Frysting Einn mannanna fimm sem leituðu til hæstaréttar Bretlands.
Frysting Einn mannanna fimm sem leituðu til hæstaréttar Bretlands.
HÆSTIRÉTTUR Bretlands hefur úrskurðað að sérstök fyrirmæli breska fjármálaráðuneytisins um frystingu eigna meintra hryðjuverkamanna séu ólögleg.

HÆSTIRÉTTUR Bretlands hefur úrskurðað að sérstök fyrirmæli breska fjármálaráðuneytisins um frystingu eigna meintra hryðjuverkamanna séu ólögleg.

Dómarar réttarins komust að þeirri niðurstöðu að breska ríkisstjórnin hefði farið út fyrir valdsvið sitt með því að frysta eignir fimm manna sem eru grunaðir um aðild að hryðjuverkastarfsemi. Stjórnin hefði átt að óska eftir samþykki þingsins fyrir frystingarreglum ráðuneytisins í stað þess að setja þær sjálfkrafa.

Mennirnir fimm, sem skutu málinu til hæstaréttar, hafa yfirleitt aðeins fengið 10 pund (rúmar 2.000 krónur) á viku og þurft að fá sérstaka heimild frá fjármálaráðuneytinu til að fá peninga fyrir öðrum útgjöldum.

Dómstóllinn veitti stjórninni mánaðarfrest til að breyta lögunum þannig að hægt yrði að frysta eignirnar með löglegum hætti. Þangað til verða eignir fimmmenninganna áfram frystar, að því er fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins, BBC .

Dómararnir sögðu að ef stjórnin vildi grípa til „víðtækra aðgerða“ í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi þyrfti hún að fá samþykki þingsins.

Gordon Brown frysti eignir mannanna með tveimur tilskipunum árið 2006 þegar hann var fjármálaráðherra. Tilskipanirnar voru gefnar út á grundvelli laga sem sett voru til að koma ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í framkvæmd. Báðar tilskipanirnar urðu hluti af breskum lögum án umræðu á þinginu, að sögn fréttavefjar BBC .