[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
• Pálmi Haraldsson, fyrrverandi meirihlutaeigandi í Fons, er krafinn um háar endurgreiðslur, m.a. vegna persónulegra útgjalda og húsaleigu

• Jón Ásgeir Jóhannesson er krafinn um endurgreiðslu á einum milljarði króna sem Fons greiddi inn á einkareikning hans 18. júlí 2008
• Fyrrverandi eigendur og Matthew Holding eru krafðir um endurgreiðslu á arðgreiðslum frá 2007 fyrir árið 2006 upp á 4,2 milljarða króna

Óskar Sigurðsson, skiptastjóri Fons hf., hefur gefið út á annan tug stefna á hendur fyrrverandi eigendum Fons og tengdum aðilum. Kröfur um endurgreiðslur nema tæpum níu milljörðum króna. Eftir er að birta eina stefnu. Málin verða þingfest 25. febrúar.

Eftir Agnesi Bragadóttur

agnes@mbl.is

KRÖFUR þrotabús Fons hf. á hendur aðilum tengdum Fons hf. nema samtals hátt í níu milljörðum króna. Einkum er um riftunarmál að ræða, en samtals nema fjárhæðir vegna riftunarkrafna þrotabúsins rúmum 7,8 milljörðum króna. Stefnur vegna krafnanna eru á annan tug og hafa allar nema ein verið birtar stefndu.

Í gærmorgun hélt Óskar Sigurðsson, skiptastjóri Fons, fund með kröfuhöfum, en þeirra stærstir eru gamla Kaupþing, Íslandsbanki, gamli Glitnir, Landsbankinn og NBI og samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins var efni stefnanna kynnt á þeim fundi og féllust kröfuhafar á að skiptastjóri fylgdi þeim eftir.

„Við funduðum með kröfuhöfum í morgun og ég kynnti þeim þau riftunarmál sem við höfum nú stefnt vegna og niðurstaða fundarins var sú að skiptastjóri myndi fylgja þessum málum eftir. Við erum búnir að birta öllum nema einum stefnur og 10 málanna verða þingfest hinn 25. febrúar nk. og eitt málanna hinn 15. apríl nk.,“ sagði Óskar í samtali við Morgunblaðið í gær.

Óskar sagði að efnislega væri ekki hægt að fara út í innihald stefnanna á þessu stigi, en þær yrðu vitanlega gerðar opinberar eftir að þær hefðu verið þingfestar. Þó væri hægt að upplýsa að þrotabúið gerði samtals kröfur um tæpa níu milljarða króna.

Stærstur hluti krafnanna beinist að Pálma

Morgunblaðið hefur upplýsingar um að á fundinum með kröfuhöfum í gær hafi komið fram að langstærsti hluti krafnanna beinist að Pálma Haraldssyni, fyrrverandi meirihlutaeiganda að Fons, eða 4,285 milljarðar króna. Samkvæmt sömu upplýsingum eru svipaðar eða sambærilegar kröfur gerðar á Jóhannes Kristinsson, vegna þess að hann sat í stjórn Fons. Líklegt er talið, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, að þar sé um málamyndakröfur að ræða, en samtals eru gerðar kröfur á Jóhannes upp á 4,285 milljarða króna, en krafan á Jóhannes, sem talin er fá staðist að fullu, hljóðar hins vegar upp á 3,4 milljónir króna, sem er bókfærð sem skuld á viðskiptareikningi.

Vilja rifta arðgreiðslum upp á 4,2 milljarða

Sú krafa sem sker sig úr varðandi upphæð er riftunarkrafa upp á 4,2 milljarða króna, á þá Pálma Haraldsson, Jóhannes Kristinsson og Matthews Holding S.A. vegna arðgreiðslna 14. september 2007 vegna ársins 2006.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins var Matthews Holding stofnað á sínum tíma af Kaupþingi í Lúxemborg og mun félagið vera skrásett á Kýpur. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins mun skiptastjóri Fons telja að Pálmi Haraldsson eigi meirihluta í því félagi, en samkvæmt öðrum heimildum er ekki ennþá ljóst hver á í raun og veru Matthews Holding. Það mun væntanlega skipta miklu máli hver eða hverjir eru eigendur Matthews Holding, þegar afstaða verður tekin til þess hvort arðgreiðslunni verður rift eða ekki.

Chalk Investment skráð á Tortola

Þá hefur Almari Erni Hilmarssyni, fyrrverandi forstjóra Sterling, verið stefnt, eða eignarhaldsfélagi í hans eigu, Ramla að nafni, og þess krafist að 16,8 milljónir króna verði endurgreiddar, en þær greiðslur munu hafa verið tilkomnar vegna starfsloka hans.

Þá eru þeir Pálmi og Jóhannes krafðir um endurgreiðslu upp á 47,4 milljónir króna, sem eru tilkomnar í gegnum félagið Chalk Investment, sem skráð er á Tortola-eyju, og á eina eign, íbúð þá í London sem Pálmi hefur búið í undanfarin ár. Krafan á Jóhannes Kristinsson er í þessu tilviki byggð á stjórnarsetu hans, en beinist fyrst og fremst að Pálma, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins.

