Yngvi Jónsson fæddist á Fossi í Nauteyrarhreppi við Ísafjarðardjúp 22. febrúar 1930. Hann lést á heimili sínu 28. október sl. Foreldrar hans voru Aðalheiður Soffía Bjarnadóttir og Jón Erlendur Jónsson. Yngvi var fóstraður af Jóni Fjalldal á Melgraseyri frá 9 ára aldri. Systkini Yngva á lífi eru Guðvarður, Sigurbjörg og Guðbjörn. Látin eru Þorgerður, Gunnjóna Fanney, Svavar, Hjörleifur og Hreiðar. Yngvi kvæntist 25. október 1952 Katrínu Árnadóttur frá Skógum í Öxarfirði, f. 27. september 1932. Foreldar hennar voru Sigríður Guðmundsdóttir og Árni Gunnarsson. Börn Yngva og Katrínar eru: 1) Árni Þór, f. 30. september 1951, d. 12. febrúar 1986. Kona hans Bjarney Jóna Valgeirsdóttir, f. 25. júlí 1950. Sonur þeirra er Valgeir Yngvi, f. 28. ágúst 1973, maki Rósa Gunnarsdóttir, f. 7. apríl 1979, sonur þeirra er Viggó. Stjúpdóttir Árna og dóttir Bjarneyjar er Fanney Jóna Gísladóttir, f. 14. október 1982, börn hennar eru Ragnar Björn og Gísli Valgeir. 2) Gunnar Már, f. 7. apríl 1953, kona hans Ásta Pálína Stefánsdóttir, f. 25. apríl 1959. Börn þeirra eru a) Sara Rut, f. 11. mars 1980, dóttir hennar er Birgitta Rún, og b) Davíð Már, f. 17. febrúar 1989, unnusta Dagbjört Kristín Helgadóttir, f. 6. nóvember 1992. 3) Sigríður, f. 11. janúar 1955, börn hennar eru a) Ellen Mörk Björnsdóttir, f. 26. ágúst 1973, maki Magnús Vignir Eðvaldsson, f. 12. maí 1976, börn þeirra eru Daníel Ingi, Ásdís Aþena og Valdís Freyja, b) Garðar Þórisson, f. 23. apríl 1980, og c) Sæþór Kristjánsson, f. 29. mars 1990. 4) Hrefna, f. 19. desember 1958, börn hennar eru a) Yngvi Jón Rafnsson, f. 29. október 1978, maki Sigrún Sigurðardóttir, 26. október 1980, dóttir þeirra Emilía Sól, b) Heiða Rafnsdóttir, f. 10. nóvember 1980, maki Baldur Fannar Halldórsson, f. 7. apríl 1979, börn þeirra, Alexander Breki, Katrín Ýr og Olgeir Aron, c) Rafn Rafnsson, f. 30. júlí 1982, maki Sigríður Maggý Árnadóttir, f. 18. desember 1983, dóttir þeirra Ragnheiður Júlía, og d) Árni Þór Rafnsson, f. 14. nóvember 1986. Yngvi útskrifaðist sem garðyrkjufræðingur frá Garðyrkjuskóla ríkisins og starfaði í þeirri grein á yngri árum en einnig vann hann ýmis önnur störf. Lengst af starfaði hann sem bílstjóri og síðar sem verkstjóri hjá flutningadeild Varnarliðsins. Yngva voru falin ýmis trúnaðarstörf fyrir Verkstjórafélag Suðurnesja og Verkstjórasamband Íslands og var hann heiðursfélagi hjá þeim báðum. Útför Yngva fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 5. nóvember 2009, kl. 13.

Stundum eru góðir vinir eins og gamlar bækur, maður ætlar að taka þær úr hillunni þegar maður má vera að.

Yngvi föðurbróðir okkar er látinn og við minnumst hans sem góðs frænda. Foreldrar okkar og þau hjónin, Yngvi og Kata, giftu sig saman fyrsta vetrardag árið 1952 og létu einnig skíra frumburðina sína þennan dag. Í marga áratugi héldu þau saman upp á þennan merka dag. Það var alltaf kært þeirra á milli þessara fjölskyldna. Alltaf var gaman þegar Yngvi frændi var í heimsókn hjá okkur og nokkrum sinnum hafa bæði börn og barnabörn tekið feil á honum og  pabba okkar, þeir voru svo líkir bæði í útliti og málrómi. Margar voru heimsóknirnar til Yngva og Kötu og alltaf var höfðinglega tekið á móti okkur. Minningar okkar um góðan frænda eru fyrst og fremst hvað það var stutt í brosið hans sem bræddi alla og það var alltaf stutt í glensið hjá honum.  Ekki þótti okkur minna spennandi að Yngvi skyldi vinna á Vellinum, það var eitthvað svo útlenskt. Níu ár eru síðan að við fórum með fjölskyldunni vestur í Ísafjarðardjúp að Fossi, þar sem við fengum að sjá bæjarstæðið þar sem foreldrar þeirra bræðra bjuggu var það fræðandi ferð fyrir okkur sem yngri erum.

Minning okkar um góðan frænda lifir í hjörtum okkar, og hugur okkar dvelur hjá fjölskyldu hans á þessum erfiðu stundum.

Móðir okkar og mágkona hans, Ósk Bjarnadóttir, þakkar honum samfylgdina í gegnum lífið og sendir fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

Hver minning er dýrmæt perla.

Samúðarkveðjur til ykkar allra.


Bjarnveig Hjörleifsdóttir og Hjördís Hjörleifsdóttir.