Seðlabankinn hefur lækkað stýrivexti sína og þarf ekki að koma á óvart. Endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og vaxtalækkunarferli bankans voru tafin með pólitískri aðför minnihlutastjórnarinnar sl. vor.

Seðlabankinn hefur lækkað stýrivexti sína og þarf ekki að koma á óvart. Endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og vaxtalækkunarferli bankans voru tafin með pólitískri aðför minnihlutastjórnarinnar sl. vor. Hafa fyrirtækin og almenningur í landinu tapað stórkostlegum fjárhæðum vegna þessa, eins og augljóst er.

Vaxtalækkunin nú er jákvæð, þótt hún sé síðbúin meðal annars af framangreindum ástæðum. En það er annað sem er mikið umhugsunarefni við þessa vaxtalækkun og rökstuðninginn fyrir henni. Á nokkrum undanförnum vikum og mánuðum hefur Seðlabankinn margoft gengið erinda ríkisstjórnarinnar í svonefndu Icesave-máli og verið sá sem helst hefur séð um að mála skrattann á vegginn. Nú síðast um áramótin. Þá var því lýst að Seðlabankinn hefði blessað hryllilegar hrakspár ríkisstjórnarinnar, sem forsetanum voru sendar, um hvað myndi gerast ef Icesave yrði ekki afgreitt tafarlaust. Þá var sagt að gengið myndi bila, verðbólga aukast og vaxtalækkunarferlið stöðvast. Hagfræðingar bættu reyndar um betur og sögðu að ekki kæmi á óvart þótt vextir yrðu hækkaðir ef Icesave yrði ekki staðfest. Nú segir Seðlabankinn að ástæða fyrir lækkun vaxta sé sú að gengið sé stöðugt, verðbólga fari lækkandi og því sé rými til vaxtalækkunar. Seðlabankinn hefur áður verið hvattur til þess að hætta að líta á sig sem ómerkari partinn af aðstoðarmannakerfi ríkisstjórnarinnar og taka að iðka það sjálfstæði sem honum ber að gera lögum samkvæmt. Hinar hryllilegu hrakspár annars vegar og rökstuðningur gærdagsins hins vegar hafa sett hann í dapurlegt ljós.