Krefst endurgreiðslu á húsaleigu

Skiptastjóri gerir kröfu um endurgreiðslu frá Feng ehf. upp á 108 milljónir króna, vegna leigu á húseigninni Suðurgötu 22, þar sem Fons hefur verið með höfuðstöðvar sínar undanfarin ár.

Samkvæmt upplýsingum þeim sem aflað hefur verið var húsaleigan fyrir þetta 500 fermetra hús yfir fjórar milljónir króna á mánuði. Skiptastjóri mun hafa fallist á að sanngjörn húsaleiga geti hafa verið um hálf milljón króna á mánuði og krefst endurgreiðslna sem munar sanngjörnu leiguverði og bókfærðu, eða 108 milljóna króna.

Skiptastjóri krefur Feng einnig um 4,2 milljóna króna endurgreiðslu vegna kaupa á málverkum af Fons á undirverði, sem ofangreindri fjárhæð nemur. Skiptastjóri mun hafa látið verðmeta umrædd málverk. Þrotabú Fons á enn 13 málverk, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins, en málverkin munu á sínum tíma flest hafa verið flutt yfir í Fons þegar Fons keypti Skeljung öðru sinni.

Jón Ásgeir krafinn um einn milljarð króna

Skiptastjóri Fons stefnir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og krefur hann um endurgreiðslu á einum milljarði króna vegna greiðslu frá Fons inn á hans einkareikning í júlí 2008.

Á fundinum í gærmorgun munu hafa komið fram upplýsingar um að endurskoðendur skiptastjóra þurftu að hafa mikið fyrir því að rekja slóð þessarar færslu, svo vel hafi hún verið falin. Hún hafi á endanum komið í ljós, og á þessari færslu sé krafan um endurgreiðslu frá Jóni Ásgeiri byggð.

Líklegt er talið, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, að hér sé um hluta af sex milljarða króna láni að ræða, sem FS 38, félag í eigu Fons, tók í Glitni sumarið 2008 til kaupa á hlutabréfum í Aurum Holding Limited.

Færslan á einum milljarði króna frá Fons inn á einkareikning Jóns Ásgeirs er dagsett hinn 21. júlí 2008.

Önnur stærsta krafan í stefnum skiptaráðenda er á hendur Feng ehf. upp á tæpa 3,5 milljarða króna. Í þeirri stefnu er krafist riftunar á kaupum Fengs ehf. á breska flugfélaginu Astraeus af Fons, en Fengur keypti félagið á 50 þúsund bresk pund. Skiptastjóri mun hafa látið verðmeta flugfélagið og krafa er gerð um riftun kaupanna og endurgreiðslu á þeim fjármunum sem munar á verðmatinu og söluverðinu, eða 3,5 milljörðum króna.

Loks ber að geta riftunarkröfu og kröfu um endurgreiðslu upp á 40 milljónir króna, þar sem þeir Almar Örn, Jóhannes og Pálmi eru allir skráðir fyrir kröfunni, en engum hefur verið birt stefna vegna þessarar kröfu, a.m.k. ekki enn, vegna þess að Almar Örn er skráður fyrir greiðslum til félags að nafni Ulmfort Advisors, en enn hefur skiptastjóra ekki tekist að útvega neinar upplýsingar um félagið, starfsemi þess eða tilgang, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Unnið verður áfram að því að afla upplýsinga um umrætt félag, og þá jafnframt leita svara við því hvort félagið er yfir höfuð til.

Kröfur skiptastjóra sorglegar

Pálmi Haraldsson var í gærkvöldi spurður hvað hann segði um 4,285 milljarða kröfur skiptastjóra Fons á hendur honum. „Mér finnst þetta bara sorglegt, að bústjórinn skuli hafa valið að fara þessa leið, með tilheyrandi kostnaði fyrir þrotabúið. Það vekur undrun mína að hann skuli stefna mér í þessum málum, þar sem frá mínum bæjardyrum séð er það algjörlega augljóst mál að þrotabúið mun aldrei vinna þessi mál á hendur mér,“ sagði Pálmi. „Ég hef látið sérfræðinga, sem ég tel vera þá færustu á sínu sviði, bæði lögmenn og endurskoðendur, skoða kröfuna um arðgreiðsluna og endurgreiðslu á henni. Arðgreiðslan stenst skoðun frá öllum hliðum séð og þar var farið að lögum og reglum sem í gildi eru um slíkar arðgreiðslur. Því er mér það algjörlega óskiljanlegt að skiptastjórinn skuli stefna í þessu máli,“ sagði Pálmi.

Aðspurður um kröfuna á Feng um endurgreiðslur vegna sölu Fons á Astraeus-flugfélaginu til Fengs sagði Pálmi: „Skiptastjóri metur þetta svona. Ég lét fara fram óháð mat þriðja aðila á félaginu og kaupin voru byggð á þeim grunni nákvæmlega eins og gert var með Iceland Express. Ég mun leggja fram það mat sem ég lét gera og niðurstaðan mun alveg örugglega verða mér í hag. Auðvitað verður þetta allt kostnaður fyrir þrotabúið og rýrir eignir þess. Menn skulu ekki gleyma því að í þrotabúi Fons voru á fimmta milljarð króna og því eftir miklu að slægjast fyrir bústjóra að borða kjötið sem er á beinunum.“ Ekki náðist í Jón Ásgeir í gær.