Bókhaldskerfi Meniga er heimilisbókhaldskerfi á netinu sem sækir og flokkar sjálfkrafa allar færslur af bankareikningum og greiðslukortum, og sýnir notandanum á myndrænan hátt hvert peningarnir fara.
Bókhaldskerfi Meniga er heimilisbókhaldskerfi á netinu sem sækir og flokkar sjálfkrafa allar færslur af bankareikningum og greiðslukortum, og sýnir notandanum á myndrænan hátt hvert peningarnir fara.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvernig væri að hafa endurskoðanda á vakt allan sólarhringinn, í vinnu við að slá inn kvittanir og kortafærslur um leið og þær verða til, flokka og reikna út útgjaldaliði og veita aðhald og ráðgjöf við að ná fjárhagslegum markmiðum.

Hvernig væri að hafa endurskoðanda á vakt allan sólarhringinn, í vinnu við að slá inn kvittanir og kortafærslur um leið og þær verða til, flokka og reikna út útgjaldaliði og veita aðhald og ráðgjöf við að ná fjárhagslegum markmiðum. Segja má að þessi draumur sé orðinn að veruleika fyrir almenning með tilkomu Meniga.

Flokkað og greint sjálfkrafa

„Kalla má Meniga nýja kynslóð af netbanka. Þetta er fullkomið heimilisbókhaldskerfi á netinu sem sækir og flokkar sjálfkrafa allar færslur af bankareikningum og greiðslukortum, og sýnir notandanum á myndrænan hátt hvert peningarnir fara,“ segir Georg Lúðvíksson, frumkvöðull og framkvæmdastjóri Meniga. „Ekki er nóg með það, heldur getur forritið greint neyslu notenda, gert tillögur að mögulegum sparnaði og birt hagnýtar upplýsingar sérsniðnar að neyslumynstri hvers og eins til að nýta peningana sem best. Meniga getur til dæmis borið eldsneytiskostnað fjölskyldunnar saman við kostnað annarra fjölskyldna með jafnmarga bíla. Eða ef stór hluti af matarinnkaupum heimilisins er gerður í dýrari matvöruverslunum getur forritið komið með tillögu að innkaupum á hagkvæmari stað.“

Gott að hafa yfirsýn

Íslandsbanki og Meniga hafa hafið samstarf til að bjóða viðskiptavinum bankans þessa nýju þjónustu. Gegnum Netbanka Íslandsbanka geta notendur tengt reikninga sína og kort við kerfi Meniga, sem á öruggan hátt vinnur úr gögnunum. „Bankarnir eru allir að reyna að bregðast við ástandinu með lausnum fyrir almenning, og mér finnst þetta vera eitt besta hjálpartækið í kreppunni,“ segir Vilhjálmur Alvar Halldórsson, forstöðumaður netviðskipta hjá bankanum. „Meniga er lausn sem gerir fólki kleift að fá fullkomna yfirsýn yfir fjármálin, setja sér markmið og taka fast á þeim þáttum sem má bæta.“

Þeir Georg og Vilhjálmur segja nauðsynlegt á flestum heimilum að halda heimilisbókhald, og sérstaklega þegar kaupmáttur fer minnkandi eins og nú. Það er hins vegar seinlegt, og ekki sérlega skemmtilegt, að henda reiður á öllum útgjöldunum og skrá samviskusamlega í bókhaldsforrit eða Excel-skjal. „Flest fólk vill frekar verja tímanum í eitthvað annað, og Meniga vinnur megnið af þessari vinnu,“ segir Georg. „Í grunninn snýst þetta um að gera heimilisfjármálin bæði skemmtilegri og auðveldari. Lausnin okkar gerir fólki síðan kleift að spara peninga og finna hagkvæmari leiðir til að kaupa sömu vöru og þjónustu.“

Hjálpar við að ná markmiðum

Vilhjálmur segir það hafa verið mikil umskipti fyrir sig persónulega að taka Meniga í sína þjónustu. „Með Meniga get ég séð strax í hvað peningurinn fer og virkilega gott að geta fylgst með daglegum útgjöldum eða afmörkuðum útgjaldaliðum eins og matarinnkaupum. Ég set mér markmið í ákveðnum flokkum og fæ senda viðvörun ef ég er kominn fram yfir mörkin,“ segir hann. „Forritið getur líka leyft mér að merkja ákveðnar færslur. Til dæmis settist ég við tölvuna um daginn og merkti útgjöld tengd jólunum. Í nóvember keypti ég jólaskraut og pappír í IKEA, hreindýrakjöt og svo ýmislegt fyrir rjúpnaveiðina. Svo bættust við gjafirnar og alls kyns aðrir útgjaldaliðir í desember. Þetta merkti ég fljótt og auðveldlega og tók saman í einni svipan öll útgjöld tengd hátíðunum. Sama má gera til að taka saman og stjórna kostnaðinum við sumarfríið, fermingarveisluna, helgarferðina til Kaupmannahafnar og svo framvegis. Við hjónin settumst svo niður fyrir skemmstu, söfnuðum saman upplýsingum úr Meniga, og gerðum alvöruáætlun til að greina hverju við eyðum nú, hvort við verðum í mínus eða plús í árslok miðað við núverandi útgjöld, og hverju þarf að breyta til að ná settum markmiðum.“

Mun Meniga leggja undir sig heiminn?

„Ég hef fylgst vel með þróuninni á þessu sviði í nokkur ár og ekki enn rekist á flottara eða viðameira tól,“ segir Vilhjálmur. Það liggur því beinast við að spyrja hvort Meniga stefni á útrás. „Fyrirtækið er stofnað með erlenda markaði í huga en fyrsta skrefið er að ná árangri á Íslandi. Reynsla okkar hér skapar traust og greiðir leiðina á erlendum mörkuðum,“ útskýrir Georg. „Ísland er frábær þróunarmarkaður fyrir svona lausnir, og eftirspurnin eftir þjónustu af þessu tagi er mikil um þessar mundir, enda flestir að leita að leiðum til að nýta peninginn sinn betur. Landið hefur einnig þá sérstöðu að nær allar færslur eru rafrænar.“

Georg vonar að áður en langt um líður verði Meniga í boði fyrir alla Íslendinga og byrjað að sækja á stærri markaði. „Við erum núna að tala við banka í Evrópu sem eru mjög áhugasamir um þessa lausn. Það styrkir markaðsstarfið að við gerðum könnun meðal notenda þar sem í ljós kom að 90% voru ánægðir með lausnina og hátt í 90% sögðust myndu mæla með Meniga við aðra.“

Eyðslan vöktuð

Þeir sem reynt hafa vita að það getur verið vandasamt að taka fjármálin föstum tökum. Eins og með svo margt annað í lífinu er auðvelt að falla í freistni og slá aðhaldinu á frest. „Það hjálpar mikið að hafa forrit eins og þetta sem heldur utan um stöðuna á hverju augnabliki og gerir það notandanum að fyrirhafnarlausu. Vandamálið við að halda utan um útgjöldin handvirkt er skortur á eftirfylgni, og það er auðvelt að falla í þá gildru að hafa ekki tíma til að gera bókhaldið reglulega, og sofna um leið á verðinum hvað varðar útgjaldastjórnunina og nota yfirlitsleysið sem afsökun til að eyða,“ segir Georg. „Meniga gengur síðan skrefi lengra með því að greina neysluna, birta sparnaðarráð, og búa til samfélag neytenda til að deila sín á milli sparnaðarráðum sem virka.“