17. nóvember 2009 | Bókmenntir | 356 orð | 2 myndir

BÆKUR - Skáldsaga

Ekki algjör sveppur

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BÆKUR – Skáldsaga Paradísarborgin Eftir Óttar M. Norðfjörð. 220 bls. Sögur gefa út. 2009.
Óttar Martin Norðfjörð er afkastamikill rithöfundur, athyglisverður, hugmyndaríkur, seint eintóna. Og nýjasta skáldsaga hans, sú sjötta í röðinni, er lestrarómaksins verð...

Í Paradísarborginni greinir frá einhenta manninum sem er kominn til síns heima, í borg á norðlægri eyju, eftir útlandsdvöl. Hann hefur aðsetur á heimili móður sinnar. Heimkoman er ekki af góðu, faðir hans, arkitektinn með alpahúfuna (sbr. ævisöguna Arkitektinn með alpahúfuna) er látinn. Sjö mánuðum síðar er einhenti maðurinn enn í borginni og hefur tekið að sér það verkefni, ásamt eldri bróður sínum, að gera kjallara hússins íveruhæfan fyrir móður sína. Við þá iðju rekast þeir á sveppinn Coccidioides kaputis og tilheyrandi fúkkalykt. Sveppurinn reynist óværa hin mesta og breiðir úr sér um borg og bý...

Samkvæmt kokkabókum telst daunillur myglusveppur plága og hættulegur heilsu manna. Flestir borgarbúar enda þó á öðru máli eða er talið trú um annað af borgaryfirvöldum sem sjá margvísleg sóknarfæri; sveppakrem, sveppalyf... Borgarbúar byrja að leggja sér sveppinn til munns og sveppurinn heltekur þá, veldur hvítum kýlum og skapgerðarbreytingum. Vantrúaðir (sem vilja koma sveppnum fyrir kattarnef), eins og sá einhenti og nágrannakonan, enda hornreka í sveppasýrðu samfélagi. Þetta minnir um margt á kvikmyndir á borð við The Stuff.

Margt er með ágætum. Textanum er sæmilega valdið, en hann er að forminu til ósamtengdur; tengiorðum er sleppt, innskotssetningar eru tíðar og hann er þar af leiðandi í eins konar upptalningarstíl með tilheyrandi kommusplæsingu, líklegast til að skapa textastíganda. Og sú ákvörðun að nafngreina hvorki persónur né staðinn er fín, gefur verkinu ákveðin framandleikablæ, þótt ljóst sé hver fyrirmynd borgarinnar er.

Sagan sem slík er eftirtektarverð og má finna allrahanda tiltölulega augljósar skírskotanir til nýjustu hamfara Íslandssögunnar. En það að afgreiða söguna sem einfalda allegóríu væri einföldun. Hún er fjölbreyttari en svo og mætti vel lagflokka hana. Látum þó nægja að minnast á tvö önnur lög; ástarsögu (milli þess einhenta og nágrannakonunnar) og saknaðar- og uppgjörssögu (föðurmissirinn gerður upp). Það er þó helst til vansa að þetta er dálítið óspennandi og býsna fyrirsjáanlegt og stígandinn sem form textans ætti að hafa í for með sér misferst nokkuð. Sumsé alveg ásættanlegt verk í það heila, ekki algjör sveppur.

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.