Ingunn Anna Hermannsdóttir, húsmóðir, fæddist á Skútustöðum í Mývatnssveit þann 20. ágúst 1921. Hún lést þann 4. janúar 2010. Foreldrar hennar voru Kristín Sigurðardóttir, f. 16.6. 1889 í Pálsgerði, prestfrú á Skútustöðum, Laufási og skólastjórafrú í Laugaskóla, d. 10.11. 1973 og Hermann Hjartarson, f. 1887, d. 1950, prestur og skólastjóri frá Ytra-Álandi í Þistilfirði. Systkini hennar eru: 1) Hallur Hermannsson, skrifstofustjóri, f. 31.5. 1917, d. 1997, fyrri kona hans var Hrefna Eyjólfsdóttir, f. 1921, d. 2002. Seinni kona var Sigurveig Halldórsdóttir, f. 1922, d. 2003. 2) Ingibjörg Hermannsdóttir Dinusson, húsmóðir, f. 22.7. 1918, maki William E. Dinusson, f. 1920, d. 2001. 3) Jóhanna S. Hermannsdóttir, f. 30.5. 1923. 4) Álfhildur Hermannsdóttir, f. 26.5. 1925, d. 6.9. 1934. 5) Þórhallur H. Hermannsson, viðskiptafræðingur, f. 12.11. 1927, maki Sigríður Pálsdóttir, f. 21.2. 1930, d. 24.5. 2007. Maki Ingunnar var Jónas Pálsson, fyrrverandi rektor KHÍ, f. 26.11. 1922 í Beingarði í Hegranesi, Skagafirði, þau skildu. Foreldrar Jónasar eru Páll Björnsson, f. 1881, d. 1965 og Guðný Jónasdóttir, f. 1897, d. 1997. Ingunn Anna og Jónas eignuðust saman 5 börn. Þau eru: 1) Björn Jónasson, verslunarmaður, f. 20.5. 1946. Ættleiddur, faðir hans er Sigurður Pálsson, f. 1922. Maki Guðrún Sigurðardóttir, framhaldsskólakennari, f. 1943, d. 2006, þau skildu. Börn þeirra eru Jónas Páll og Bryndís. 2) Hermann Páll Jónasson, f. 18.11. 1951. 3) Finnbogi Jónasson, verkamaður, f. 20.1. 1953. 4) Gunnar Börkur Jónasson, kennari, f. 17.10. 1955, maki Ingibjörg Dóra Hansen, innanhússarkitekt, f. 23.1. 1955. Börn þeirra eru Hera, Halla og Kári. 5) Kristín Jónasdóttir, skrifstofustjóri, f. 7.2. 1958, maki Ragnar H. Björnsson, rafeindavirki, f. 7.3. 1958, þau skildu. Börn þeirra eru Ingunn Anna og Guðný Ragna. Ingunn Anna eignaðist fjögur langömmubörn. Ingunn Anna ólst upp á prestsetrinu á Skútustöðum í Mývatnssveit og lauk þaðan grunnmenntun. Á Skútustöðum var mjög gestkvæmt og Ingunn tók virkan þátt í heimilishaldinu ásamt foreldrum sínum og systkinum. Hún flutti til Reykjavíkur og lærði saumaskap einn vetur en tók síðan að sér ráðskonustarf í Laugaskóla veturinn 1944–´45 en þar var Hermann faðir hennar skólastjóri. Eftir það flutti hún í stuttan tíma til Akureyrar. Eftir stutta Akureyrardvöl flyst hún ásamt maka og barni til Reykjavíkur og árið 1955 flytja þau til Kópavogs þar sem þau búa óslitið til ársins 1982. Eftir það bjó hún á Kleppsvegi 26. Hún flutti á Hrafnistu árið 2002 þar sem hún lést. Ingunn vann lengst af ævinni við uppeldis- og húsmóðurstörf og vann þau af festu og alúð. Eftir að börnin urðu stálpuð sinnti hún ýmsum öðrum störfum og ber þar hæst störf í prjónaiðnaðinum og rak hún eigin prjónastofu á heimili sínu í mörg ár. Tónlist var alla tíð hennar yndi og nýtti hún flestar frístundir sínar við að hlusta á músík. Einnig vann hún um árabil á dvalarheimilinu fyrir aldraða við Dalbraut við framreiðslu. Útför Ingunnar fer fram frá Langholtskirkju í dag, föstudaginn 15. janúar, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku amma okkar.
Það er sárt að þurfa kveðja þig elsku amma en við vitum í hjörtum okkar að núna líður þér vel og við getum hugsað til þín á góðum stað.  Allar stundirnar sem við áttum saman er það sem við munum geyma og eiga inni hjá okkur þegar eitthvað bjátar á og við þurfum á þér að halda.  Samverustundirnar sem við Ingurnar áttum saman inni í eldhúsi heima hjá þér, þegar ég hafði labbað til þín eftir skólasund, munu ætíð lifa með mér sem og pönnukökubaksturinn sem þú varst farin að kenna mér og leyfa mér að hjálpa til við.  Þú þreyttist aldrei á að spila Olsen Olsen við okkur systurnar eða horfa á eitthvað saman í sjónvarpinu að ógleymdum strætóferðunum okkar niður í bæ og kaffihúsaferðirnar verða ævinlega ógleymanlegar.  Alltaf fengum við systurnar líka að dunda okkur inni í saumaherberginu þínu og skoða prjónavélarnar og þú kipptir þér heldur aldrei upp við það þegar við skoðuðum okkur um og mátuðum allt í fataherberginu góða.  Guðný gleymir því heldur aldrei þegar þú varst alls ekki ánægð með hvað hún setti lítið smjör á flatkökuna, það átti ekki að vera spara smjörið að þínu mati.  Mikilvægast er þó að þú komst alltaf fram við okkur eins og jafningja, alveg frá því ég og síðar Guðný munum eftir stundum okkar saman.  Ég (Inga) gerði mitt besta til að haga mér eftir því, þótt það hafi ekki alltaf tekist.  Þú varst og ert ein stærsta manneskjan í lífi okkar og við erum svo ánægðar og þakklátar fyrir að hafa fengið að alast upp í þinni návist.
Ég mun alltaf bera nafn mitt, Ingunn Anna með stolti og við Guðný munum ætíð geyma minningu þína í hjörtum okkar elsku, elsku amma.


Ingunn Anna og Guðný Ragna Ragnarsdætur