Forskot Samúel segir það lykilatriði þegar viðskiptaákvarðanir eru teknar að hafa góðar upplýsingar í höndunum.
Forskot Samúel segir það lykilatriði þegar viðskiptaákvarðanir eru teknar að hafa góðar upplýsingar í höndunum. — Morgunblaðið/Heiddi
Í heimi viðskiptanna skipta upplýsingar öllu. En það eitt að hafa aðgang að upplýsingunum er ekki nóg – það þarf líka að vera hægt að vinna úr þeim það sem máli skiptir og skilja hismið frá kjarnanum.

Í heimi viðskiptanna skipta upplýsingar öllu. En það eitt að hafa aðgang að upplýsingunum er ekki nóg – það þarf líka að vera hægt að vinna úr þeim það sem máli skiptir og skilja hismið frá kjarnanum.

Þegar kemur að öflun og úrvinnslu fjárhags- og viðskiptaupplýsinga er Creditinfo í fremstu röð hér á landi. „Upphaflega snerist þjónustan um að halda utan um vanskil einstaklinga og fyrirtækja, en fljótlega fóru að bætast í gagnabanka okkar upplýsingar, s.s. úr ársreikningum, hlutafélagaskrá, upplýsingar um greiðsluhagi og eigendur,“ segir Samúel Ásgeir White, forstöðumaður fyrirtækjasviðs Creditinfo.

Allt á einum stað

Creditinfo byggir í dag á grunni tveggja fyrirtækja, annars vegar Lánstrausts sem stofnað var árið 1997 og hins vegar Fjölmiðlavaktarinnar sem á rætur sínar að rekja allt til ársins 1980, en fyrirtækin voru rekin sem systurfélög frá árinu 2004 og runnu saman í ársbyrjun 2008 undir nafni Creditinfo.

„Markmiðið með sameiningunni var að geta veitt viðskiptavinum fyrirtækisins þann möguleika að fá á einum stað fjárhags- og rekstrartengdar upplýsingar sem og yfirlit yfir og greiningu á umræðu fjölmiðla, hvort heldur í prentmiðlum, útvarpi eða sjónvarpi,“ útskýrir Samúel. „Þessi samblanda upplýsinga er sérstaklega mikilvæg í dag þegar flókið getur verið að fá skýra mynd, til dæmis af stöðu fyrirtækis. Það getur þannig vel gerst að frétt um rekstur fyrirtækis eða tilkynning um framtíðarhorfur sé ekki endilega í takt við aðrar upplýsingar um reksturinn. Þeir sem nýta sér þjónustu Creditinfo geta á auðveldan hátt aflað sér þeirra upplýsinga sem þeir þarfnast til að taka réttar ákvarðanir, auka með því öryggi viðskipta og jafnvel skapa ný tækifæri.“

Creditinfo veitir fyrirtækjum ráðgjöf um hvernig hámarka megi nýtingu upplýsinga. „Við höfum fundið fyrir aukinni þörf á skipulögðu aðhaldi og eftirliti og höfum smíðað viðeigandi ferli í kringum upplýsingagrunninn,“ segir Samúel. „Skipta má þessum hluta starfseminnar í þrjú stig: Í fyrsta lagi er það vöktunin sem tryggir yfirsýn yfir alla umfjöllun fjölmiðla, til dæmis með yfirliti að morgni hvers fréttadags eða tilkynningu á tölvupósti. Í öðru lagi er það greiningin, sem tryggir að fyrirtæki sé ávallt meðvitað um áhrif umfjöllunar og geti brugðist við með viðeigandi hætti. Sérfræðingar okkar greina umfjöllun eftir því hvort hún er neikvæð, jákvæð eða hlutlaus og greina líka til dæmis ef sama frétt er jákvæð fyrir eitt fyrirtæki en neikvæð fyrir annað.“

Þriðji liðurinn er heildaryfirsýnin. „Yfirsýnin lokar hringnum og safnar allri umfjöllun og greiningu á einn stað,“ segir Samúel. „Hver notandi er með sitt heimasvæði á notendavef Creditinfo þar sem hægt er að fá á einfaldan og greinargóðan hátt yfirsýn yfir alla umfjöllun og auðveldlega bera kennsl á hvað gæti haft áhrif á fyrirtækið.“

Umræðan á netinu vöktuð

Samúel bendir á að ekki dugi að fylgjast aðeins með hefðbundnum ritstýrðum fjölmiðlum, heldur skipti ekki síst máli hvað á sér stað á óravíddum netsins. Vöktun á umtali og umfjöllun á netinu er nú hluti af vöktunarkerfi Creditinfo. „Neikvæð umfjöllun almennings um vöru eða þjónustu fyrirtækis getur haft mjög slæmar afleiðingar og stjórnendur átta sig í auknum mæli á mikilvægi umræðna, til dæmis á Moggablogginu, Barnalandi eða Facebook.“

