Tómas Jóhannesson
Tómas Jóhannesson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Tómas Jóhannesson og Halldór Björnsson: "Almennt samkomulag er meðal veðurfræðinga og vísindamanna á sviði veðurfarsrannsókna um að jörð sé að hlýna vegna vaxandi gróðurhúsaáhrifa."

Í TENGSLUM við loftslagsþingið í Kaupmannahöfn í desembermánuði síðastliðnum hafa farið fram miklar umræður um hlýnun jarðar og sýnist sitt hverjum. Í viðræðum samningamanna og þjóðarleiðtoga á loftslagsþinginu var almennt gengið út frá því að hlýnun jarðar sé staðreynd sem bregðast þurfi við og spár vísindamanna eru notaðar sem viðmið þegar rætt er um aðgerðir til þess að aðlagast óumflýjanlegri hlýnun og draga úr hlýnun eftir því sem unnt er.

Í umræðunni hafa komið fram fullyrðingar um að kenningar um hlýnun loftslags séu byggðar á ýkjum og jafnvel á víðtæku samsæri vísindamanna og umhverfisverndarsinna. Erfitt er fyrir almenning að átta sig á því hvað er satt og logið í þessari umræðu vegna þess að ýmsir fréttamenn, álitsgjafar og vísindamenn hafa sent frá sér ummæli sem stangast á. Fulltrúar beggja sjónarmiða í þessari umræðu hafa jafnframt ásakað andstæðinga sína um að stjórnast af annarlegum hvötum og blekkja almenning og stjórnvöld.

Hér verður ekki plássins vegna farið út í rekja fréttir af stolnum tölvupósti frá loftslagsrannsóknarstofnun í Bretlandi eða mistök í umfjöllun um Himalajajökla í síðustu skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC) um loftslagsbreytingar en látið duga að fullyrða að þessar fréttir eru fjarri því að vera tilefni til ályktana um víðtækt samsæri vísindamanna né heldur gefa þær til kynna að gögn um hlýnun loftslags frá veðurstofum eða rannsóknarstofnunum séu röng eða misvísandi. Hins vegar viljum við koma á framfæri nokkrum staðreyndum um loftslag og loftslagsbreytingar sem almennt samkomulag er um meðal veðurfræðinga og vísindamanna á sviði veðurfarsrannsókna.

Nokkrar staðreyndir um gróðurhúsaáhrif og hlýnun jarðar:

1. Náttúruleg gróðurhúsaáhrif í lofthjúpi jarðar hafa áhrif á loftslag . Um þetta atriði er enginn ágreiningur meðal vísindamanna.

2. Koltvísýringur og ýmsar aðrar lofttegundir sem eru í litlu magni í lofthjúpnum valda hluta af gróðurhúsaáhrifunum . Fjölmargar mælingar á jörðu niðri og úr gervihnöttum á braut um jörðu sýna þetta óyggjandi.

3. Styrkur gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum hefur aukist verulega vegna losunar mannsins . CO 2 hefur aukist um 35-40%, CH 4 hefur meira en tvöfaldast, N 2 O hefur aukist um 15%, O 3 í veðrahvolfinu hefur einnig aukist svo og nokkrar aðrar lofttegundir sem valda gróðurhúsaáhrifum í lofthjúpnum.

4. Auðvelt er að meta breytingar í geislunarbúskap sem leiða af auknum styrk gróðurhúsalofttegunda .

Talið er að tvöföldun á styrk CO 2 leiði til aukningar á geislun til yfirborðs upp á um 4 W/m 2 . Heildarbreyting á geislunarbúskap af völdum aukins styrks gróðurhúsalofttegundanna, sem nefndar voru í lið 3, frá því fyrir iðnbyltingu er nú um 3 W/m 2 . Nettóbreytingin (að teknu tilliti til kælandi endurkasts frá ögnum í lofthjúpnum og nokkurra annarra þátta) er um 1,5 W/m 2 .

5. Næmi loftslags gagnvart geislunarbreytingu sem samsvarar tvöföldun í styrk CO 2 er metin um 3°C. Næmi loftslags er breyting í meðalhita jarðar þegar jafnvægi er náð af völdum breytingar í geislunarbúskap. Hún er talin liggja á bilinu 2-4,5ºC, besta mat er 3°C.

6. Meta má loftslagsbreytingu með því að margfalda saman breytingu á geislunarbúskap og næmi loftslags . Sú breyting á geislunarbúskap sem nú er orðin samsvarar meðalhlýnun upp á 1,2ºC þegar nýju hitajafnvægi er náð. Þessi hitabreyting er ekki að fullu orðin sökum þess að höfin eru lengi að ná hitajafnvægi. Hluti hlýnunar af völdum gróðurhúsalofttegunda sem þegar hafa verið losaðar upp í andrúmsloftið á þannig eftir að koma fram þótt styrkur gróðurhúsalofttegunda breytist ekki umfram það sem orðið er. Þessi óorðna hlýnun sem mannkynið „á inni“ er talin um 0,5ºC. Ef ekki verður gripið til aðgerða til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið er talið að hlýna kunni um 3 til 5ºC til viðbótar þegar öll áhrif losunar sem vænta má á þessari öld eru fram komin.

Ekkert bendir til þess að ofangreindar staðreyndir verði dregnar í efa með rökum sem samræmast almennri vísindalegri þekkingu á eðlis- og veðurfræði. Allt bendir til þess að loftslag jarðarinnar breytist nú hratt af völdum þeirrar losunar mannkyns á gróðurhúsalofttegundum sem þegar er orðin. Ekki þarf annað en að fylgjast með hörfun jökla hérlendis og á fjölmörgum öðrum stöðum til þess að sannfærast um það að hlýnunin er ekki bara fræðileg umræða á þingum og í fjölmiðlum heldur áþreifanleg þróun sem þegar hefur mikil áhrif á náttúrufar. Fréttirnar sem að ofan voru nefndar og hafa verið ofarlega á baugi í fjölmiðlum að undanförnu breyta engu um þau meginatriði sem hér hafa verið rakin. Á þessum staðreyndum þarf að byggja umræður um loftslagsbreytingar og pólitísk viðbrögð við þeim.

Ýtarlegri útgáfu af þessari grein er að finna á vef Morgunblaðsins (www.mbl.is/greinar) og vef Veðurstofu Íslands (http://www.vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/1805).

www.mbl.is/greinar

Höfundar eru jarðeðlisfræðingar á Veðurstofu Íslands og hafa setið í vísindanefndum umhverfisráðuneytisins um loftslagsbreytingar.