— Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Bjarna Ólafsson bjarni@mbl.is Uppgangstími síðustu ára fyrir hrun var mörgu hátækni- og hugbúnaðarfyrirtækinu erfiður. Mörg þeirra reiddu sig á útflutning og gera enn, en afar hátt gengi krónunnar var steinn í götu margra fyrirtækja.

Eftir Bjarna Ólafsson

bjarni@mbl.is

Uppgangstími síðustu ára fyrir hrun var mörgu hátækni- og hugbúnaðarfyrirtækinu erfiður. Mörg þeirra reiddu sig á útflutning og gera enn, en afar hátt gengi krónunnar var steinn í götu margra fyrirtækja.

Þá þurftu fyrirtækin að keppa við banka og fjármálafyrirtæki um starfsfólk, einkum tölvunar- og verkfræðinga, en bankarnir gátu boðið mun hærri laun en tæknifyrirtækin treystu sér til að greiða.

Við þetta bætist svo að hugbúnaðariðnaðurinn var í upphafi uppgangstímans enn að jafna sig á hruninu, sem varð í upphafi aldarinnar þegar tæknibólan svokallaða sprakk.

Þrátt fyrir þessi vandamál stækkaði þessi geiri og mörg fyrirtækjanna döfnuðu, þótt minna bæri á þeim en bönkunum. Nú er fjármálakerfið hrunið, bankarnir horfnir úr kauphöllinni og hátæknifyrirtæki eru þriðjungur fyrirtækja í Úrvalsvísitölu Kauphallarinnar og aðallista hennar.

Hafa reynslu af fyrri kreppum

Vissulega eiga sum tækni- og tölvufyrirtæki í erfiðleikum um þessar mundir, enda ekki við öðru að búast miðað við þær hremmingar sem íslenskt atvinnulíf gengur nú í gegnum. Mörg þessara fyrirtækja eru hins vegar svo lánsöm að meðal stjórnenda þeirra er fólk sem gekk í gegnum tæknibóluna og hrunið sem fylgdi í kjölfarið.

Þetta fólk hefur því persónulega þekkingu á því hvernig bregðast eigi við samdrætti og voru mörg fyrirtæki fljót að draga saman seglin þegar stormurinn hófst.

Hátækni og hönnun féll í skuggann af fjármálageiranum þegar fjármálaævintýrið stóð sem hæst, eins og áður segir, og er ekki furða að mörgum forsvarsmönnum þeirra hafi þótt þeir og fyrirtæki þeirra afskipt. Ef til vill er ástæðan fyrir meintu afskiptaleysi stjórnvalda sú að erfiðara er að festa hendur á hvað virkar eða virkar ekki í hátækni og hönnun en í stóriðju, svo dæmi sé tekið. Þá er auðveldara fyrir stjórnmálamann að sjá – og benda á – afrakstur erfiðis síns þegar það er virkjun en þegar það felst í að búa til heppilegt starfsumhverfi fyrir hátækni- og hönnunarfyrirtæki.

Nauðsynlegt að vera sveigjanlegur

Framtíðarspámaðurinn frægi, Alvin Toffler, skrifaði um það sem við köllum upplýsingasamfélagið löngu áður en það varð í raun að veruleika. Eitt af einkennum upplýsingasamfélagsins, að sögn Tofflers, er hve hratt og snögglega aðstæður geta breyst og því þurfa einstaklingar og fyrirtæki að geta brugðist hratt við slíkum breytingum. Stöðnun er andstæð upplýsingasamfélaginu og getur umhverfið breyst mun hraðar en löggjafinn eða embættismenn geta brugðist við.

Nú er hins vegar sem stjórnvöld hafi í fyrsta sinn í raun áttað sig á því hve mikilvægur þessi geiri er fyrir landið þegar til lengri tíma er litið. Ný lög, sem veita fyrirtækjum heimild til að draga frá tekjuskatti hluta þeirrar fjárhæðar sem varið er til rannsókna og þróunar, munu eflaust hjálpa þessum fyrirtækjum.