Það gefur augaleið að ekki er hagkvæmt fyrir stjórnandann að verja drjúgum hluta vinnudagsins í að þræða vefsíður og leitarvélar í leit að umfjöllun um fyrirtæki sitt eða vöru en með vöktun Creditinfo berst strax tilkynning ef umræða fer af stað. Samúel undirstrikar líka að snör viðbrögð geti gert útslagið þegar neikvæð umræða fer af stað og oft geti umræða á vef farið úr böndunum á örskotsstundu ef ekki er neitt að gert. „Ef aðstæður kalla á það má reyna að stýra umræðunni í rétta átt strax í upphafi, til dæmis með því að leiðrétta misskilning eða koma til móts við óánægðan viðskiptavin,“ segir hann og bendir líka á mikilægi þess að geta fylgst með framvindunni. „Umræða á vinsælum vef eins og til dæmis Barnalandi getur verið saklaus í dag en fljótlega undið upp á sig og valdið gríðarlegum skaða.“

Mikilvæg yfirsýn yfir umræðuna

Orðspor fyrirtækja markast að stóru leyti af umfjöllun fjölmiðla, en það hendir að umfjöllunin er ekki nákvæm eða dregur upp ranga mynd. Samúel nefnir nýlegt dæmi um hvernig Creditinfo notaði eigin tækni til að standa vörð um orðspor fyrirtækisins.

„Á síðasta ári gaf Creditinfo út spá um að 3.500 fyrirtæki myndu lenda í alvarlegum vanskilum eða greiðsluþroti ef stjórnvöld gripu ekki til aðgerða. Fyrir stuttu fór síðan af stað fréttaflutningur á þá leið að spá okkar hefði verið fjarri lagi og umræðan sem varð til samhliða var okkur í óhag og kastaði rýrð á starf okkar og greiningarfyrirtækja almennt,“ segir Samúel. „Með því að vakta og greina umfjöllun um fyrirtækið gátum við snarlega brugðist við og leiðrétt þann misskilning sem hafði átt sér stað, en ástæða þess að hin svartsýnislega spá varð ekki að veruleika var einmitt sú að bæði ríki og fjármálastofnanir gripu til aðgerða, en ekki vegna þess að spáin sem slík væri röng.“

Rétt eins og hægt er að vakta umfjöllun um einstök fyrirtæki er einnig hægt að nota þjónustu Creditinfo til að vakta ákveðin málefni og málaflokka. „Það getur nýst í mörgum geirum að hafa greinargott yfirlit og greiningu á ákveðnu efni. Til dæmis vöktum við umræðu um Icesave fyrir erlenda aðila, þýðum og sendum til þeirra, og erum þannig einhver besta tenging þeirra við umfjöllunina sem á sér stað hér á landi.“

Góð leið til að draga úr áhættu

Creditinfo býður upp á þann möguleika að gefa fyrirtækjum einkunn sem byggð er á öllum þeim upplýsingum sem til eru um fyrirtækið. „Þessi einkunn leggur mat á þætti eins og líkur á alvarlegum vanskilum innan næstu 12 mánaða, jákvæðar og neikvæðar upplýsingar úr umfjöllun og ársreikningum,“ útskýrir Samúel.

Hann bendir á að þessi einkunn geti stórlega einfaldað ákvarðanir um viðskipti. „Fyrirtæki búa að eigin upplýsingum um viðskiptavini en geta með þessu á auðveldan hátt tekið ytri upplýsingar með í reikninginn í viðskiptum sínum. Þessar upplýsingar geta til dæmis gagnast við að ákveða hversu háar úttektarheimildir eiga að vera eða hvort fara þurfi fram á auknar tryggingar,“ segir hann en bætir við að ekki sé látið þar við sitja enda stöðug hreyfing á viðskiptalífinu. „Stöðugt eftirlit skiptir ekki síður máli því skjótar breytingar geta orðið á stöðu viðskiptavinarins sem raska upprunalegum forsendum. Kannski gæti reksturinn reynst betri en áætlanir gerðu ráð fyrir sem síðan kemur fram í einkunn Creditinfo og getur gefið til kynna að hækka megi úttektarheimildir eða bjóða betri kjör.“

Þessar upplýsingar segir Samúel að nálgast megi gegnum vef Creditinfo, en fyrirtæki geti einnig hæglega beintengt þessi verðmætu gögn við eigin grunna. „Upplýsingar frá Creditinfo geta verið hluti af bókhalds- eða viðskiptamannakerfinu og á sjálfvirkan hátt hægt að reikna úr öllum tiltækum upplýsingum og sjá strax hver staðan er frá degi til dags.“