d. 23.9. 1994, þau áttu tvö börn og Esther átti eina dóttur fyrir. Sambýliskona Bjarna er Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, f. 12.8. 1944, Reykjavík. Barnabörnin eru 15 og barnabarnabörnin 31. Jón fæddist í húsinu Brekku (gömlu Brekku) við Bárustíg 4 í Vestmannaeyjum en flutti með foreldrum sínum um 18 ára aldur til Sandgerðis og síðan 1941 til Keflavíkur. Jón gekk í barnaskólann í Vestmannaeyjum frá 9 ára til 14 ára, haustið 1936 í Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja en varð að hætta, komst í kvöldskóla Iðnskólans í Vestmannaeyjum árið 1938 og var í Iðnskólanum í Keflavík 1945-1948. Jón átti og rak Vélsmiðjuna Smiðjan sf. frá 1951-1964, var með fiskverkun í 1 ár, hefur unnið í nokkrum vélsmiðjum, þar á meðal Vélsmiðju Njarðvíkur frá 1969-1977. Hann kenndi grunnteikningu í Iðnskólanum í Keflavík, var kennari við Fjölbrautarskóla Suðurnesja frá 1977-1988, aðstoðarhúsvörður hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, gegndi starfi sem prófnefndarmaður málmiðnaðarmanna frá 1964, prófdómari frá 1969, skoðunarmaður Vélbátatrygginga Reykjaness frá 1964, formaður Iðnsveinafélags Keflavíkur frá 1952-1953, félagsforingi Skátafélagsins Víkverja frá 1957-1964. Hann var félagi í St. Georgsgildinu, ásamt fleiri félagsstörfum. Útför Jóns verður gerð frá Ytri-Njarðvíkurkirkju í dag, 10. júlí kl. 13.

Daginn sem ég fæddist hringdi Pétur bróðir minn í afa sinn til að tilkynna að hann hefði eignast systur. Í leiðinni bað hann afa sinn um að vera afi minn líka, afinn sagði já og þar með var það ákveðið.

Þetta símtal skipti mig miklu seinna í lífinu. Ég fékk líka að upplifa hversu góður afi hann var og hann var stór hluti af lífi mínu.

Þetta var aðeins upphafið á okkar afasögu sem varð góð og mikið lengri.

Elsku afi, takk fyrir að vilja vera afi minn og segja já.

Þú gafst mér mikið sem barni sem hefur fylgt mér og mun alltaf fylgja mér.

Takk elsku afi, takk.

Pála Pálsdóttir

Jæja elsku afi minn, þá er komið að kveðjustundinni. Þegar ég hugsa um þig streyma fram minningar. Þið amma að heimsækja okkur norður og tilhlökkunin sem fylgdi því alltaf. Andrés blöðin sem við geymdum og biðum spennt eftir að þú kæmir og læsir fyrir okkur systkinin, seinna last þú skrípó fyrir mín börn og þau voru jafnspennt.

Þú að stússa í eldhúsinu eða að leiðbeina mér í gegnum síma þegar ég gerði plokkfisk. Ég á minningar um afa sem keypti fjölskyldukók, söng óskalög og blístraði þegar við vorum á rúntinum. Dansaði með kaffibolla í hendinni við unglinga tónlist á hverjum tíma eða dansaði við mig gömlu dansana.

Það eru bara tvö ár síðan þú komst keyrandi úr Keflavík og sóttir mig í vinnuna, því þú fréttir að ég væri bíllaus. Þannig varst þú, vildir allt fyrir alla gera og ávallt viðbúinn, skáti í hjarta þínu. Afi minn takk fyrir allt og skilaðu kveðju til þeirra sem bíða þín á næsta áfangastað.

Helga Helgadóttir