Það er ekki eins undarlegt og margur kynni að halda að hátækni- og hugbúnaðarfyrirtæki skuli spretta hér upp jafnhratt og raun ber vitni. Íslendingar eru vel menntaðir, tölvu- og tæknikunnátta er mjög almenn og tungumálakunnátta sömuleiðis. Þau þjóðareinkenni, sem virðast hafa hlaupið með íslenska fjármálamenn í gönur, eru alls ekki óheppileg þegar kemur að því að hanna tölvuleiki, eins og einn talsmaður tölvuleikjaiðnaðarins komst að orði.

Fjölbreytileg sköpun

Mikilvægt er að hafa í huga að upplýsingatækni- og hátækniiðnaður er ekki glænýr af nálinni hér á landi og fjöldi rótgróinna fyrirtækja starfar hér á landi í þessum geirum.

Fyrirtæki eins og Marel og Marorka framleiða vörur og þjónustu fyrir sjávarútveg og matvælaframleiðslu. Össur er í fremstu röð í hönnun og framleiðslu á stoðtækjum.

Fjöldi fyrirtækja hannar eða selur viðskiptahugbúnað af ýmsu tagi og má þar meðal annars nefna Skýrr, TM Software og Kerfisþróun, að öðrum fyrirtækjum ólöstuðum. Tölvuleikjafyrirtæki hafa undanfarna mánuði vakið verðskuldaða athygli, en í samtökum leikjaframleiðenda eru nú ellefu fyrirtæki.

Þá eru ótaldir allir þeir fata- og skartgripahönnuðir og listamenn af öllu tagi sem hér starfa, en mikil gróska hefur verið í hönnun undanfarin ár.

Rétt er líka að árétta að skilin milli einstakra geira hönnunar- og hátækniiðnaðar eru alls ekki ljós. Fatahönnuðir og arkítektar hafa til dæmis verið fengnir til starfa hjá tölvuleikjafyrirtækinu CCP til að hanna fatnað og híbýli fyrir sýndarmanneskjur í sýndarheimi.

Fái fyrirtæki og einstaklingar sem þessir andrými til að fóta sig er engin ástæða til annars en að vera bjartsýn á framtíðina.

Samvinna fyrirtækja í stað samkeppni

Óhætt er að segja að íslenskur leikjaiðnaður hafi blómstrað á síðustu misserum. Lengi vel samanstóð geirinn í raun aðeins af CCP og síðar Betware, en nú eru í samtökum leikjaiðnaðarins, IGI, ellefu fyrirtæki og tvær leikjaveitur.

Líkt og með önnur hugbúnaðarfyrirtæki áttu íslensk tölvuleikjafyrirtæki á brattann að sækja meðan útrásin stóð sem hæst. Þurftu þau að keppa við fjármálafyrirtæki um starfsfólk og sterk króna gerði þeim lífið leitt, enda kemur stærstur hluti tekna þeirra frá öðrum löndum.

Stuðningur

Vegna þess hve útflutningstekjur eru yfirgnæfandi stór hluti heildartekna fyrirtækjanna hafa þau ekki séð ástæðu til að leggja í harða samkeppni innbyrðis. Þvert á móti er samstarf og samvinna umtalsverð og hafa eldri fyrirtækin, CCP, Betware og Gogogic, lagt sig fram um að styðja við yngri systkin sín með ráðum og dáð. „Við hjá Sauma höfum fundað með starfsmönnum CCP og Betware, m.a. um rukkunarkerfi og hvernig megi minnka líkur á því að fjársvikarar leiki okkur grátt,“ segir Finnur Magnússon hjá Sauma Technologies og stjórnarmaður í IGI. „Þessi fyrirtæki hafa mikla reynslu af svona löguðu og hafa verið mjög viljug til að miðla henni til okkar. Þá veit ég að yngri fyrirtæki, sem gera út á iPhone-leikjamarkaðinn, hafa leitað til Gogogic um upplýsingar og leiðbeiningar.“

Athyglisvert er að þvert á þá ímynd sem margir hafa af tölvuleikjagerð, þar sem starfsmenn eru allir tölvunarfræðingar, eru starfsmenn tölvuleikjaframleiðenda með afskaplega fjölbreyttan bakgrunn.

