Yngvi Magnús Zophoníasson fæddist á Stórubýlu í Innra-Akraneshreppi 2. ágúst 1924. Hann lést á Hrafnistu í Reykjavík 31. október 2009. Foreldrar hans voru Ingibjörg Gísladóttir frá Hvítanesi í Skilmannahreppi, f. 20. des. 1891, d. 12. mars 1993, og Zophonías Friðrik Sveinsson húsasmiður, f. á Staðarhöfða í Innra-Akraneshreppi, f. 2. sept. 1886, d. 12. sept. 1963. Systkini Yngva sammæðra voru Hallfríður Lára Gunnarsdóttir, f. 17. sept. 1913, d. 25. apríl 1914, Ásta Laufey Gunnarsdóttir, f. 1. sept. 1914, d. 9. apríl 1999, Soffía Friðrikka, f. 6. des. 1919, d. 5. ágúst 1985, Sigurður, f. 8. sept. 1922, d. 6. mars 2006, Kjartan Reynir, f. 20. júlí 1930, og Sveinbjörg, f. 2. ágúst 1931. Yngvi kvæntist 10. okt. 1948 Ólínu Jóhönnu Valdimarsdóttur, f. 14. feb. 1930, þau skildu. Sambýliskona hans 2004-2008 var Kristín Jónína Sigurjónsdóttir, f. 23. júlí 1932. Yngvi og Jóhanna eignuðust fjögur börn, þau eru: 1) Guðrún Björt, f. 13. maí 1948, gift Jóni Bjarna Þorsteinssyni, f. 30. sept. 1948. Börn þeirra: Þorsteinn Yngvi, f. 4. júní 1975, kvæntur Gerði Guðmundsdóttur, f. 6. apríl 1971. Dóttir þeirra er Telma Guðrún, f. 11. des. 2008. Dætur Gerðar; Aðalheiður Ósk Magnúsdóttir, f. 2. maí 1990, og Viktoría Ósk Arnardóttir, f. 28. sept. 1994. Ingibjörg Hanna, f. 3. des. 1976, gift Emil Þór Vigfússyni, f. 14. feb. 1974. Synir þeirra: Tómas Nói, f. 21. jan. 2003, og Jón Bjarni, f. 18. des. 2006. 2) Valdimar Borgþór, f. 26. jan. 1952, d. 29. ágúst 1953. 3) Borgþór, f. 3. mars 1955, kvæntur Svanhildi Sigurðardóttur, f. 2. des. 1957. Synir þeirra: Yngvi Magnús, f. 26. mars 1975, og Ólafur Jóhann, f. 15. júní 1981 sambýliskona Guðbjörg Sigríður Hauksdóttir. 4) Hafþór Yngvason, f. 8. maí 1957, kvæntur Söruh Brownsberger, f. 14. apríl 1959. Dætur þeirra: Sólrún Droplaug, f. 26. júní 1985, gift Ólafi Má Jónssyni, f. 19. mars 1985. Sonur þeirra Jón Þór Ólafsson, f. 18. maí 2008. Bryndís Lillian, f. 4. sept.1990. Yngvi stundaði nám við héraðsskólann í Reykholti á árunum 1942-1944. Hann lauk sveinsprófi í húsgagnasmíði við Iðnskólann í Reykjavík 1949 og meistaraprófi 1953. Hann vann við smíðar til starfsloka að undanskildum 5 árum er hann var á millilandaskipum, sem timburmaður. Hann vann lengi á trésmíðaverkstæðinu Silfurtúni, var með eigin rekstur, vann hjá Ármannsfelli og á Líkkistuvinnustofu Eyvindar Árnasonar. Yngvi hafði yndi af tónlist og söng með kórum á yngri árum. Hann var félagi í „Ljóð og saga“ og í félögum og klúbbum sem tengdust útivist og fjallgöngum. Yngvi bjó í Innra-Akraneshreppi til 1944, en þá flutti hann til Reykjavíkur og bjó á höfuðborgarsvæðinu allar götur síðan, að undanskildum 5 árum, þegar hann bjó í Grundarfirði. Síðustu tvö árin bjó hann á Hrafnistu í Reykjavík. Útför Yngva fer fram frá Garðakirkju í dag, 5. nóvember, kl. 11. Jarðsett verður í Garðakirkjugarði.

Mig langar að minnast sambýlismanns míns, Yngva Magnúsar Zophoníassonar, með nokkrum orðum. Um hann væri hægt að skrifa heila sögu en til þess er ég ekki nógu góður penni.

Við kynntumst í júlí 2002, það tókust með okkur góð kynni sem varð svo að meiri vináttu og væntumþykju. Yngvi var yndislegur maður, þægilegur og ljúfur í daglegri umgengi en gat þó verið mjög ákveðinn og jafnvel þrjóskur. Ég hafði flutt vestur á Grundarfjörð árið 2000 og keypt mér yndislega íbúð en gallinn var sá að það voru mjög háar tröppur upp til mín. Það endaði þannig að fæturnir eiginlega neituðu að koma mér upp og niður tröppurnar. Þá var ekki um annað að ræða en að selja og sækja um á dvalarheimilinu Fellaskjóli. Á þeim tímapunkti var Yngvi kominn þangað. Fyrst vorum við í sitthvoru herberginu, en seinna bauðst okkur hjónaíbúð, sem við þáðum og gerðum okkur þar indælis heimili. Þar leið okkur báðum mjög vel og vorum ánægð. Yngvi kunni einstaklega vel við sig og var hann hress. Ég man þegar ég var að horfa á eftir honum, fara út í göngutúr, þá var ekki hægt að ímynda sér að það væri gamall maður á ferð, allar hreyfingar voru eins og hjá ungum manni. Þessi ár voru þau bestu hjá okkur. Við fórum mikið í ferðalög, leigðum okkur sumarbústaði, þá gat ég líka keyrt bílinn svo við hvíldum hvort annað við keyrsluna. Þetta voru yndislegir tímar og að vera á Fellaskjóli var það besta. Kannski var okkar mesti feill að fara þaðan en þrátt fyrir það ákváðum við að fara suður. Okkur var hjálpað að finna samastað hér í bæ. Smátt og smátt fór að halla undan fæti, ég átti bágt með að vera þarna. Það hentaði mér illa en Yngvi kunni vel við sig og vissi að hann var í öryggi. Endaði þetta þannig að ég fór en allt var þetta í góðu sem betur fer. Vorum við áfram bestu vinir, töluðum saman í síma daglega. Hann kom mjög oft til mín. Í síðasta sinn heyrði ég í honum rétt áður en hörmungin dundi yfir.  Hringdi hann til mín um hádegisbil og sagði mér að nú væri verið að gera hreint hjá sér, sagði hann mannin hafa skroppið frá en kæmi aftur til að klára. Öll vitum við hvað skeði. Þetta var svo slæmt að það var ekkert líf. Kannski var það eina sem maður gat, var að biðja guð um að leysa hann frá þessum hörmungum en svo þegar það skeður, þá er allt svo tómt og sárt. Meðan leynist líf þá er maður náttúrulega að vonast til að kraftaverkið muni ske og það komi bati smátt og smátt. Nú er að sætta sig við orðinn hlut og reyna að horfa fram á veginn.

Nú taka við nýir tímar hjá þér, eins og þú trúðir svo vel. Nú ertu vonandi búinn að hitta þá sem farnir voru sem þér þótti vænt um og þinn elskulega son.

Ég sakna þín vinur minn.

Elsku Yngvi minn ég bið Guð að varðveita þig og blessa.

Þín fv. sambýliskona,

Kristín Jónína.