Eftir Egil Ólafsson egol@mbl.is HJÁLMAR R. Bárðarson, fyrrverandi siglingamálastjóri, sem lést 2009, arfleiddi sex stofnanir og félög að öllum eigum sínum. Um er að ræða eitt af stærri dánarbúum sem ánafnað hefur verið.

Eftir Egil Ólafsson

egol@mbl.is

HJÁLMAR R. Bárðarson, fyrrverandi siglingamálastjóri, sem lést 2009, arfleiddi sex stofnanir og félög að öllum eigum sínum. Um er að ræða eitt af stærri dánarbúum sem ánafnað hefur verið. Hjálmar átti mjög góða eign og land í Garðabæ þegar hann lést. Hann átti enga lögerfingja.

Hjálmar arfleiddi Byggðasafn Ísafjarðar, Þjóðminjasafn Íslands, Landgræðslusjóð, Landgræðslu ríkisins, Sjóminjasafnið í Reykjavík og Fuglaverndarfélag Íslands að öllum eignum sínum. Ekki er búið að gera upp dánarbúið og ekki vitað hversu arfurinn er stór, en giskað er á að hann gæti verið 170 milljónir.

Eiríkur Páll Jörundsson, forstöðumaður Sjóminjasafnsins, segir það muna miklu fyrir safnið að fá þessa höfðinglegu gjöf. Fjármunirnir hafi verið notaðir til að gera endurbætur á safninu, en þar hefur verið komið upp Hjálmarsstofu, og til að gera endurbætur á dráttarbátnum Magna sem Hjálmar teiknaði. Magni var notaður í Reykjavíkurhöfn í áratugi, en hann var fyrsti stálbáturinn sem byggður var hér á landi.

10% arfsins fara til Fuglaverndarfélags Íslands. Jóhann Óli Hilmarsson, formaður félagsins, segir að félagið hafi aldrei átt svona mikla peninga áður. Það sé mikill heiður fyrir félagið að fá þessa gjöf, en Hjálmar var félagi í Fuglaverndarfélaginu.

Stóð fyrir smíði fyrsta stálskipsins á Íslandi

Hjálmar Rögnvaldur Bárðarson skipaverkfræðingur fæddist á Ísafirði árið 1918 og lést á síðasta ári, rúmlega níræður að aldri. Hjálmar lauk stúdentsprófi frá MR 1939 og útskrifaðist síðan sem skipaverkfræðingur frá Tekniske Højskole í Kaupmannahöfn 1947. Hann hóf störf hjá Stálsmiðjunni í Reykjavík 1948, þar sem hann hannaði og stóð fyrir smíði fyrsta íslenska stálskipsins.

Árið 1954 var Hjálmar skipaður skipaskoðunarstjóri og síðar siglingamálastjóri og gegndi hann því embætti til 1985, er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir.

Hjálmar var afkastamikill áhugaljósmyndari og gaf út tólf ljósmyndabækur um Ísland og náttúru þess, auk tveggja bóka um íslensk fiskiskip. Eiginkona hans var Else Sørensen Bárðarson.