Frásagnarlistin

Hjá fyrirtækjunum starfa hagfræðingar, sálfræðingar, sagnfræðingar og bókmenntafræðingar, svo dæmi séu tekin. Í því að búa til góðan tölvuleik felst meira en bara forritun. Einnig þarf næman skilning á mannlegu eðli og hvað það er sem spilarar sækjast eftir í leikjum sínum. Þá er tölvuleikjagerð í raun ein birtingarmynd frásagnarlistarinnar og hafa íslenskir tölvuleikjaframleiðendur verið duglegir að leita í smiðjur goð- og þjóðsagna.

Framtíð fólgin í íslenskri fatahönnun

ÍSLENSKIR fatahönnuðir hafa undanfarin ár vakið síaukna og verðskuldaða athygli fyrir hönnun sína og er iðnaðurinn sífellt mikilvægari fyrir þjóðarbúið í heild sinni. Útflutningur á íslenskum fatnaði hefur aukist nokkuð undanfarin ár, en að öllum líkindum vegur þó sala til erlendra ferðamanna hér á landi þyngra.

Íslenskir fatahönnuðir hafa þó í auknum mæli sótt sýningar og kaupstefnur á erlendri grundu og hefur það skilað sér í sölusamningum við erlenda aðila. Ómögulegt er að telja upp alla þá hönnuði, sem starfa hér á landi, en það segir sína sögu að í Fatahönnunarfélagi Íslands eru hátt í 80 meðlimir.

Minni útblástur og eldsneytiskostnaður

MARORKA er fyrirtæki sem haslað hefur sér völl í sölu orkustjórnunarkerfa fyrir skipaútgerðir sem auðvelda þeim að draga úr eldsneytisnotkun og ná þar með fram sparnaði og minni útblæstri.

Með því að safna upplýsingum í rauntíma um orku- og eldsneytisnotkun í skipum geta útgerðir náð fram umtalsverðum sparnaði.

Eins og í öðrum samkeppnisgeirum skiptir það miklu máli fyrir skipafélög að halda kostnaði í lágmarki og eru lausnir Marorku ein leið til að ná því markmiði.

Marorka var stofnuð í júní árið 2002 og er að stærstum hluta í eigu stofnenda og starfsmanna.

Tellmetwin.com: Íslensk samfélagsvefsíða

ÓÞARFI er að kynna til sögunnar samfélagssíður eins og Facebook og Twitter, en færri þekkja væntanlega síðuna Tellmetwin.com, sem er í þróun sem stendur.

Síðan, sem er íslensk, gengur út á að leiða saman fólk með svipaðan persónuleika og áhugamál. Er þetta gert með því að notendur geta tekið alls kyns próf og greina sjálfir frá áhugamálum sínum.

Vefsíðan getur svo kynnt notandann fyrir fólki, sem hann gæti haft gaman af að kynnast, en einnig getur hún mælt með bókum, tónlist, kvikmyndum eða öðru slíku sem ætti að passa við áhugasvið hans.

Hvert prósent getur skipt höfuðmáli

SAMKEPPNI í matvælaiðnaði getur verið gríðarlega hörð og skiptir það fyrirtæki miklu máli að halda kostnaði í lágmarki og hámarka magn og gæði unninna afurða.

Þegar haft er í huga hve mikið magn af matvælum fer í gegnum venjulega verksmiðju getur hvert prósent skipt máli.

Vélar og tæknilausnir Marels miða að því að auðvelda fyrirtækjum að ná sem mestu út úr hráefninu og er ný lausn dæmi um slíkt. Roðflettivélar eru ekki ný uppfinning, en þær hafa virkað betur á lax og silung en hvítfisk. Ástæðan er sú að bleiki fiskurinn er stinnari og þolir því roðflettinguna betur en sá hvíti.

Lausn Marels felst í flæðilínu, sem kælir fiskinn niður fyrir frostmark án þess þó að frysta hann. Eftir slíka meðferð er fiskurinn mun stinnari en áður og þolir því roðflettinguna betur. Afleiðingin er ekki aðeins betri nýting á fiskinum, heldur eru gæðin meiri og vegna þess hve kaldur hann er þegar hann er kominn í gegnum flæðilínuna alla þarf minni ís til að halda honum köldum í flutningi. Í því felst sparnaður í flutningskostnaði.

Á morgun

Verkefni í heilbrigðisþjónustu, heilsuferðaþjónustu og menntun eru tekin fyrir í fimmtu greininni um sóknarfæri í atvinnulífinu.